Nú berast þær fréttir að rekstur bókabúðar Máls og menningar, sem lengi var flaggskip bóksölu í Reykjavík, sé til sölu.  Eftirfarandi bréf var sent til nokkurra sem gætu hugsanalega haft áhuga á rekstri búðarinnar.

„Er með rekstur til sölu á einum besta stað við Laugaveginn rétt fyrir ofan Bankastræti. Um er að ræða verslun á tveimur hæðum og kjallari.  Hluti af efri hæðinni er rekin sem veitingahús en hinar hæðirnar eru reknar sem bókaverslun. Hægt er að stækka veitingareksturinn,  minnka bókaverslunina og bæta við annars konar seljanlegri vöru en það eru margir möguleikar þar.
    Frábær staðsetning fyrir allskonar gjafavörur í miðdepli ferðamannastraumsins. Þarna getur verið allskonar verslunar og veitingarekstur.

Af auglýsingunni má lesa að bókaverslun í húsnæðinu er ekkert forgangsatriði og mætti ætla að veitingareksturinn og ferðamannavörur séu framtíðarverslunarvarningur á Laugavegi 18. Bókabúð Máls og menningar við Laugaveg hefur lengi verið með stærstu og öflugust bókabúðum landsins. Búðin var stofnuð 1940. Nokkur útibú voru stofnuð síðar, hið stærsta þeirra við Síðumúla.

Bókabúðin var lengst af í eigu bókaforlagsins Máls og menningar en árið 2003, ekki löngu eftir sameiningu bókaútgáfunnar við Vöku-Helgafell í Eddu – miðlun, voru verslanirnar seldar til Pennans/Eymundssonar vegna fjárhagsörðugleika og sameinaðar verslunum Pennans.

Verslunin á Laugaveginum hélt þó nafninu Bókabúð Máls og menningar áfram þar til hún flutti á Skólavörðustíg sumarið 2009. Skömmu síðar var opnuð ný bókaverslun í húsnæðinu á Laugavegi 18 undir nafninu Bókabúð Máls og menningar. Hún er þó ótengd bókaforlaginu.

En nú er flaggskip íslenskrar bóksölu sem sagt á grafarbakkanum og þegar dauðaandvarpið verður staðfest, kemur væntanlega enn ein lundabúðin á Laugaveginn íslensku menningarlífi til gleði.