Á sumardaginn fyrsta, nánar tiltekið á fimmtudaginn næsta, enn nánar tiltekið á Degi bókarinnar árið 2020, opnar ný bókabúð. Bókabúðin er í hjarta Reykjavíkur, nánar tiltekið á Óðinsgötu 7, nánar tiltekið á sama götuhorni og borgarstjórinn býr við. Bókaforlagið Dimma hefur flutt höfuðstöðvar sínar þangað og mun, eins og mörg önnur metnaðarfull og falleg bókaforlög, starfrækja verslun þar sem hægt er að fá útgáfubækur þess á kostakjörum og jafnvel rótsterkt kaffi í kaupbæti.

Opnun forlagsbúðarinnar helst í hendur við það að vorútgáfa Dimmu er við sjóndeildarhringinn. Þrjár nýjar bækur eru væntanlegar, allt þýðingar, Meðal þeirra er Gamlar konur detta út um glugga sem hefur að geyma úrval örsagna eftir Danííl Karms í þýðingu Áslaugar Agnarsdóttur og Óskars Árna Óskarssonar.

Kharms (1905-1942) var ljóðskáld, smásagnahöfundur, leikskáld og fulltrúi framúrstefnustrauma í sovéskum bókmenntum. Á sinni tíð var hann þekktastur fyrir gamansögur handa börnum en önnur verk hans, sem ekki litu dagsins ljós fyrr en löngu eftir að hann lést, halda nafni hans á lofti. Hann er nú talinn einn fremsti fulltrúi absúrdbókmennta í hinum vestræna heimi.

Aldamótaárið gaf bókaforlaigð Bjartur út hliðstætt safn sagna eftir Kharms sem bar titilinn Lykt af brenndum fjöðrum. Árni Bergmann þýddi en safnið kom út sem sérrit tímaritsins sáluga Bjartur og frú Emelía (fyrir vikið er allur þessi óborganlegi texti aðgengilegur á timarit.is). Rússneski höfundurinn eignaðist í framhaldi marga aðdáendur á Íslandi sem munu án efa taka gleði sína á nýju eftir 20 ára bið. Og án efa mun Kharms eignast marga nýja aðdáendur á næstu vikum.  Í eftirmála hins merka tímaritsheftis Bjarts og frú Emelíu sagði Árni Bermann meðal annars frá kynnum Kharms og Alexanders Vvedenskij og ýmsu sem þeir upplifðu á Sovétímanum. Við skulum grípa niður í frásögnina þar sem segir frá handtöku þeirra árið 1931.

„Það er augljóst af gögnum um yfirheyrslur yfir þeim að tími „hugsanalögreglu“ er hafinn. I fyrstu ber Kharms sig vel og segir blátt áfram að hann sé andvígur stefnu sovéskra stjórnvalda á sviði bókmennta og vilji málfrelsi sér og félögum sínum til handa. En þegar við aðra yfirheyrslu og í þeim sem á eftir fóru hefur Kharms séð sér þann kost vænstan að játa syndir sínar. Hann kveðst vera helsti hugmyndafræðingur andsovésks hóps bókmenntamanna, segist í barnabókum sínum hafa unnið skemmdarstörf á „sovésku uppeldi nýrrar kynslóðar“ með því að boða í þeim viðhorf sem væru fjandsamleg samtímanum og teyma saklausa lesendur burt frá nytsamlegum verkefnum með meiningarlausum kveðskap. Hann kallar sum verk sín bull og hrákasmíði og segist oft hafa skrifað til þess eins að fá borgað fyrir. Undir lokin er hann farinn að játa að hann vilji brjóta niður hið sovéska þjóðfélag og koma fyrra þjóðskipulagi á aftur — en að vísu án þess að grípa til ofbeldis.

Það var lán í óláni að Kharms lenti allsnemma í klóm leynilögreglunnar. Fyrir slíkar játningar hefði hann nokkrum árum síðar umsvifalaust verið settur í fangabúðir eða tekinn af lífi. En þeir Vvedenskij sluppu að þessu sinni með nokkurra mánaða útlegð í borginni Kúrsk. Kharms sneri svo aftur til Leníngrad árið 1932 og þótt hann eigi oft í mesta basli fær hann enn birt ljóð og sögur fyrir börn. Í algjört ritbann er hann ekki settur fyrr en 1937 þegar versta hryðja hreinsana Stalíns er að skella yfir. En það er ljóst af örsögum Kharms, minnisblöðum og dagbókarslitrum að myrkur fer að með ógnum og skelfingum.“

 

Þess má geta að fyrir þremur árum var frumsýnd leikin kvikmynd Ivan Bolotnikov um ævi og störf Kharms, en það er þó hugsanlega enn nærtækara að rifja upp að Hafliði Hallgrímsson samdi árið 1999 óperuna DIE WÄLT der Zwischenfälle – eða Viröld fláa, sem byggir á sögum eftir rússneska absúrdistann.

Hinar tvær bækurnar sem munu birtast spánnýjar í útstillingarglugga forlagsbúðar Dimmu við Óðinsgötu 7 á næstunni eru 43 smámunir eftir færeysku skáldkonuna Katrin Ottarsdóttir í þýðingu Aðalsteins Ásbergs Sigurðssonar (forleggjara Dimmu) og hin margverðlaunaða skáldsaga Dyrnar eftir ungverska rithöfundinn Magda Szabó en þýðandi verksins er Guðrún Hannesdóttir.