Á þessum voðalegu tímum hafa ýmsir listamenn, þar á meðal rithöfundar, lagt sitt af mörkum til að hugga og hressa þá sem telja sig þjást þessa mánuði. Bandaríski rithöfundurinn Curtis Sitttenfeld hefur boðað heiminum sína aðferð til að sefa leiða og vonleysi og bendir á veg sem gæti lyft upp andanum.

Hún stóð sig nefnilega sjálf að því að byrja hvern morgun á því að skoða facebook og twitter og fyrsta klukkutíma hvers dags notaði hún til að skrensa niður færslurnar á þessum félagsmiðlum. Hún uppgötvaði að siðurinn (hún endurtók þetta skrens yfir félagsmiðlana oft á dag) var farinn að hafa bæði áhrif á afköst hennar en ekki síður geð hennar. Hún varð „innantóm og vonlaus.“

Hún herti sig því upp og ákvað að hún skyldi nota þann tíma sem hún hingað til hafði eytt í hangs á facebook til að lesa smásögur Alice Munro. Fyrsta klukkutíma hvers dags settist hún yfir smásögu eftir hinn aldna nóbelsverðlaunahafa og sleppti twitter. Curtis Sittenfeld segir í viðtali að ákvörðun hennar hafa veitt henni nýtt líf. „Engri klukkustund er illa varið með sögu eftir Munro. Engu skiptir hvaða sögu maður velur eftir Munro; söguþráðurinn er alltaf safaríkur, persónurnar eru alltaf margvíðar, tilfinningar þeirra flóknar og samband milli persóna er áhugavert. Þótt sögurnar séu kannski í sjálfu sér ekki upplyftandi þá er viska höfundarins svo lífgefandi fyrir mig að ég fer glaðari inn í daginn.

Hvernig væri að byrja til dæmis á Hateship, Friendship, Courtship, Loveship, Marriage? og taka klukkutíma á dag?“ segir Curtis. Ætli þetta sé gott sálarmeðal?