Mörg bókin hefur skilið eftir varanleg ummerki í lífu mínu. Þegar ég var níu var það Njála, þrettán ára bækur Agöthu Christie, fimmtán ára Hringadrottinssaga, átján ára Heimsljós og nítján ára las ég Gunnlaðar sögu Svövu Jakobsdóttur og allar bergmáluðu hátt í kollinum á sínum tíma og bergmálið dó aldrei alveg út. Upp úr tvítugu átti ég Dostojevskísumar, nokkrum árum síðar kynntist ég Alan Hollinghurst og upp úr fertugu Alice Munro. Ég gæti lengi haldið áfram að telja upp þessar mörgu ástir uns þessi grein yrði jafn leiðinleg og ævisaga Casanova en væri óheiðarlegur ef ég tilgreindi ekki Morkinskinnu sem bók lífs míns.

Ég kynntist henni 24 ára á námskeiði í Háskólanum hjá Ásdísi Egilsdóttur og Morkinskinna þá aðeins til í stafréttum útgáfum. Var á þeim tíma lengsta bókin af því tagi sem ég hafði lesið, á þeim tíma að velta fyrir mér konunginum í bókinni og hvernig konungsvaldshugmyndir miðalda birtust í Morkinskinnu en las auðvitað alla bókina því að á þeim árum las ég alltaf miklu meira en þurfti. Þannig las ég allar Íslendingasögurnar til að undirbúa mig undir BA-ritgerðina og man eftir að hafa setið við þá iðju á svölunum heima í Álfheimum, á sama stað og sjö bindi af Dostojevskí voru lesin sumarið eftir.

Í meistaraprófsfritgerðinni átti Morkinskinna að vera ein bók af mörgum en tók til sín meiri athygli en flestar hinar en þó fannst mér ég ekki hafa sagt neitt miðað við það sem hægt væri og hún varð því að lokum viðfangsefni doktorsritgerðarinnar líka. Upphaflega átti sú að vera um Flateyjarbók og ef ég yrði sendur á eyðieyju með eina bók yrði það því líklega hún því að ég kann Morkinskinnu of vel og treysti mér til að rifja hana upp án prentsins.

Þannig að ég varð að lokum doktor í Morkinskinnu og eignaðist eintak af útgáfu Finns Jónssonar á sjálfan varnardaginn. Þá hafði bókin verið með mér í hartnær átta ár en þau áttu eftir að verða enn fleiri því að Jónas Kristjánsson var staddur á vörninni og tók skömmu síðar þá ákvörðun að ráða mig til að gefa hana út. Þannig að þar með bættust við níu ár og alls urðu þau sautján, við MA-ritgerð, doktorsritgerð og útgáfu. Við útgáfu bóka kynnist maður þeim á glænýjan hátt þannig að þessi útgáfa varð eiginlega önnur doktorsritgerð ofan á hina. Til dæmis velti ég fyrir mér hverju einasta framandlega orði í textanum en þau urðu æði mörg og eitt af því sem ég gerði en fáir taka eftir í útgáfunni var að leita að framandlegu orðunum í öllum gerðum þessarar textahefðar sem er miklu flóknari en flestir halda. Ég man að Jónas nefndi þegar við töluðumst fyrst við að það væri eitt handrit en þau urðu alls ellefu sem eitthvað voru notuð.

Þetta er í grófum dráttum sagan um samband okkar en í raun er lesandinn jafn litlu nær og ef reynt væri að lýsa löngu hjónabandi í þremur efnisgreinum. Þannig að mér finnst ég þurfa fáein orð um hvað heillaði mig þó að það sé þvert á mínar siðvenjur að skýra fyrir fólki hvað dragi mig að öðrum. Eitt sem skiptir máli er að í Morkinskinnu er engu troðið upp á lesendur. Flestar eftirlætibækur mínar reynast drepfyndnar þegar minnst varir og oft tekur jafnvel nokkra lestra til að sjá það sem er best. Annað var að í henni finnst djúp hugsun umfram flestar íslenskar miðaldabókmenntir. Höfundurinn hafði greinlega mikið velt fyrir sér ekki aðeins eðli konungsvalds heldur líka samfélaginu, hirðlífinu og jafnvel því hvaða tilgang það geti haft að segja sögur og kveða vísur. Góðar bækur eru yfirleitt svo djúpar að engin kvikmyndaaðlögun kemur nema örfáum hlutum sæmilega til skila. Auðvitað er þetta sérstaklega þakkarvert ef maður á að skrifa doktorsritgerð um verkið en bestu textarnir eru samt þannig að eftir á er tilfinningin sú að manni hafi í besta lagi tekist að koma helmingnum til skila.

Eitt af því sem kom mér hvað mest á óvart við Morkinskinnu jafnvel þó að það væri einnig það fyrsta sem ég tók eftir var að engin önnur bók frá þessum tíma snýst jafn mikið um það hvað sé að vera Íslendingur. Þess vegna er hún sérstaklega nálæg mér í útlöndum. Lengsta samfellda dvöl mín erlendis var einmitt þegar ég var að skrifa um hana og ég lærði það af Morkinskinnu að maður er í raun og veru aldrei Íslendingur nema í útlöndum.

Ármann Jakobsson.