Það gerðist í dag sem marga var farið að gruna. Fjórir meðlimir Den Danske Akademi sögðu sig úr hinni 20 manna nefnd. Að sumu leyti minnir hin danska akademía á sænsku akademíuna sem hefur verið í mikilli upplausn síðustu ár. Tilgangur hinnar dönsku akademíu er einnig að veita verðlaun, að vísu ekki nóbelsverðlaun, heldur veita þau vegleg verðlaun þeim danska rithöfundi sem þykir skara fram úr hverju sinni. Danska akademían hefur það að markmiði „að efla hina dönsku tungu og anda sérstaklega innan bókmenntanna.“ Einu sinni á ári eru verðlaun akademíunnar veitt og þykir það æðsti heiður sem dönskum rithöfundi getur hlotnast að veita verðlaununum Akademíunnar viðtöku.

En í dag byrjaði sem sagt að molna undan Akademíunni sem hefur starfað síðan árið 1960 þegar Suzanne Brøgger, Ida Jessen, Jens Smærup Sørensen og Astrid Saalbach sögðu sig úr nefndinni í mótmælaskyni við þau skrif og skoðanir sem einn meðlimanna Marianne Stidsen, lektor í bókmenntum við Kaupmannahafnarháskólann, hefur látið frá sér fara.

Það er sérstaklega ummæli Marianne um MeeToo-hreyfinguna (sem hún telur vinstripopúlíska hreyfingu), löggjöf um nauðganir (kynlíf með skriflegu samþykki, hlægileg symbolpólitík, að mati Marianne) og hina svokölluðu identitetspólítík sem hefur farið fyrir brjóstið á þeim fjórum meðlimum sem nú segja sig úr nefndinni. Hafa fjórmenningarnir hvatt Marianne að yfirgefa nefndina en því hefur hún hafnað.

Þykir nefndarseta Marianne „hafa eitrað starfið og andrúmsloftið í nefndinni“ og segja fjórmenningarnir að hún hafi „talað fyrir absúrd skoðunum í umræðunni um kvenfrelsi.“

Í Dönsku akademíunni eru 20 meðlimir sem hittast einu sinni í mánuði í Rungstedlund, á Blixensafninu þar sem Karen Blixen bjó. Allir eru meðlimirnir annað hvort rithöfundar, bókmenntafræðingar eða málvísindamenn. Fyrir kemur að Akademían sjálf tjái sig um opinber álitaefni sem snúast um bókmenntir og tungu „en sérstök áhersla er lögð á að einstakir meðlimir akademíunnar njóti fullkomins frelsis til að taka þátt í opinberri umræðu á eigin vegum.“