Nú er komið í ljós hvaða rithöfundar eru tilnefndir til Íslensku bókmenntaverðlaunanna og Fjöruverðlaunanna: Bókmenntaverðlauna kvenna þetta árið. Í báðum tilvikum er tilnefnt í þremur sömu flokkunum: 1. Fagurbókmenntir, 2. Barna- og unglingabækur, 3. Fræðirit og rit almenns efnis.

Auður Ava Ólafsdóttir er tilnefnd til beggja verðlauna í flokki fagurbókmennta, fyrir bók sína Ungfrú Ísland. Aðrir tilnefndar bækur í þessum flokki eru Kláði eft­ir Fríðu Ísberg, Lif­andi­lífs­læk­ur eft­ir Berg­svein Birg­is­son, Sálu­messa eft­ir Gerði Krist­nýju, Sex­tíu kíló af sól­skini eft­ir Hall­grím Helga­son, Haustaugu eft­ir Hann­es Pét­urs­son og Ástin, Texas eft­ir Guðrúnu Evu Mín­ervu­dótt­ur.

Tilnefndar barna- og unglingabækur eru Sag­an um Skarp­héðin Dungal sem setti fram nýj­ar kenn­ing­ar um eðli al­heims­ins eft­ir Hjör­leif Hjart­ar­son og Rán Flygenring, Lang-elst­ur í leyni­fé­lag­inu eft­ir Bergrúnu Írisi Sæv­ars­dótt­ur, Ljónið eft­ir Hildi Knúts­dótt­ur, Rott­urn­ar eft­ir Ragn­heiði Eyj­ólfs­dótt­ur, Silf­ur­lyk­ill­inn eft­ir Sigrúnu Eld­járn, Sölvasaga Daní­els­son­ar eft­ir Arn­ar Má Arn­gríms­son, Fía­sól gefst aldrei upp eft­ir Krist­ínu Helgu Gunn­ars­dótt­ur og Sjúk­lega súr saga eft­ir Sif Sig­mars­dótt­ur og Hall­dór Bald­urs­son.  Halldór er eini karlmaðurinn sem er á lista yfir tilnefndar bækur til Fjöruverðlaunanna, en þess má geta að hann myndskreytir einnig bókina um Fíasól.

Ein bók, Þján­ing­ar­frelsið. Óreiða hug­sjóna og hags­muna í heimi fjöl­miðla eft­ir Auði Jóns­dótt­ur, Báru Huld Beck og Stein­unni Stef­áns­dótt­ur er tilnefnd til beggja verðlauna í flokki fræðibóka og rita almenns efnis. Aðrar tilnefndar bækur í þessum flokki eru Flóra Íslands. Blóm­plönt­ur og birkn­ing­ar eft­ir Hörð Krist­ins­son, Jón Bald­ur Hlíðberg og Þóru Ell­en Þór­halls­dótt­ur, Krist­ur. Saga hug­mynd­ar eft­ir Sverri Jak­obs­son, Skúli fógeti – faðir Reykja­vík­ur eft­ir Þór­unni Jörlu Valdi­mars­dótt­ur og Bóka­safn föður míns eft­ir Ragn­ar Helga Ólafs­son. Áhugavert er að sjá síðastnefndu bókina tilnefnda í þessum flokki til Íslensku bókmenntaverðlaunanna en eins og fram kom í færslu hér í bókaskápnum fyrir skömmu er verk Ragnars Helga flokkað með skáldsögum í Bókatíðindum.

Tilnefningar til þessara tveggja verðlauna hafa ekki farið hátt í fjölmiðlum. Sú tíð er löngu liðinn að Sjónvarpið sendi beint út frá tilnefningu til Íslensku bókmenntaverðlaunanna en fullveldisafmælið og klausturpóstar drógu um helgina til sín alla þá athygli sem þessi viðburður hefði geta fengið. Fáeinir póstar hafa þó birst á samfélagsmiðlum þar sem velt er vöngum yfir því hví tiltekinn höfundur eða bók hafi ekki fengið tilnefningu. Fjörugasta umræðan hefur skapast um Bókasafn föður míns og flokkun hennar. Hér má sjá brot af spjalli spekinga í netheimum:

EH: Bók Ragnars Helga er afbragð. En hún er ekki fræðibók.

JYJ: Flokkurinn heitir fræðibækur og bækur almenns efnis. Það er vissulega einkennilegt tegundarheiti og vekur ýmsar spurningar, en bók Ragnars Helga rúmast prýðilega innan þess.

EH: Nú lauk ég við lestur bókarinnar í gær. Hún á heima með skáldverkum.

HS: Ég gæti tekið undir með báðum.

GAT: Þessi vandræðagangur kom upp þegar ég gerði bókina um pabba. Man ekki hvorum megin hún var lögð fram en hún fékk ekki tilnefningu. Það man ég að sjálfsögðu!

EH: En svo var hún tilnefnd til bókmenntaverðlauna Norðurlandaráðs. Líkt og bók Ragnars, full af skáldlegum innblæstri. Og fjalla báðar um feður.