Enn einu sinni er skítastormsvél Facebook sett í gang. Nú til að koma í veg fyrir að hollenska skáldið Marieke Lucas Rijnevald, sem er hvít á húð, þýði ljóðasafn Amöndu Gorman. Til skýringar: Amanda Gorman er unga konan í gula jakkanum sem flutti á svo eftirtektarverðan hátt ljóð sitt þegar Joe Biden var vígður forseti Bandaríkjanna. Amanda Gorman er dökka á húð og verður 23 ára, sunnudaginn 7. mars.

Hollenska forlagið Meulenhoff hafði valið Marieke Lucas Rijnevald til að þýða ljóðasafn Amöndu sem átti að koma út í bók næsta haust en Janice Deul, sem er svokallaður aktívísti, kom fram með harða gagnrýni á valið á þýðandanum og fannst óskiljanlegt að forlagið skyldi ekki finna þýðanda sem líktist Amöndu meir og betur. „Þetta er óskiljanlegt val og veldur mér og mörgum öðrum kvölum, svekkjelsi og vonbrigðum. Hún er hvít.“ Þessi gagnrýni hennar fékk svo mikinn meðbyr á Facebook að Marieke Lucas ákvað að draga sig í hlé og hafna þýðingarverkefninu.

Marieki Lucas er 28 ára gömul og handhafi The International Booke Prize sem Marieki hlaut á síðasta ári fyrir bókina „The Discomfort of Evening“. Þar með var skáldið yngsti verðlaunaþegi Booker-verðlaunanna fyrir þýddar bækur, en Marieki lítur á sig sem bæði karl og konu og vill vera ávörpuð sem „hán“. „Ég er í sjokki yfir að hafa hafnað í slíkum mótvindi. Ég hafði helgað mig þýðingunni með mikilli gleði og sá það sem mitt stærsta verkefni að vera trú stíl, tóni og styrk ljóðanna.“

Þessi nýja þróun hefur valdið forlögum víða um heim nokkrum höfuðverk því ekki er alltaf mögulegt að hafa fullkomið samræmi milli aldurs, kyns, húðlitar, kynhneigðar hjá höfundi og þýðanda. Forlagið Forlagið státar til dæmis af því að hafa valið Ingibjörgu Haraldsdóttir sem þýðanda Dostojevskí. Benedikt hefur valið Bjarna Jónsson til að þýða Sally Rooney, Bjartur fékk Elísu Björg Þorsteinsdóttir til að þýða Kazuo Ishiguro og Úlfur Hjörvar var valinn til að þýða Ástkær eftir Tony Morrisson. Þrátt fyrir þessa líkamlegu annmarka þýðendanna virðast allar þýðingarnar hafa fengið hástemmt lof og þýðendunum hefur helst verið hrósað fyrir að vera trúir upphaflega texta höfundar. Ef til vill lenda þýðendur brátt í vanda fyrir að hafa ekki alist upp í sama landi og með sama tungumál og höfundarnir sem þeir þýða.