Ég heyrði að rithöfundurinn Hermann Stefánsson hefði spurt inni í bergmálshellinum í gær hvort nú væri rétt að leggja Nóbelsverðlaunin í bókmenntum niður. Hvort ekki væri hvort sem er komið nóg og tímabært að slútta? Hann segir ekki hvers vegna hann beri fram þessa spurningu og heldur ekki hvort hann prívat og persónulega vilji leggja þau niður. (Hann fékk fyrirsjáanleg svör við spurningu sinni.) Maður getur líka spurt hvers vegna ætti að leggja þessi verðlaun niður, en það hefur verið vinsælt viðhorf á síðustu árum. Á Hermann kannski við að leggja eigi öll bókmenntaverðlaun niður eða bara Nóbelsverðlaunin?

Bókmenntaverðlaun Nóbels hafa verið veitt árlega síðan árið 1901 (með fáum undantekningum). Það var franska ljóðskáldið Sully Prudhomme sem fyrstur fékk verðlaunin. Upphaflega voru Nóbelsverðlaun hugsuð handa þeim sem hefði árið áður gefið út verk sem þótti sæta mestum tíðindum í bókmenntum samtímans. Undanfarna áratugi hefur þó sú hefð skapast að verðlauna höfundarverk í stað eins verks. Einn Íslendingur hefur unnið bókmenntaverðlaun Nóbels. Hver var það? (Getraun.  Vegleg verðlaun. Tvöhundruð milljónir í boðið fyrir þann sem getur svarað rétt. Svar sendist asta.s.gudbjartsdottir@gmail.com og engan skæting.)

Verðlaunin (sem sagt Nóbelsverðlaunin) eru veitt af Sænsku akademíunni sem árlega fær um það bil 200 tillögur að nýjum verðlaunahafa. Þær tillögur eru ræddar og í tveimur atrennum er listinn skorinn niður í um að bil 20 höfunda og síðan niður í um það bil fimm höfunda áður en verðlaunahafinn er fundinn. Nafn hins nýja verðlaunahafa eru venjulega tilkynnt í byrjun októbermánaðar ár hvert.

Meðlimir í akademíunni eru átján en nú, hinn 7. maí, eru átta stólar auðir í akademíunni og nefndin er óstarfhæf.

Hvað fær svo verðlaunahafinn?
1. Nóbelsverðlaunahafinn fær medalíu; Nóbelsmedalíu úr gulli.
2. Nóbelsverðlaunahafinn fær heiðursbréf (diplom).
3. Nóbelsverðlaunahafinn fær tilboð um að gerast sænskur ríkisborgari.
4. Nóbelsverðlaunahafinn fær peninga. Nú er upphæðin 10 milljónir sænskra króna sem eru á gengi dagsins um það bil 116 milljónir íslenskra króna.

Auk þess að fela í sér verðlaunagripi, upphefð og peninga vekja verðlaunin jafnan endurnýjaðan áhuga á verkum hins nýbakaða Nóbelsverðlaunahafa. Forlög verðlaunahafans um allan heim endurprenta útkomnar bækur hans eða hennar í aðgengilegum útgáfum og bókabúðir setja verk höfundarins í heiðurssess í hillum sínum.

En er þetta allt nægjanlegt til að halda áfram að veita verðlaunin? Hver væri ástæðan til að veita þau ekki?