Ég hitti félaga minn útgefandann í gærkvöldi og hann las upp úr dagbók sinni fyrir mig. Það gerir hann alltaf þegar við hittumst á sunnudagskvöldum. Það er jólabókavertíð og ekki sá tími þar sem sálarlíf útgefenda er bjartast, þannig túlkaði ég svipinn á andlitinu og stunurnar á meðan útgefandinn fann sér sæti og rétta líkamsstöðu til að lesa fyrir mig. Líf útgefenda hangir á bláþræði, svo mikið skil ég, og síðustu dagar desember eru dagarnir sem skilja milli lífs og dauða. Það hefur útgefandinn svo oft sagt mér. Lestur hefst: (Júlía M. Endo)

„Laugardagur 8. desember.

Ég laumaðist inn í Eymundsson eftir hádegi og lét lítið á mér bera. Þar hagræddi ég nokkrum bókum á bókaborðinu (mér í vil) en lést bara vera skoða úrvalið; það var ríkulegt. Ég sá í gegnum búðargluggann vangann á Ragnari Helga Ólafssyni sem gekk eftir gangstéttinni framhjá bókabúðinni. Hann kíkir ekki inn, hann er búinn að fá nóg af bókum, hugsaði ég. Ragnar Helgi sá mig ekki, hann varð mín ekki var. Ég ákvað að elta hann, veita honum laumulega eftirför, bara mér til skemmtunar og sjá hvert maður sem er búinn að fá nóg af bókum leitar. Mér finnst hann orðinn svo líkur pabba sínum, en pabbi hans trúði á framhaldslíf bókanna en það gerir Ragnar Helgi ekki. Hann er búinn að boða dauða hennar, það er bókarinnar; boða dauða bókarinnar, það er hennar. Ætli ég lifi til að mæta í jarðarförina, hugsaði ég.

Ég hafði smokrað mér út úr bókabúðinni, gengið niður Skólavörðustíginn og haft vel greiddan hnakkann á Ragnari Helga í sjónmáli þegar ég datt niður í þessar dapurlegu hugsanir og missti alveg sjónar af honum. Ætli Ragnar Helgi hafi orðið mín var og látið sig hverfa? Hann gufaði að minnsta kosti upp og hann var hvorki  inni í snyrtivöruversluninni né í skartgripabúðinni. Ég staldraði við, snerist sennilega í einhverja hringi í kringum sjálfan mig, því skyndilega átti ég ekkert erindi þar sem ég var staddur á horni Skólavörðustígs og Bankastrætis. Út úr Subway samlokubúðinni kom ungt par, bæði með fullan munn af brauði og kysstist. Kannski voru þau að gefa hvort öðru að smakka. Hún var með mæjónesklessu á kinninni. Hann sleikti mæjónesið af kinninni. Ekkert mátti fara til spillis.

Neðan úr Bankastræti sá ég Oddnýju Eir koma gangandi  en ég sjálfur stóð bara kyrr og reyndi  að gera upp við mig hvert ég skyldi stefna. Ég var enn stefnulaus þegar Oddný Eir kom upp að mér:
„Sæll, útgefandi góður,“ sagði hún og kýldi mig létt í magann, „þú veist ekkert hvert þú ert að fara, ha!“
„Sæl. Segðu mér eitt, Oddný. Ertu á því að bókin sé að deyja?“
„Ósammála,“ sagði Oddný.
„Uhum … blessuð,“ sagði ég og tók hiklaust stefnuna áfram niður Bankastræti. Leið mín lá framhjá Dómkirkjunni og þar sá ég fyrir mér að jarðarför bókarinnar yrði haldin. Í Dómkirkjunni, Módettukórinn mundi syngja sálma „Ich ruf zu dir Jesu Christ“ og Alþingismenn stæðu heiðursvörð í rigningunni þegar kistan yrði borin út í líkbílinn. Bókin á skilið viðhafnarjarðarför, hugaði ég, og Dómkirkjan er staðurinn fyrir viðhafnarjarðarfarir. Það var ljós í kirkjunni og nokkrir útlendingar reyndu árangurslaust að opna sér leið inni í kirkjuna. Ætli þau hafi ætlað sér að leita skjóls? Ég get að minnsta kosti ekki bjargað þeim, hugaði ég.

Ég ákvað að hraða mér bara heim, heim í litla kotið mitt. Ég átti ekkert erindi. Ég skyldi fara í fótbað og klæðast síðan þykku sokkunum mínum svo ég gæti gengið hljóðlaust um íbúðina mína eins og ég væri ekki til. Eins og ég væri draugur.“

Veriði sæl, Ásta.

 

Auglýsingar