Bretar eru hrifnir af bókalistum og þeir ágætu blaðamenn sem halda uppi bókmenntaumræðunni hjá breska dagblaðinu The Guardian virðast fá alveg sérstaklega mikið út úr því að setja saman lista yfir „bestu“ bækur. Við sem sinnum Bókaskápnum hennar Ástu Sóllilju í frístundum höfum stundum áður sagt af slíkum listum hér, til að mynda lista Times Literary Supplement yfir bestu skáldsaganhöfunda Bretlandseyja, en þar skipuðu þær Ali Smith, Hilary Mantel og Zadie Smith efstu þrjú sætin.  Á það var bent að aðeins hefur verið þýtt verk eftir þá síðastnefndu á íslensku en það er bókin Áritunarmaðurinn (The Autograph Man) sem Helga Soffía Einarsdóttir þýddi af mikilli hind fyrir bókaforlagið Bjart árið 2004.

Á bókamenntasíðum The Guardian má þessa dagana finna ýmsa bókmenntalista. svo sem yfir 100 bestu skáldverk allra tíma og 100 bestu „óskálduðu“ bækur allra tíma (non-fiction, sem á íslensku eru oft nefnd fræðirit og rit almenns efnis). Þriði listinn af þessu tagi nær yfir 100 bestu bækur okkar aldar (skáldaðar og óskáldaðar). Sannarlega beinist athyglin um of að verkum sem frumsamin eru á ensku (Þjóðverjar myndu líklega setja saman allt öðruvísi lista) en það er engu að síður forvitnilegt að kanna hve margar af þessum úrvalsbókum samtímans hafi ratað til Íslands í þýðingum. Íslensk gerð þessa sama lista, 20 þýdd rit samkvæmt lauslegri talningu, lítur svona út (það er að vísu vel hugsanlegt, og raunar afar líklegt, að einhverjar íslenskar útgáfur liggi hér óbættar hjá garði):

98. Karlar sem hata konur eftur Stieg Larsson, Halla Kjartansdóttir þýddi, útgefandi Bjartur.

97. Harry Potter og eldbikarinn eftir J.K. Rowling, Helga Haraldsdóttir þýddi, útgefandi Bjartur.

95. Annálar, fyrsta bindi eftir Bob Dylan, Guðmundur Andri Thorsson þýddi. útgefandi Bjartur.

85. Ranghugmyndin um guð eftir Richard Dawkins, Reynir Harðarson þýddi, útgefandi Ormstunga.

82. Kóralína eftir Neil Gaiman, Margrét Tryggvadóttir þýddi, útgefandi Mál og menning.

69. Ástir eftir Javier Marías, Sigrún Ástríður Eiríksdóttir þýddi, útgefandi Bjartur.

66. Sjö stuttir fyrirlestrar um eðlisfræði eftir Carlo Rovelli, Guðbjörn Sigurmundsson íslenskaði, útgefandi Ugla.

41. Friðþæging eftir Ian McEwan, Rúnar Helgi Vignisson þýddi, útgefandi Bjartur.

32. Meistari allra meina : ævisaga krabbameins eftir Siddhartha Mukherjee, Ólöf Eldjárn þýddi, útgefandi Forlagið.

25. Eins og fólk er flest eftir Sally Rooney, Bjarni Jónsson þýddi, útgefandi Benedikt.

24. Nútíminn er trunta eftir Jennifer Egan, Arnar Matthíasson þýddi, útgefandi Bjartur.

21. Sapiens: mannkynssaga í stuttu máli eftir Yuval Noah Harari, Magnea J. Matthíasdóttir þýddi, útgefandi JPV.

19. Furðulegt háttalag hunds um nótt eftir Mark Haddon, Kristín R. Thorlacius þýddi, útgefandi Mál og menning

17. Vegurinn eftir Cormac McCarthy, Rúnar Helgi Vignisson þýddi, útgefandi Bjartur.

12. Samsærið gegn Bandaríkjunum eftir Philip Roth. Helgi Már Barðason þýddi, útgefandi Hólar.

11. Framúrskarandi vinkona eftir Elena Ferrante, Brynja Cortes Andrésdóttir þýddi, útgefandi Bjartur.

10. Hálf gul sól eftir Chimamand Ngozi Adichie, Ingunn Ásdísardóttir þýddi, útgefandi Bjartur.

6. Skuggasjónaukinn eftir Philip Pullman, Anna Heiða Pálsdóttir þýddi, útgefandi Mál og menning.

4. Slepptu mér aldrei eftir Kazuo Ishiguro, Elísa Björg Þorsteinsdóttir þýddi, útgefandi Bjartur.

2. Gilead eftir Marilynne Robinson, Karl Sigurbjörnsson íslenskaði, útgefandi Ugla.

Í fyrsta sæti á enska listanum er Wolf Hall eftir Hilary Mantel en hún kom út árið 2009 og hlaut höfundur Booker-verðlaunin í kjölfarið fyrir verkið. Því má spyrja, líkt og áður, hvort ekki sé orðið tímabært að Mantel sé þýdd á íslensku. Líklegast má telja að bókaforlagið Bjartur fylli í þessa eyðu, en það hefur gefið út helming þeirra rita á lista The Guardian sem þýdd hafa verið á íslensku. Rúnar Helgi Vignisson er eini þýðandinn sem hefur þýtt tvö verk á listanum en það eru Vegurinn eftir Cormac McCarthy og Friðþæging eftir Ian McEwan.