„Emily Dickinson hjet amerísk stúlka, er var skáld gott. Fyrst nú, er hún er löngu komin undir græna torfu, er farið að veita ljóðum hennar eftirtekt. Hefir frænka hennar, Martha Dickinson Bianchi, nýlega látið gefa út öll ljóð hennar. Hjer er eitt af smákvæðunum hennar, birt fyrir þá lesendur blaðsins, sem ensku skilja. Er það úr kvæðaflokki, sem hún kallar ,,ást“ .“

Það var árið 1924 sem eitt magnaðasta ljóðskáld bandarískrar bókmenntasögu var kynnt í fyrsta skipti fyrir Íslendingum með þessum orðum í stuttum ljóðadálki í Morgunblaðinu undir fyrirsögninni „Hitt og þetta“. Líkt og Magnús Sigurðsson  rakti í fyrirlestri sínum „Emily Dickinson í íslenskum prentmiðlum“ á Hugvísindaþingi í Háskóla Íslands 9. mars hefur umfjöllun um skáldkonuna hér á landi verið í skötulíki allar götur síðan og gjarnan miðast við fáar og afgerandi klisjur um lífshlaup hennar.

Lögð er áhersla á að Emily hafi búið öll 56 ár ævi sinnar í sama húsinu í smábænum Amherst í Massachusetts (sjá mynd), hún hafi haft dálæti á hvítum klæðum, síðustu ár ævinnar hafi hún ekki farið út úr húsi (jafnvel ekki út úr svefnherberginu sínu) og helst hafi hún kosið að eiga í samræðum við aðra í gegnum lokaðar dyr. Síðast en ekki síst er hamrað á því að þó að tilvist Emily hafi snúist um ljóðlist þá hafi hún vegna feimni eða hógværðar verið  andsnúin því að birta verkin sín (ekki birtust nema um 10 ljóð hennar meðan hún var á lífi, ekkert þeirra undir hennar rétta nafni, en alls skildi hún eftir sig um 1800 ljóð). Emily hefur, með öðrum orðum, oftast verið lýst sem fremur heftri piparmey er fengið hafi útrás fyrir lífsþorsta sinn í ljóðum sem almenningur sá hvorki né þekkti.

Magnús gat þess þó jafnframt að sumir þeirra sem fjallað hafa um ævi skáldkonunnar á seinni árum dragi upp mun fjölbreyttari mynd af persónuleika hennar. Og eins og gjarnan gerist í kjölfarið á slíku endurmati á þekktum einstaklingum ratar það með tíð og tíma til almennings. Í þessu sambandi má rifja upp að árið 2016 var frumsýnd ný kvikmynd um Emily, A Quiet Passionsem Terence Davies skrifaði handrit að og leikstýrði. Hér leikur Cynthia Nixon mun líflegri persónuleika en hefðin hefur skammtað Emily í gegnum tíðina; skáldkonan er glaðlynd, stríðin, heillandi, hnyttin, full af mótsögnum og auðvitað eldskörp.

Plagat þessarar kvikmyndar blasir við gestum sem heimsækja hús Dickinson-fjölskyldunnar í Amherst þessar vikurnar en ef einhverjum dettur í hug að spyrja konuna sem þar starfar hvort hún hafi séð viðkomandi kvikmynd og hvort myndin sé góð þá eru svörin afdráttarlaus: „Já og nei.“ Síðara svarið rökstyður þessi vísa og viðræðugóða kona með vísan til loka kvikmyndarinnar þar sem Nixon túlkar biturleika Emily á efri árum: „Það kemur engan veginn heim og saman við það sem við vitum um ævi hennar. Hún var ástfangin síðustu árin sem hún lifði, í sambandi við sér eldri mann, en hann dó ári á undan henni. Það olli henni sannarlega sorg en ekki þeim biturleika sem myndin lýsir.“

Sunnudaginn 11. mars síðastliðinn var frumsýnd í Bandaríkjunum önnur kvikmynd um ævi skáldkonunnar, Wild Nights With Emily, í leikstjórn Madeleine Olnek sem einnig skrifar handritið.  Í þessari mynd er gengið enn lengra í þá átt að frelsa skáldkonuna undan gömlu klisjunum. Höfuðáhersla er lögð á meint lesbískt samband Emily við æskuvinkonu sína og síðar mágkonu, Susan Gilbert. Í nýlegu viðtali segir Olnek meðal annars: “Mér finnst svo áhugavert að hún hafi verið kynnt fyrir almenningi sem pipruð einsetukona sem vildi ekki umgangast fólk þegar hún lagði sig í rauninni alla fram um að fá ljóð sín útgefin, lifði fjörugu tilhugalífi og var fyndin.“

Þegar konan sem tekur svo alúðlega á móti gestum í anddyri Dickinson-hússins í Amherst er spurði hvort hún hafi einnig séð þá mynd svarar hún aftur afardráttlaust: „Nei, ég hef ekki heyrt neitt um þá mynd.“ Og þegar hún er upplýst um efni myndarinnar andvarpar hún þunglega. „Samband þeirra Emily og Susan var afar flókið en það bætir ekki úr skák þegar nútímafólk byrja að túlka það með hliðsjón af því hvernig við sjáum samband tveggja einstaklinga af sama kyni í nútímanum. Á 19. öld voru í gildi allt aðrar reglur um það hvernig fólk umgekkst hvert annað og hvernig það talaði hvert við annað, svo ekki sé minnst á hvernig það ávarpaði hvert annað í bréfum eða ljóðum.“ Svarið og ekki síður tónninn gefa til kynna að það sé giska ólíklegt að plakatið fyrir Wild Nights with Emily verði hengt upp í Dickinson-safninu í Amherst við hliðina á plakatinu fyrir A Quiet Passion.

Í ljósi þessara ólíku sjónarmiða er við hæfi að birta hér í lokin ljóðið eftir Emily Dickinson sem prentað var í Morgunblaðinu árið 1924. Út frá því og hinum 1799 ljóðum skáldkonunnar getur hver og einn lesandi dregið sína eigin ályktun um það hvaða mann Emily hafði að geyma:

My river runs to thee:
Blue sea, wilt welcome me?

My river waits reply.
Oh sea, look graciously!

I ’ll fetch thee brooks
From spotted nooks,—

Say, sea,
Take me!