Ta eis heauton – Til mín sjálfs eftir Marcus Aurelius

Marcus Aurelius er fremstur meðal stóíkera og var uppi á þeim tímum þegar kristnir menn voru álitnir vafasamur sértrúarhópur. Hann var keisari fyrir 50 miljónir manna, barðist við Germani eða Júgóslava á daginn og skrifaði heimspeki um hið friðsamlega og náttúrulega líf á kvöldin. Hann skrifaði á grísku, og titillinn hér að ofan þýðir bókstaflega ‘hlutir manns sjálfs´, og er gjarna þýtt sem Meditations, Hugleiðingar eða Til meg selv, Til mín sjálfs. Ég þekki ekki til íslenskrar útgáfu þessarar bókar, og er það skömm ef rétt reynist.

Það má segja að hér sé allt til staðar sem hægt er að biðja um í einni bók. Einlægni textans markast af því að hann sá aldrei fyrir sér að aðrir myndu lesa, textinn er til hughreystingar fyrir hann sjálfan og skipast hann þar á bás með mönnum eins og Kafka. Þetta er tímalaust verk. Til marks um það mætti líta á það sem hann skrifar um facebook: «Kastaðu ekki á glæ því sem eftir er af lífi þínu í hugsanir um aðra, nema þær hugsanir séu samfélagi þínu til gagns. Því það hindrar þig í að gera eitthvað gagnlegt, þegar þú hugsar um hvað þessi eða hinn er að gera, og hví hann gerir svo, og hvað hann segir, og hvað hann óskar sér, og hvaða áætlanir hann hefur og allt þvíumlíkt. Það truflar þig svo þú missir sjónar á þínu innsta sjálfi.» (mín lauslega þýðing, 3. bók IV).

Marcus boðar einskonar skynsemis-mystík, þó hans «ratio» sé reyndar annað og meira en okkar nútímaskynsemi. Guðdómsgneistinn í hverjum manni var skynsemi hans, og hann sá fyrir sér að þessi andi sameinaðist hinni æðstu al-skynsemi eftir dauðann. Náttúran var hans meistari í einu og öllu, það var æðsta takmark mannsins að lifa í sátt við hana og sína eigin náttúru. Þannig var það manninum náttúrulegt að vera góður við aðra menn og vera samfélagi sínu til gagns, og allir ráðamenn áttu að vera til hagsældar því fólki sem þeir stýrðu – annars var það ónáttúra. Hér verður manni hugsað til þess hve síðkapítalismann hefur borið af leið. Svo er hann á köflum firn fyndinn um leið og hann minnir á hve gildismat okkar er hverfult. Alltaf þegar hann lenti í því að verða ástfanginn, þakkaði hann guðunum fyrir hve fljótt það leið hjá. Og þetta segir keisarinn lífsþreytti um umvöndunarsemi: «Fólk kemur til með að halda áfram á sama hátt, þótt þú verðir svo reiður að þú springur.» (8. bók, IV). 

Hér skín hreinleiki mannlegrar hugsunar skært, djúpur andi lyftir sér upp úr krefjandi aðstæðum sem flestir myndu brotna undan. Því er þessi óhátíðlega og frumspekilega rödd gild leið til að fara aftur til upphafsins. Á tímum umróts og mikilla breytinga mætti ætla hollt að leita aftur til upprunans, og hugleiða það sem virkilega skiptir máli. Keisarann gamla lít ég á sem vin sem ég stöðugt leita til þegar á móti blæs, sem er hérumbil alltaf sé miðað við hina «alíslensku hríð».

 BB