Þau falla nú hvert á fætur öðru norrænu skáldin; í síðustu viku dó Per Olav Enquist, í gær Maj Sjöwall og í dag Yahya Hassan. Þrjú ólík skáld.

Yahya Hassan, sem var einungis 24 ára gamall, fannst látinn í heimabæ sínu Árósum í dag og er dánarörk enn ókunn. En Yahya barðist hin síðari ár við sálræna erfiðleika, ofneyslu áfengis og vímuefna.

Yahya sló rækilega í gegn árið 2013 með ljóðasafninu Yahya Hassan. Ljóðabókin hans seldist í meira en 120.000 eintökum og hefur slíkt ekki fyrr gerst að ljóðabók hafi náð slíkri sölu í sögu bókaútgáfu í Danmörku Dauði hans er mikið áfall en um leið hræðilega fyrirsjáanlegur, því hraðferðin upp í stjörnuhimininn var svo óvenjuleg hlaut fallið óhjákvæmilega að vera fyrir opnum tjöldum þar sem öllu ægði saman, peningum, vopnum, eiturlyfjum, hótunum, fangelsi og geðdeild. Á meðan á öllu þessu stóð vildu allir ná í hann.

Menningarlíf Danmerkur vildi ná í hann því hann var óslípaður, óheftur og hafði óvenjulegan ljóðrænan kraft. Hinir gettódrengirnir vildu ná í hann af því þeir töldu hann hafa svikið arf fátækrahverfanna og þá innbyggðu þagnarskyldu sem þar ríkir. Stjórnmálamenn vildu ná í Yahya því hann var hin fullkomna réttlæting á útlendingastefnu þeirra og svo vildi löggan ná í hann því hann var glæpamaður..

En nú hefur dauðinn náð í hann.

Yahya Hassan var fyrst og fremst reiður, reiður út í það samfélag sem hann bjó í og það samfélag sem hann ólst upp í og reiðin streymdi frá honum, lá í hverju öllum hans athöfnum, öllum orðum þeirra ljóða sem hann sendi frá sér. Hann náði að gefa út tvær bækur Yahya Hassan og Yahya Hassan 2 (sem kom út í lok ársins 2019).