Gestapenni dagsins er ágætur forleggjari búsettur í Grjótaþorpi í Reykjavík. Hann hefur af og til sent Bókaskápnum dagbókarfærslur og í dag birtum við færslu frá 22. apríl 2020:

Líka í dag var ég á leið fram hjá Dómkirkjunni. Þar um á ég leið næstum daglega vegna þess að ég bý í snoturri íbúð ekki langt frá kirkjunni. Á kirkjutröppunum stóð kápuklædd skáldkona sem ég þekki eftir öll mín ár í bransanum. Ég er ekki alltaf viss um að ég skilji hana þegar hún talar því hún talar ofan úr skýjunum. Og fyrir mig, jarðbundinn mann, er það oft erfitt að skilja. En ég ákvað sjálfur að nota hennar vopn. Þannig næ ég oft að komast óskaddaður úr samtölum við rithöfundinn:
„Ertu að banka á dyr Drottins?“ spurði ég því. Mér þótti ég dálítið fyndinn. Aldrei hef ég gefið út bækur hennar, ég hef ekki einu sinni lesið nema 40 síður í einni þeirra og mér leiddist og síðan hef ekki opnað aðra bók eftir hana. En um það tölum við ekki. Hún er með annan forleggjara og það hentar mér vel.
„Nei, ég er nú ekki að banka, ég er að íhuga að ganga inn.“

„Ég skal ekki trufla þig. Blessuð,“ sagði ég og snerist á hæli.

„Bíddu. Segðu mér eitt. Ef þú mættir bjóða einu skáldi í mat, eina kvöldstund, hver mundi það vera? Ég er að spyrja fyrir vin minn.“
Ég þóttist hugsa mig um en svarið hafði komið samstundis upp í höfuðið á mér. Þetta var bara tilbúið hik.

„Ég mundi bjóða Margaret Atwood. Enginn efi. Ástæðurnar eru eftirfarandi:

 • Hún kemur frá Kanada. Ég er ekki sérlega hrifinn af Kanada, það er að segja borgunum í Kanada. Kannski erum við sammála um það. Ég spyr hana sennilega strax yfir fordrykknum. Það skapar kannski strax heitar samræður um land og þjóð og leggur grunninn að fljótandi og andríku samtali.
 • Pabbi hennar var líffræðingur eða grasafræðingur, ég man ekki hvort.
 • Hún og fjölskylda hennar vörðu drjúgum tíma úti í náttúrunni. Það er alltaf hressandi.
 • Ég mundi líka bjóða henni vegna þess að hún veit heilmikið um birni (ég er áhugasamur um birni) og hún veit heilmikið um hvernig maður bjargar sér úti í hinni villtu náttúru. Um það er ég gífurlega áhugasamur.
 • Hún er góð að skrifa sannfærandi um brjálæði og brjálæðinga.
 • Hún getur líka skrifað sannfærandi um það að vera kona (og ekki bara vegna þess að hún er sjálf kona. Margar rithöfundar sem eru konur geta ekki skrifað um það að vera kona).
 • Ungir femínistar dásama hana, hún er í miklu áliti hjá ungum femínistum sérstaklega út af Handmait’s Tale. Ég held þó ekki að hún kalli sig femínista. Ég kalla mig heldur ekki femínista og ekki heldur maskúlínista.
 • Maður hennar dó fyrir nokkrum mánuðum. Ég sat einu sinni í bíl með honum. Það var Mercedes Benz bíll. Hann sat í aftursætinu og Margaret sat í framsætinu. Ég keyrði. Hún var í voðalega vondu skapi og var ekki þægileg við mig sem þó hafði boðist til að aka henni bæjarenda á milli. Ég ætla ekki að rifja þessa ökuferð upp. Nema hún fari að færa sig upp á skaptið. Mér þótti hann, maðurinn hennar, Graeme, miklu þægilegri í samvistum en hún. En sem sagt hann dó í fyrra og hún lét það ekki á sig fá og hélt áfram kynningarferð sinni um Bandaríkin og England til að kynna nýju bókina Testament. Hún, nýja bókin kemur ekki út á íslensku. Ég ætla ekki að gefa hana út, það vill örugglega enginn íslenskur útgefandi gefa hana út og það ætla ég að segja henni áður en við byrjum að borða. Það kemur róti á hug hennar. Á meðan hún veltir þessum óþægilegu upplýsingum fyrir sér ætla ég að steikja lúðu. Í smjöri. Það er kvöldmaturinn.
 • En maðurinn hennar Graeme Gibson, sem var svo þægilegur náungi, hann fékk ellliglöp. Kannski ræði ég það. Ég las í gær ritgerð Julian Barnes um makamissi, sorgina, eklalífið og söknuðinn. Julian Barnes sagði frá mörgu sem ber að varast þegar svo viðkvæmt umræðuefni er valið.
 • Graeme Gibson skrifaði líka skáldsögur.
 • Áður en þau giftust var Margaret gift öðrum náunga. Kannski við ræðum fyrra hjónaband hennar. Hún var að mig minnir gift öðrum rithöfundi. Ég held að hún fái ekki oft tækifæri til að ræða fyrra hjónaband sitt sem hún sleit árið 1973 eða 1979 ég man ekki hvort.
 • Margaret Atwood byrjaði seint að skrifa skáldsögur. Hún var meira en þrjátíu ára þegar hún skrifaði fyrstu söguna sína. Ég er orðinn meira en 30 ára og ég er enn ekki byrjaður að skrifa sögur. Kannski getum við líka talað um skáldskaparskrif og hvaða þýðingu það hefur að byrja seint á ævinni?“