Í dymbilvikunni var Friðrik Rafnsson að gramsa í tölvunni sinni og rakst þar á óbirta þýðingu sína á smásögunni „Níðvísan“ eftir fransk-marokkóska rithöfundinn Tahar Ben Jelloun. Ákvað hann í framhaldi að birta þýðinguna í þremur hlutum á facebókarsíðu sinni nú um páskanna, til að auðvelda vinum sínum og kunningjum að ferðast innanhúss, eins þeim hafði verið ráðlagt.

Ben Jelloun, sem er í hópi vinsælustu rithöfunda hins frönskumælandi heims, var gestur á Bókmenntahátíð í Reykjavík árið 2000 og birtist þá meðal annars fróðleg umfjöllun um hann í Morgunblaðinu. Ári síðar birti Friðrik síðan skemmtilega grein um hann í Lesbók Morgunblaðsins. Var tilefnið nýútkomin þýðing hans á bók Ben Jellouns, Kynþáttafordómar, hvað er það pabbi?  Í Lesbókinni lýsti Friðrik höfundinum svo:

„Hann er á margan hátt dæmigerður fyrir rithöfund sem hefur tveggja heima sýn, þekkir bæði evrópska og arabíska menningarheiminn eins og lófann á sér, og hefur á vissan hátt gert aukinn og gagnkvæman skilning þessara tveggja heima að lífsstarfi sínu. Allt frá upphafi rithöfundaferils síns hefur Tahar Ben Jelloun verið að byggja brýr skilnings milli fólks og menningarheima, en jafnframt verið ötull við að rífa niður múra misskilnings og haturs.“

Árið 2002 sótti Ben Jelloun Ísland síðan aftur heim og bar sú heimsókn, þar á meðal bílferð þeirra Friðriks um sveitir landsins, brátt ávöxt í „Níðvísunni“, en hún kom út á frönsku árið 2003. Friðrik er því í senn þýðandi sögunnar og persóna í henni. Hann féllst góðfúslega á, fyrir hönd þeirra Ben Jellouns, að þýðingin yrði endurbirt hér í Bókaskápnum.

Níðvísan

eftir Tahar Ben Jelloun

Ísland er land bergs og vatns. Á berginu þar vex nokkurs konar grámosi. Nánast enginn gróður. Fá tré. Enginn skógur. Klettar. Ískaldir fossar. Heit vötn. Gufa upp af heitu vatni. Gríðarleg víðerni og heiðblár himinn. Allt er öðruvísi. Í þessu landi er vatnið allavega á litinn, stundum hvítt, stundum blátt. Það sprettur upp úr steinum og klettum, það sprettur fram, brýst fram af krafti eins og ástríða, losar sæði sitt áður en það rennur rólegt, yfirvegað og kalt í vötn þangað sem goðsagan segir að menn hafi varpað líkneskjum af guðum í heiðnum sið en síðan tekið að tilbiðja Krist. Jörðin er lífleg, lifandi, síkvik, hreyfist og skorpan hrekkur til vegna þess að undir henni er of mikið af vatni og eldi, vegna þess að hún er meitluð af jöklum, öldum og stormum.

Mitt upp úr gríðarmiklu bersvæði, gömlum árfarvegi, gnæfa tveir ógurlegir klettadrangar. Mér er sagt að þetta séu Karl og Kerling, tvær tröllvaxnar styttur sem tíminn og vindurinn hafa mótað. Þau eru svo há og tignarleg og hafa svo djúp áhrif á mig að ég átta mig á því að vandinn sem ég á við að etja er örsmár, nauðaómerkilegur. Karl og Kerling kenndu mér að allt er afstætt. Friðrik, þýðandi minn og vinur, tók mynd af mér hjá þeim. Ég eins og agnarmá draumsóley við risavana granítstyttu þar sem ég stóð þarna í rauðu peysunni minni. Þegar ég horfði á þau var ekki nóg með að ég gleymdi svikunum, heldur hafði ég engan áhuga á því lengur að hefna mín, eða hann minnkaði allavega mjög. Ég hugsaði með mér að þessir drangar væru styttur sem fyrirskipuðu þögn. Ég smaug inn í þykkt lag af þögn og mér leið vel, sefaðist, næstum þveginn af hinum illu tilfinningum mínum. Ísland er eins og meðferð. Í fjarska sá ég Heklu, eldfjallið sem sendir frá sér hraun á tíu ára fresti og ég hugsaði með mér að það væri engin tilviljun að náttúran væri að tjá sig svona reglulega. Á tíu ára fresti flæðir eldurinn yfir bergið, skilaboð til mannanna um að vera undirgefnir og látlausir. Undarlegt en spennandi land.

Daginn eftir fór Friðrik með mig í Bláa lónið. Heitt vatnið sprettur úr iðrum jarðar þar. Það minnti mig á heitavatnsuppspretturnar í Sidi Harazem, nærri Fes, sem ég fór í þegar ég var barn. Ég fór þangað á vorin með foreldrum mínum. Ég synti í vatninu og fannst ég síðan vera léttur og fullur af orku. Ég gekk um í þessu vatni þar sem hitastigið breytist á tveggja metra fresti. Þarna voru heilu fjölskyldurnar að baða sig. Fólkið virtist ánægt. Ég hugsaði með mér: “Það sést á þeim að þau hafa ekki verið svikin af neinum nákomnum þeim!” Ég vissi það ekki, en þannig gengur þráhyggjan fyrir sig, hún leggur allt undir sig og sogar allt til sín. Ég áttaði mig á því að ég gæti losnað við hana með því að bægja henni harkalega frá mér. Um leið og myndin af gamla vini mínum kom upp í hugann bandaði ég henni frá mér með handarhreyfingu. Það var kannski fáránlegt af mér, en það hjálpaði mér að sjá hlutina úr fjarlægð.

Það hafði róandi áhrif á mig að ferðast um þetta land. Ég gleymdi ekki svikunum alveg, en hugsaði um þau á annan hátt. Ég fann hvernig þessir jöklar, klettar, fossar, þetta heita vatn, þessi einkennilega víðátta svæfðu sársaukann innra með mér. Ég varð ekki eins taugatrekktur og áður, ekki eins bráður í skapi.

Íslendingar hafa það orð á sér að lesa mikið. Þeir eiga nokkur stórskáld. Ég hitti Sigurð Pálsson. Hann talar reiprennandi frönsku og við ræddum um mikilvægi ljóðlistar í leikritum. Ég las ljóðasafnið hans, Ljóð um menn og salt. Ég var hrifinn af þessum línum:

Vel er hún fallin til uppgjörs

þessi latínugráa tunglskíma

sem bónar jökulskallann

Teningunum kastað

Þeir berast með straumi

jökulsárinnar

Ljóðlistin nærir hugmyndaflug mitt, sefar tilfinningar mínar, eflir skynjun mína. Ég veit að ég gæti ekki verið án ljóðlistarinnar. Ég les ljóð á hverjum degi og yrki stundum. Í leikritum mínum reyni ég að skapa ljóðrænt andrúmsloft án þess að yrkja.

Ég sagði Friðrik frá þessu máli mínu. Hann langaði að hjálpa mér:

“Á Íslandi er til fáguð og varasöm leið til að hefna sín á þeim sem hefur gert eitthvað á hlut manns, sem hefur komið illa fram við mann, vini sem hefur svikið mann eða nágranna sem hefur valdið manni leiðindum. Það er nóg að yrkja vísu og koma henni á kreik. Vitaskuld verður vísan að vera pottþétt, þrælgóð. Vísan er fyrsta leikfang Íslendinga. Hún verður í höndum skáldsins jafn hættuleg, beitt og hnífur. Þetta er mjög gömul hefð. Allir lögðu vísuna á minnið og fóru með hana. Þannig vissu allir hvað hafði gerst. Gott skáld gat lagt mannorð andstæðings síns í rúst, nema því aðeins að sá síðarnefndi sé betra skáld og geti svarað fyrir sig með enn magnaðri vísu. Þessir bardagar sem háðir voru með vísum, þessi glíma með orðum, gat stundum haft alvarlegar afleiðingar í för með sér. Ég hugsa að hann vinur þinn, ef ég hef skilið þetta rétt, sé lélegur rithöfundur, en þá ferð þú létt með að knésetja hann með orðum sem verða eins og eiturörvar. Hann verður fyrir listrænni árás og getur ekki látið sjá sig meðal manna eftir það. Hann hverfur af sjálfu sér og þar með er vandamálið leyst. Hér er til dæmis ein þekktasta vísa sem til er á Íslandi, sem segir allt um þetta:

Ferskeytlan er Frónbúans

fyrsta barnaglingur.

en verður seinna í höndum hans

hvöss sem byssustingur.

Þvílík og önnur eins menning! Vel ort vísa er mesta hefndin! Mér varð hugsað til svikarans og ímyndaði mér að hann vissi af þessu. Hann byrjar á því að vöðla saman blaðinu og fleygir því í ruslafötuna. Hann gengur fram og aftur um íbúðina sína. En vísan leitar á huga hans. Hann beygir sig niður að ruslafötunni og tekur aftur upp blaðið með vísunni, les hana aftur, reynir að skilja hana og ákveður síðan að láta sem ekkert sé.

Svikari, maður sem hefur misnotað sér traust vinar síns, sá sem hefur hagað sér eins og þjófur, glæpamaður, getur verið að hann sé næmur fyrir skáldskap? Verður maður ekki að fara niður á hans plan og beita sömu aðferðum og hann sjálfur til að fá hann til að skilja viðbrögð vinar síns?

Þegar ég er í vanda sem þessum loka ég mig af í herbergi og hugsa til föður míns sem var stórgáfaður maður en hann gat verið ákaflega kaldhæðinn og hafði mikið og fallegt hugmyndaflug. Hann samdi um það bil þúsund málshætti og orðtök. Hann lét orðin oft ríma og svívirti fólk gjarna í bundu máli ef svo bar undir. Þar sem það kom oft fyrir að ég þurfti á slíku að halda velti ég fyrir mér: “Hvað hefði hann gert eða sagt?” Hann hefði eflaust samið vísu, kannski ekki ferskeytlu, heldur texta þar sem væri blanda af háði og siðaboðskap, vel valin orð sem myndu hitta beint í mark. Hann hefði viljað vita hvað hefði gerst. Ég hefði skammast mín fyrir að segja honum frá því hvernig ég lét gabba mig svona heimskulega. Sögu af falsi og hvernig fals var notað. Rofinn trúnaður.

Ég fer út á aðalgötuna og geng inn í bókabúð. Ég kaupi póstkort með mynd af Karli og Kerlingu, háu klettadröngunum sem gnæfa upp úr tómum árfarveginum og ég skrifa þessi orð til hins gamla vinar míns:

Þau eru nefnd Karl og Kerling

tveir klettar sem hafa staðist ágang veðursins.

Annars staðar hefur hið vonda ryk lífsins

laumast milli barkarins og safans

í holu tré

Vindhviðan hefur tæmt minnið

ákafinn var skyssa

Trúnaðurinn fáránlegur

Tinandlitið

er ekkert annað en morkið andlit lyginnar.

Um kvöldið sýni ég konunni minni ljóðið og segi henni að ég hafi hug á að vera lengur í þessu landi.

“Mér finnst ég vera óhlutur meðan ég er hérna, það er skrýtið, ég hef á tilfinningunni að þjóðfélagið sé öðruvísi þegar það stendur frammi fyrir sterkri og harðneskjulegri náttúru. Það virðist hógværara, ég myndi jafnvel segja gott!”

“Óhultur fyrir hverju?”

“Fyrir ömurleikanum, lágkúrunni, svikum mannanna.”

“Þvílík blekking! Ég bendi þér bara á að ljóðið þitt er engin ferskeytla, það er of knappt, ekki nægilega hvasst.”

“Já, ég veit það, þetta er ekki ljóðið “Vitarnir” eftir Baudelaire, en ég geri það sem ég get, ég er ekki jafn hæfileikaríkur og skáldið sem orti fyrstu níðvísuna, en ég reyni að koma skilaboðunum á framfæri.”

“Þú heldur þó ekki að þú getir drepið hann með ljóðinu þínu?”

“Málið hefur aldrei verið að drepa nokkurn mann. Nei, bara fá hann til að hugsa sitt ráð.”

“Það þjónar engum tilgangi. En sendu honum það ef þú vilt, við sjáum til hvaða áhrif það hefur á samviskulausan mann eins og hann.”

“Engin.”

“Þá er best að hafa þetta svona. Maður á ekki að ætlast til neins af öðrum. Þó er þetta ein fyrsta hugmyndin sem þú sagðir mér þegar við kynntumst.”

“Ég veit það, en maður breytist ekki. Það er önnur hugmynd sem ég ber með mér eins og eitthvað augljós. Þetta er jafnvel það eina sem ég veit fyrir vissu.”

“Jæja, gleymdu þessu máli og hugsaðu um eitthvað annað.”

“Mig langar að fara að veiða lax í ám í norrænum löndum.”

Eftir stundarþögn:

“Ef maðurinn er góður, þá þarf ég ekkert að skrifa meira. Það er sjaldan skrifað um trúmennskuna, gæskuna, friðinn… Hins vegar er hið illa einn af helstu bandamönnum bókmenntanna; þær hafa þörfin fyrir það; það má segja að það örvi rithöfundinn…”

“Nú, lengi lifi svikin þá!”

“Mér finnst ég vera varnarlaus þangað til ég hef skrifað leikritið mitt.”

“Förum að eltast við villta laxinn!”

Friðrik Rafnsson þýddi