„Hvers dóttir er hún Ásta S.? Vill hún ekki skrifa fyrir mig ritdóm?“ spurði ónefndur menningarrýnir (M.) í pósti til mín nýverið.

Við  höfðum hist í Árnagarði nokkrum dögum fyrr, ég hafði beðið hana um að messa yfir nemendum mínum um listgagnrýni, en mér þótti samt svolítið óþægilegt að hún skyldi vera að spyrja mig um þetta efni. Skýringin hlaut að vera sú að ég hafði nærri daglega deilt fréttum af Bókaskáp Ástu S. á facebókarsíðunni minni.

„Hún er Guðbjartsdóttir. Millinafnið er, að mig minnir, Sóllilja. Viltu að ég spyrji hana?“ svaraði ég varkár.

Svarið kom um hæl: „Já takk!“

Ég hefði auðvitað getað boðist til að senda M. netfangið hennar Ástu en ég vissi ekki alveg hvernig það myndi enda. Sjálfum hafði mér borist póstur um miðjan janúar þar sem Ásta S. sagðist ætla að koma á fót veffréttasíðu sem yrði helguð léttvægri bókmenntaumfjöllun (hún notaði reyndar orðið „bókmenntamoli“ sem hljómaði draugalega líkt latneska máltækinu Memento mori). Erindið var að kanna hvort ég gæti lagt henni lið, af og til. Takmarkið væri að birta einn mola á dag í þúsund daga og Ásta sagðist tæpast treysta sér til að halda dampi svo lengi.

Ég tók vel í hugmyndina en kvaðst samt vona að hún væri í sambandi við fleiri gamla vinnufélaga okkar af Bjarti út af þessu verkefni. Hún sagðist hafa skrifað tveimur af prófarkalesurum forlagsins, bókaranum okkar fyrrverandi, nokkrum þýðendum og höfundum, hirðljósmyndaranum í kjallaranum, og einnig plakatupphengjaranum minnuga sem hringt var í þegar upplestrarkvöld voru á döfinni. Einnig hefði hún skrifað sjálfum forleggjaranum, sem eitt sinn var, „en hann hefur reynst tregur í taumi enda heldur hann sjálfur úti sinni eigin vefdagbók“. Ég glotti þegar ég las þessi síðustu orð. Mig grunaði nefnilega að það væri einmitt forleggjarinn sjálfur sem hefði skrifað þau. Hann hafði stundum áður beitt nafni Ástu S. fyrir sig.

Og þess vegna vildi ég síður senda M. netfangið hennar. Það var ómögulegt að vita hvernig samskiptum þeirra tveggja myndi lykta. Ég skrifaði því Ástu sjálfur, fékk fljótlega svar og skrifaði M. svo aftur daginn eftir. Samskipin voru á spjallhluta facebókar og hljómuðu nokkurn veginn svona:

JK: Ásta er jákvæð. hún er líka upp með sér. Varstu að hugsa um eitthvað sérstakt efni? Og einhvern sérstakan skiladag? (Hún er svolítið móð, eftir þessa fyrstu 40 mola sína.)

M.: Ég las þennan síðasta mola sem þú hlekkjaðir við á FB og varð hrifin. Ég er ekki búin að fá neinn til að skrifa ritdóm um Ármann svo hún gæti tekið hann en Yrsa Þöll er pöntuð. Ég á líka fleiri lausar ef hún vill koma í spjall við mig beint.

JK: Það væri kannski meira í hennar stíl að skrifa eitthvað káserískt, til dæmis um efnið: Hvernig aukum við bókmenntaáhuga karlpeningsins?

M.: Ég skil. En það voru ritdómar sem ég var að hugsa um. … Ef þú skilur mig.

JK: OK, bið Ástu að sofa á þessu.

Mér leið svolítið einkennilega eftir þessi samskipt. M. hafði skrifað mér í góðri trú og ekki vildi ég vera að blekkja hana von úr viti. En um leið fannst mér hálfgerð synd að upplýsa að Ásta S. væri líklega dulnefni sem ýmsir höfundar hefðu verið að birta pistla undir undanfarnar vikur. Það var til dæmis afar óljóst hver hafði skrifað umræddan pistil um Ármann Jakobsson og Yrsu Þöll Gylfadóttur. Hann var alls ekki í anda Snæbjörns en ég vissi að ein þeirra kvenna sem stundum vann fyrir Bjart hafði verið að tala vel um bókina hennar Yrsu, meðal annars í mín eyru. Sjálfur hafði ég verið að hvetja fólk í kringum mig til að lesa bók Ármanns.

Áður en mér hafði gefist tóm til að senda Ástu skýrslu um stöðu mála í framhaldi af spjalli okkar M. heyrðist aftur bling úr fartölvunni minni.

M.: Bíddu aðeins. Er þetta stelpa eða strákur?

JK: Það er erfið spurning, Ásta er kvenpersóna í bók eftir karlhöfund, en líka gömul samstarfskona okkar Snæbjörns á Bjarti sem er skírður í höfuðið á pabba hennar, sem þó er ekki pabbi hennar. Þetta er álíka flókið og í leikriti eftir Shakespeare, þar sem karlleikarar léku kvenpersónur sem dulbjuggu sig upp sem karla.

M.: Ég er auðvitað fræg fyrir fattleysi! Ég hélt að þetta væri nemandi þinn.

JK: Nei, það er allt önnur Ásta. En ef þig vantar hæfileikaríka höfunda til að skrifa í tímaritið þá geturðu vonandi fundið einhverja í þessum hópi hér.

M.: Ástarþakkir! Og ég bið að heilsa Ástu S. Hann getur ekki að því gert að hann er ekki kona.