Í áratugi hefur Haruki Murakami verið holdgervingur japanskra bókmennta í hugum Vesturlandabúa. Allt frá því bækur hans, Norwegian Wood, The Wind Up Bird Chronicla og A Wild Sheep Chase komu út hafa bækur hans verið samnefnarar fyrir japönskar bókmenntir. Týndir kettir, jazzbarir og dularfullar, hálfójarðneskar kvenverur, það er heimur japanskra bókmennta.

Murakami hefur verið alltumlykjandi sem fulltrúi japanskra bókmennta á Vesturlöndum þótt nokkrir aðrir japanskir rithöfundar hafa stungið upp kollinum eins og Hiromi Kawakami, Kirino Natsuo (Næturvaktin) og Keigo Higashino (Hinn grunaði herra X). En enginn hefur náð að steypa Murakami af stallinum.

Nú hefur ung kona Mieko Kawakami skotist upp á stjörnuhiminninn og kannski er það ekki tilviljun að akkúrat Mieko veki athygli á Vesturlöndum og bók hennar Brjóst og egg hljóti náð hjá bókmenntaelítunni.

Mieko Kawakami er fædd í Osaka árið 1976. og starfaði framan af sem afgreiðslumaður í bókabúð og hóf síðan feril sem söngkona og gaf út þrjár hljómplötur. Til að vekja athygli á hljómplötum sínum hóf hún að skrifa dagbók á netinu sem skyndilega varð stórt hit. 10.000 manns sóttu síðuna daglega á meðan Kawakami hafði úthald til að skrifa á netið. Árið 2006 ákvað hún að gerast rithöfundur og gaf út bókina Brjóst og egg sem nú birtist allt í einu 14 árum eftir útkomuna í Japan í enskri þýðingu og gagnrýnendur hylla nú Kawakami sem hinn nýja Murakami. Bókin hlaut ein af merkari bókmenntaverðlaunum Japana, Akutgawa-verðlaunin en það var árið 2008

Kannski tengist þessi skyndilega frægð Mieko Kawakami því að sjálfur Murakami ákvað árið 2017 að verða við beiðni hennar um að sitja fyrir svörum (það gerir hann afar sjaldan) og veita henni viðtöl. Síðar voru viðtölin gefin út á bók. Í samtölum setur Kawakami spurningarmerki við hvernig Murakami lýsir konum og hvernig konur birtast í verkum hans: Þykja konur í bókum Murakami skv. Kawakami fremur veigalitlar og einfaldar. Hefur þessi gagnrýni Kawakami hlotið töluverða athygli meðal bókmenntaáhugamann i Bandaríkjunum og víða er opinberlega vitnað til viðtalanna og hafa skoðanir Kawakami á verkum Murakami fengið töluverðan hljómgrunn síðustu árin og einmitt beint sviðsljósinu að spyrlinum Kawakami.

Brjóst og egg kom út í enskri þýðingu í byrjun apríl í ár og er andvarp sjálfs Haruki Murakami leiðarstef markaðsherferðarinnar fyrir bókina: „Breasts and Eggs took my breath away, HARUKI MURAKAMI“ eru slagorðin sem fylgja auglýsingum fyrir bókina