Síðar í þessum mánuði kemur út vorhefti Skírnis undir ritstjórn þeirra Ástu Kristínar Benediktsdóttur og Hauks Ingvarssonar. Páll Valsson lét af störfum sem ritstjóri um áramót, en hann tók við starfinu af Halldóri Guðmundssyni síðsumars árið 2012. Þau Ásta Kristín og Haukur eru bæði bókmenntafræðingar. Síðastliðið haust varði Ásta Kristín doktorsritgerð um Elías Mar og samkynja langanir í skáldverkum hans frá fimmta áratug 20. aldar og innan tíðar mun Haukur verja doktorsritgerð um orðspor Williams Faulkners á Íslandi á árunum 1930 til 1960. Ásta Kristín er fyrsta konan til að setjast í ritstýrustól þessa elsta menningartímarits Norðurlanda en Finnur Jónsson sat í ritstjórastólnum fyrstur árið 1827. Meðal annarra sem gegndu starfinu í lengri eða skemmri tíma fyrr á árum voru Baldvin Einarsson, Konráð Gíslason, Brynjólfur Pétursson, Jónas Hallgrímsson, Grímur Thomsen, Guðbrandur Vigfússon, Einar H. Kvaran, Guðmundur Finnbogason, Einar Ólafur Sveinsson og Ólafur Jónsson.

Þegar Ásta Kristín var spurð hvort hún ætti sér eftirlætisgrein eða -hefti úr hinni 194 ára sögu Skírnis nefndi hún grein úr vorhefti tímaritsins frá árinu 1998. „Sú grein í Skírni sem ég hef oftast lesið, vitnað í, talað um og deilt með öðrum er tímamótagrein Geirs Svanssonar, „Ósegjanleg ást“ í  sem fjallar um hinsegin fræði og skáldskap í íslensku samhengi. Þetta er efnismikil og metnaðarfull grein sem kynnir nýtt fræðasvið á íslensku og beitir fræðunum við greiningu á nýjum íslenskum skáldverkum eftir Vigdísi Gríms, Kristínu Ómars og Guðberg; grein sem hefur veruleg og varanleg áhrif því síðan þá hefur varla verið hægt að ræða skáldverkin og höfundana án þess að umfjöllun Geirs liggi í loftinu, beint eða óbeint. Ef ég bæri lukku til að birta slíka grein í Skírni einhvern tímann held ég að ég gæti sest sátt í helgan stein! Í þeim anda verð ég líka að nefna fyrsta heftið sem Sveinn Yngvi Egilsson og Svavar Hrafn Svavarsson ritstýrðu vorið 2000 en þar birtist alræmd grein Ármanns Jakobssonar um kynusla í Njálu, blautlegar vísur Unnar Marðardóttur úr sömu sögu og síðast en ekki síst umfjöllun Auðar Övu Ólafsdóttur um erótískar endur í myndverkum Hannesar Lárussonar. Þetta er að mínu mati afar hressandi og fersk innkoma í ritstjórn Skírnis – ég veit ekki hvort við Haukur náum svipuðum árangri en ég held að við höfum gert okkar besta!“

Þegar sama spurning var lögð fyrir Hauk nefndi hann þýðíngu úr vorhefti tímaritsins frá árinu 1993: „Ef ég ætti að nefna eitthvað efni í Skírni sem hefur haft mikil og varanleg áhrif á mig þá kemur þýðing Sigríðar Þorgeirsdóttur og Magnúsar Diðriks Baldurssonar á ritgerð þýska heimspekingsins Friedrichs Nietzsches „Um sannleika og lygi í ósiðrænum skilningi“ upp í hugann“. Hún var kennd í heimspekilegum forspjallsvísindum þegar ég var að hefja nám við Háskóla Íslands og þetta er sú tegund af texta sem ég held að stúdentar bæði þrái og óttist að lesa.“

Aðspurð út í áherslur þeirra og efni væntanlegs vorheftis rifjaði Haukur upp að tímaritið vildi í upphafi flytja Íslendingum fregir utan úr heimi. „Við horfðum til þess þegar við fórum að falast eftir efni í fyrsta heftið sem við ritstýrum en við verum mjög stolt af því að birta kafla úr bók hvít-rússneska nóbelsverðlaunaskáldsins Svetlönu Aleksevítsj Tsjernobylbæninni. Gunnar Þorri Pétursson þýðir og ritar formála en þess má geta að forlagið Angústúra gefur bókina út í heild sinni á næsta ári. Bókin hefur verið mikið í umræðunni á síðasta ári vegna sjónvarpsþáttaraðar HBO um Tsjernobyl-slysið en þeir byggðu á bók Aleksevítsj að verulegu leyti. Þegar við óskuðum eftir þýðingunni óraði okkur ekki fyrir því að stór hluti heimsbyggðarinnar yrði kominn í sóttkví og þannig kallast hinn mannlausi heimur sem Aleksevítsj lýsir í gegnum viðtöl við fórnarlömb Tsjernobylslyssins á við samtímaviðburði með mjög ógnvænlegum hætti. Þetta er eitt af því sem gerir tímaritaútgáfu svo spennandi, það er hið óvænta stefnumót efnisins við samtímann, það er aldrei hægt að segja fyrir hvaða efni talar sterkast til lesenda þegar upp er staðið.“

Ásta Kristín bætti við að efnið væri að öðru leyti afar fjölbreytt. „Það eru tvær greinar sem fjalla um málefni jaðarhópa í íslensku samfélagi. Íris Ellenbergir fjallar um hinsegin leiðarvísi um grunnsýningu Þjóðminjasafns Íslands og Njörður Sigurjónsson bendir á að hvergi sé minnst á innflytjendur eða fjölmenningu í Menningarstefnu íslenska ríkisins frá árinu 2013. Báðar þessar greinar eru líklegar til að vekja athygli og eftirtekt og það sama á við um grein Bjarna K. Kristjánssonar og Skúla Skúlasonar um áhrif markaðs- og nýfrjálshyggju á starfsemi háskóla á síðustu árum. Við erum líka sérstaklega stolt yfir því að skáldkonan Didda skuli eiga ljóð í heftinu. Tímamóta bók hennar Lastafans og lausar skrúfur (1995) er í miklu uppáhaldi hjá okkur báðum.“ Haukur var á sama máli. „Það verður eiginlega að segjast eins og er að ljóðin sem birtast í þessu hefti eru með því allra besta sem Didda hefur skrifað. Auðvitað viljum við að Skírnir haldi áfram að birta efni sem ekki aðeins lifir daginn heldur líka ár, áratugi og jafnvel aldir en við erum fyrst og fremst að hugsa um þá lesendur sem fá tímaritið inn um lúguna hjá sér hér og nú. Og við viljum að þeir séu spenntir að bíða eftir næsta hefti.“