Fræðirit Alaric Hall, Útrásarvíkingar! The literature of the 2008 Icelandic financial crisis, er nýkomið út hjá bandaríska hugsjónaforlaginu punctum books. Verkið er byggt á rannsóknum sem höfundur, sem kennir miðaldabókmenntir við Háskólann í Leeds, hóf að sinna fyrir alvöru í rannsóknarleyfi á Íslandi árið 2014 og er lögð megináhersla á íslensk skáldverk um bankahrunið sem út komu á árunum 2008 til 2012.

Þess má geta að punctum books hefur einnig nýlega gefið út hliðstætt rit um írskar hrunbókmenntir, Incomparable Poetry: An Essay on the Financial Crisis of 2007-2008 and Irish Literature eftir Robert Kiely. Á meðan Kiely leggur höfuðáherslu á írsku ljóðskáldin Trevor Joyce, Leontia Flynn, Dave Lordan og Rachel Warriner beinir Alaric einkum sjónum að íslenskum skáldsagnahöfundum. Breiddin í umjöllun hans erí raun  mun meiri en hjá Kiely og tekur hann þegar við á einnig tillit til íslenskra ljóða, kvikmynda, leikrita og smásagna sem snerta á hruninu.

Í fyrsta kafla verksins skilgreinir Alaric rannsóknarsviðið með þessum orðum: „I have simply sought omnivorously to read all the novels published in Icelandic which mention or clearly allude to the Crash – books written almost uniformly by Icelanders for Icelanders, allowing me to peek inside Iceland‘s internal discourses on the Crass“. Hann segist hafa tekið skáldsögur fram yfir ljóðabækur þar sem telji þær fyrrnefndu ná til stærri lesendahóps og hafa víðtækari tilhöfðun og skýrir vanrækslu sína á leikritum með því að hann hafi í fæstum tilvikum haft tækifæri til að sjá viðkomandi uppfærslur.

Líkt og Alaric bendir á í innganginum er bók hans ekki aðeins fyrsta viðamikla fræðilega rannsóknin á íslenskum hrunbókmenntum heldur einnig fyrsta útgefna erlenda fræðiritið um íslenskar samtímabókmenntir sem út hefur komið um langt skeið. Enda þótt margir íslenskir höfundar hafi haslað sér völl erlendis á síðustu áratugum þá hefur fræðileg umræða um verk þeirra á erlendum málum verið í skötulíki. Markverðasta umfjöllunin um íslenskar nútímabókmenntir sem aðgengileg er á ensku birtist í A History of Icelandic Literature í ritstjórn Daisy L. Neijmann. Verkið út kom árið 2006 og náði umfjöllunin fram til síðustu aldamóta. Einnig má benda á að fjölmörg rit um íslenska bankahrunið eftir innlenda og erlenda höfunda hafa litið dagsins ljós á síðustu tíu árum en ekkert þeirra hefur fengist við áhrif hrunsins á íslenska bókmennta- eða menningarsögu, eins og hér er gert.

Útrásarvíkingar! er því tímamótaverk í tvennum skilningi og á skilið að fá verulega athygli og umræður, bæði hér á landi en erlendis. Hægt er að nálgast rafræna útgáfu verksins, án endurgjalds, á heimasíðu punctum books en lesendur eru þó hvattir til að leggja forlaginu og höfundinum lið með framlagi að eigin vali.