Bókmenntirnar eru í kreppu en skáldskapurinn blómstrar. Á síðustu misserum hafa ljóðskáld í vaxandi mæli nýtt sér Netið og samfélagsmiðla til að ná til lesenda og hafa þannig áhrif á heiminn. Hér á landi hefur Birgitta Jónsdóttir verið meðal brautryðjenda, með síðum á borð við Poetry in All Shapes and Forms, og Beyond Borders, en á síðustu misserum hefur Anton Helgi Jónsson gengið einna lengst með því að gera öll sín ljóð aðgengileg á einni aðlaðandi vefsíðu. Hann hefur jafnframt lagt sig fram um að nýta til hins ýtrasta þá miðlunarmöguleika sem stafræn tækni hefur umfram ljóðabókina.

Á undanförnum vikum hefur vaxandi einangrun  og aukið tóm af völdum „kófsins“ ýtt undir slíka stafræna miðlun listar af öllu tagi. Dæmin eru legíó. Fyrir tveimur dögum bauð Brynhildur Björnsdóttir leik- og söngkona vinum sínum á facebók upp á fagra einsöngstónleika (í tilefni af stórafmæli sem ekki gafst tækifæri til að halda upp á). Með líkum hætti hefur Guðrún Kristjánsdóttir myndlistarkona boðið sínum vinum á facebók upp á daglegar myndlistarsýningar undanfarna viku. „Ég ætla til gamans að setja myndverk, gömul og ný, á tímalínuna mína í einhverja daga. Mitt framlag á okkar „fordæmalausu“ tímum.“ skrifaði hún þegar hún ýtti verkefninu úr vör.

Hliðstætt verkefni er það sem Þórarinn Eldjárn hóf fyrir meira  en mánuði á facebók  og kallar „ljóðviðrun daglega“.  Hann birtir þá ljósmynd af einni síðu eða opnu úr útgefinni ljóðabók eftir sig, þar með talið hinum sígildu barnaljóðabókum sem þau Sigrún systir hans hafa fært okkur á liðnum árum. Inn á milli slæðast reyndar nýort ljóð, eins og þetta hér:

Fyrsta ljóðið, eftir því sem næst verður komið, var „Bananinn beini“ sem birtist 25. mars og náði það að minnsta kosti til 526 ánægðra lesenda (það met hefur enn ekki verið slegið af seinni ljóðum). Stundum skrifar skáldið stuttan inngang að ljóði dagsins, segir frá tilefni bókartitli og útgáfuári en tengir líka stundum því sem er uppi á teningnum í seigfljótandi samtímanum. Sumir ánægðir lesendur láta sér ekki nægja að bregðast við með þumli, broskarli eða hjarta heldur skija þeir eftir athugasemdir á borð við „Þetta er gargandi snilld!“ Þessi tilteknu ummæli lét guðsmaðurinn Karl Sigurbjörnsson falla í gærmorgun eftir að hafa lesið „ljóðviðrun dagsins“. Hún var svohljóðandi.

Sú nýstárlega leið sem Þórarinn hefur valið til þess að halda lifandi sambandi við sína 4560 vini staðfestir að ljóðið lýsir honum álíka vel í dag og þegar „Sagt upp“ birtist upphaflega í bókinni Tautar og raular (2014). Samtíminn vill ei aftengja sig við skáldið, sama hvað það tautar og raular. Og þess vegna er vert að ítreka: Bókmenntirnar eru í kreppu en skáldskapurinn blómstrar.