Árið 1901 skrifaði Thomas Mann ættarsögu Buddenbrooks, kaupmannafjölskyldu frá Lübeck í Þýskalandi. Þetta er litrík saga fjögurra ættliða. Sama ár og þessi mikla ættarsaga kom út var bókabúð Arnold Busck stofnuð og er saga hennar því orðin nær 120 ára og nær yfir fjóra ættliði.

Á 120 árum hefur keðjan vaxið jafnt og þétt og var Busck orðin stærsta bókabúðakeðja Danmerkur þegar henni var lokaði í gær. Hefur Busck-keðjan alla tíð verið rekin af Busck fjölskyldunni. Helle Busck, (fjórði ættliður) sem hefur stýrt ættarveldinu sl. 10 ár, fékk ánægjuna af því að fleygja handklæðinu í hringinn og læsa búðinni í síðasta skiptið í gær.

Það er ekki bara kórónuveiran sem orsakaði fall Busck búðanna þótt hún hafi á endanum ýtt Busck fram af hengifluginu. Margt hefur mjakað búðinni fram að brúninni, meðal annars 65 milljóna skuldabyrði (1,3 milljarðar isk.) en grunnurinn að vandræðunum er minnkandi sala á prentuðum bókum. Busck rak 29 verslanir. Sennilega hafa þær verið of smárar og of margar. Nútíma borgarbókabúðir þurfa að vera stórar til að lifa af. Bjóða upp á mikið úrval bóka – ekki bara metsölubækur – þar þarf helst að vera kaffisala og þar þurfa að fara fram annars konar menningarstarfssemi tengd bókmenntum. Nútíma bókabúð þarf sem sagt að vera menningarstofnun.

Í Danmörku varð kórónaverian banabiti Busck en í Englandi er annað líf. Í síðustu viku var gerð könnun þar sem 2000 einstaklingar voru spurðir út í lestrarvenjur sínar. Kemur í ljós að 31% les meira í kórónafárinu. Sérstaka athygli vekur að 45% einstaklinga 18-24 ára les meira nú en fyrir kóróna. Waterstone keðjan í Englandi tilkynnti líka um 400% söluaukningu á rafrænum bókum í síðustu viku.