Við fótboltafíklarnir erum mörg hver hætt að horfa á íþróttafréttirnar í sjónvarpinu, veðurfréttirnar hafa leyst þær af hólmi eftir kvöldmatinn, þær síðarnefndu eru sannarlega meira spennandi  enda þótt ábyggileika þeirra geti verið ábótavant. Veðurfréttirnar fjalla nefnilega enn um núið og framtíðina (er vorið loksins að skjóta upp kolli?) á meðan íþróttafréttirnar hafa að verulegu leyti breyst í sagnfræði.

Í sjónvarpinu eru endursýndar upptökur af fyrndum kappleikjum sem hafa takmarkað aðdráttarafl því í flestum tilvikum er maður meðvitaður um úrslitin áður en útsending hefst. Og á netmiðlum og prentmiðlum er ítrekað verið að grafa upp löngu gleymd eða óþekkt atvik úr fortíðinni (þrjú dæmi frá þessum mánudegi: „Lineker talaði um það þegar hann gerði í brækurnar í miðjum leik á HM á Ítalíu“, „Roy Keane „að kenna“ að Henderson skipti ekki um treyju við Messi“, „Hreinlæti og svefnvenjur kom í veg fyrir að Neville og Beckham yrðu góðir herbergisfélagar“). 

Í þessu ástandi öðlast „Liprir taktar“, fjórði hlutinn í Íslenskri lestrarbók Magnúsar Sigurðssonar (Reykjavík: Dimma, 2019) nýja vídd og tilhöfðun. Viðkomandi texti, sem leggur undir sig tæpar eitt hundrað síður bókarinnar, ber undirtitilinn „poème trouvé: F.C. Barcelona gegn Juventus, 2015, í flutningi Harðar Magnússonar“. Hann er uppskrift Magnúsar á beinni lýsingu íþróttafréttamanns Stöðvar 2 Sport á umræddum úrslitaleik Meistaradeildarinnar í knattspyrnu sem fram fór í Berlín fyrir fimm árum síðan.  Hér er svolítið sýnishorn (því miður hefur ekki tekist að varðveita uppsetningu textans sem hefur sitt að segja um áhrifin):

„Þvílíkur fótbolti! Hjá þessu liði. Það er EKKERT sem stöðvar þetta.

 

Rakitic kom frá Sevilla.

Fyrsta tímabil hans.

HANN er búinn að skora – 

í úrslitaleik í Meistaradeildinni.

 

Hann er eins góður leikmaður

og þeir verða.

 

Ivan Rikitic.

Ekki í aðalhlutverki – 

aukahlutverkið.

 

En það er ansi mikið.

Það er ansi gott.

,..

Barcelona-markið … gersamlega ótrúlegt.

Rakitic – í Berlín!

 

Þar sem menn hafa

heldur betur

fundið sig.

 

Og ekki …

David Bowie fann sig!

Rakitic er búinn að finna sig!

Svo sannarlega.“

Sýnishornið segir þó í raun afar lítið um heildaráhrif þessa texta, áhrif sem eru önnur nú en þegar bókin kom út (fyrir fáeinum mánuðum), þegar enn mátti hlusta á starfsbræður Harðar Magnússonar flytja svo að segja daglega, raunar oft á dag, áþekka (en sjaldnast jafn áhrifaríka) mónólóga.

Þegar óundirrituð fékk bók Magnúsar í hendur á sínum tíma las ég fyrstu 10-15 síðurnar af þessari knattspyrnulýsingu, mér þótti hún skemmtilega skondin en gaf mér ekki tíma til að lesa hana frá orði til orðs, hvað þá að ljúka við allar hundrað síðurnar. En núna á laugardaginn, skömmu eftir hádegið — einmitt á þeim tíma sem ég horfði á árum áður á vikugamlar upptökur af svokölluðum sjónvarpsleikjum ensku knattspyrnunnar (sem ég vissi fyrirfram hvernig höfðu endað) — gerðist eitthvert undur, að nokkru leyti vegna þess að ég var búin að steingleyma hvernig leik Barca og Juve lauk fyrir réttum fimm árum. Lesturinn varð skyndilega og óvænt, líklega vegna þess að ég hef ekki horft á beina útsendingu frá fótboltaleik svo vikum skipti, alveg hrikalega spennandi. Setningar Harðar (í bók Magnúsar) brugðu smátt og smátt upp ljóslifandi myndum í huga mér af markvörslum Buffons, sendingum Messis, klaufaskap Neymars. („Sjáið fótavinnuna! / Frábær sending. / Neymar horfir allan tímann á boltann. / En rétt missir af honum.“) Hér var loksins komin rétta leiðin til að sameina hin sagnfræðilega vinkil covid-íþróttafréttarinnar, óbærilega spennu beinu útsendingarinnar og óvæntan galdur ljóðlistarinnar.

Að leik loknum setti ég mig í samband við Magnús Sigurðsson. Og ég lagði fyrir hann tvær giska einfaldar spurningar. Hann svaraði þeirri síðari fyrst:

SPURNING B: Hefurðu fengið eftirminnileg viðbrögð við þessum texta, prívat eða hjá ritdómurunum?

MS: „Svarið við spurningu (B) er í raun ósköp einfalt: viðbrögðin voru engin. Fyrir utan kvartanir um að þetta væri allt of langt, yfirgengilegt. En það var annaðhvort að taka allan leikinn eða ekkert. Það hefði verið endasleppt, í orðsins fyllstu merkingu, að birta bara sýnishorn.“

SPURNING A:  Hvernig datt þér í hug að breyta beinni íþróttalýsingu í óbeina ljóðlist?

MS: „Svarið við spurningu (A) er kannski öllu flóknara. Mig langaði að losna undan þeirri kvöð að yrkja lýrískt. Það hefur auðvitað verið sagt að skáldskapur sé ekki lausbeislun tilfinninga heldur flótti frá tilfinningum, ekki tjáning persónuleika heldur flótti frá persónuleika. En það er hægt að koma orðum að mannlegum tilfinningum með ólíkum hætti. Og persónuleiki manns býr auðvitað í öllu sem maður gerir, líka í því að vilja flýja hann. Ástríðan og tilfinningahitinn sem getur fylgt fótboltaíþróttinni er augljós. En að þessi tiltekni texti hafi orðið fyrir valinu skýrist kannski ekki síst af þeirri ástríðu og tilfinningahita sem býr í lýsingunni sjálfri. Margt í henni er orðfæri sem er þanið til hins ýtrasta, íslenskar setningar sem hafa aldrei heyrst og munu aldrei heyrast aftur. Annað er misheppnað, setningar sem fjarar undan einsog sóknum sem renna út í sandinn. Ég vildi „frysta“ þetta tungutak, þessa óhefðbundnu málsköpun (og það verður að segjast að þessi tiltekna lýsing sker sig nokkuð frá flestum öðrum). Um leið vildi ég fanga þær tilfinningar sem búa í textanum, hvort sem þær tilheyra áhorfendunum, leikmönnunum eða lýsandanum. Og kannski líka mínar eigin tilfinningar, mína eigin ástríðu, með óbeinum hætti. Bæði fyrir fótboltaíþróttinni og ljóðlistinni. Hvortveggja eru leikir sem eru annað og meira en leikir. Leikir sem byggja á tækni, innsæi, sköpun, þekkingu, fórnum, hugrekki, metnaði, hefð, þrá … Þess vegna get ég ekki samþykkt þá vandlætingu sem knattspyrnuáhugamönnum er stundum sýnd af „hinum upplýstu“ sem setja sig á háan hest og telja þessum 90 mínútum sem fótboltaleikur stendur illa varið – af allra hálfu: áhorfenda, leikmanna, þjálfara. Ástríða er ástríða, sama hvers kyns hún er. Og ein ástríða getur varla verið annarri betri.“

Svo mörg voru þau orð. Mér dettur að sjálfsögðu ekki í hug að upplýsa hvernig úrslitaleikurinn í Meistaradeildinni vorið 2015 endaði og skora á þá sem lesa þessi orð að láta hjá líða að fletta því upp á Netinu. Eina rétta svarið leynist í Íslenskri lestrarbók á blaðsíðu 202 í „Liprum töktum“ þeirra Harðar Magnússonar og Magnúsar Sigurðssonar.