Kristín Guðrún Jónsdóttir, dósent í spænsku við Háskóla Íslands (sem er nýbúin að senda frá sér örsagnaúrvalið Við kvikuna), birti nýlega á facebókarsíðu sinni hnitmiðað samtal tveggja nafntogaðra skálda sem áttu mikinn þátt í að beina athygli heimsins að suður-amerískum bókmenntum. Og hún var svo liðleg að gefa leyfi fyrir því að þýðing hennar á samtalinu og inngangur hennar að því yrðu endurbirt hér á bókaskápnum.

„Jorge Luis Borges heimsótti Mexíkóborg árið 1973. Hann átti sér bara eina ósk: Að fá að hitta Juan Rulfo, hann vildi fá að tala við góðvin sinn Rulfo. Því var komið í kring. Hér er samtal þessara rithöfunda sem eru þekktir fyrir fágaðan og knappan stíl í skrifum sínum. Þess má geta að Borges áleit skáldsöguna Pedro Páramo eitt helsta verk heimsbókmenntanna. Þéringum er sleppt í þýðingunni:

Rulfo: Meistari, þetta er ég, Rulfo. Mikið er gott að þú sért kominn. Þú veist hvað við metum þig mikils hér og hversu mikið við dáum þig.

Borges: Það kom loks að því, Rulfo. Ég get ekki séð lönd, en ég get hlustað. Ég heyri svo mikla gestrisni. Ég var búinn að gleyma hve þessi góði siður getur verið mikilfenglegur. En ekki kalla mig Borges og því síður „meistari“, segðu Jorge Luis.

Rulfo: Mjög vinsamlegt. Kallaðu mig þá Juan.

Borges: Ég ætla að vera hreinskilinn. Ég er hrifnari af Juan en Jorge Luis, með þessa fjóru stuttu bókstafi sem eru svo hnitmiðaðir. Hið stutta hefur alltaf verið í fyrirrúmi hjá mér.

Rulfo: Nei, því fer fjarri. Juan hver sem er, en Jorge Luis, aðeins Borges.

Borges: Alltaf jafn umhyggjusamur. En segðu mér, hvernig hefurðu haft það undanfarið?

Rulfo: Ég? Ja, ég er að deyja, að deyja hér um slóðir.

Borges: Þá hefurðu ekki haft það sem verst.

Rulfo: Hvernig þá?

Borges: Hugsaðu þér, don Juan, hvað við værum ógæfusamir ef við værum ódauðlegir.

Rulfo: Já, það er satt. Svo gengur maður hér um dauður eins og maður sé lifandi.

Borges: Mig langar að trúa þér fyrir leyndarmáli. Afi minn, hershöfðinginn, sagðist ekki heita Borges, sagði að rétt nafn hans væri annað, leynilegt. Mig grunar að hann hafi heitið Pedro Páramo. Ég er sem sagt endurútgáfa á því sem þú skrifaðir um fólkið í Comala.

Rulfo: Þá get ég nú dáið í alvöru.“