Á ári hverju stíga fram í sviðsljósið nýir þýðendur íslenskra bókmennta á erlendar tungur, ungt fólk eða eldra sem opnar íslenskum rithöfundum dyr að nýjum lesendahópum sem oftast eru margfalt fjölmennari en íslenska þjóðin. Halldór Xinyu Zhang er meðal þeirra ungu þýðenda sem hafa tekið að sér slíkt hlutverk á allra síðustu árum. Haustið 2016 kom út í kínverskri þýðingu hans skáldsagan Hundadagar eftir Einar Má Guðmundsson en í kjölfarið var hún verðlaunuð sem ein af fimm bestu erlendu samtímaskáldsögunum sem komið höfðu út í þessu fjölmennasta ríki veraldar (í Kína búa um það bil 1.384.688.986 mögulegir lesendur íslenskra bókmennta, hér á landi eru þeir aðeins 338.349).

Nú hefur Halldór Xinyu þýtt tvær aðrar íslenskar skáldsögur, Riddara hringstigans eftir Einar Má, og Meðan nóttin líður eftir Fríðu Á. Sigurðardóttur (sjá mynd). Er útgáfa þessara verka hluti af stórhuga áformum um að þýða og gefa út á kínversku tíu sígild íslensk skáldverk 20. aldar. Einnig hefur hann þýtt safn íslenskra samtímasmásagna en í því má meðal annars finna sögur eftir Svövu Jakobsdóttur, Steinunni Sigurðardóttur, Braga Ólafsson, Gyrði Elíasson, Jón Kalmann Stefánsson og Kristínu Eiríksdóttur.

Samhliða þýðingastarfinu hefur Halldór Xinyu stundað BA nám í íslensku sem öðru máli og MA nám í íslenskum bókmenntum við Háskóla Íslands. Hann hefur á undraskömmum tíma aflað sér yfirgripsmikillar þekkingar á íslenskri bókmenntasögu, eins og kom vel fram í skemmtilegum þætti Auðar Aðalsteinsdóttur, Bók vikunnar, síðastliðinn laugardag en þar ræddu þau Halldór Xinyu og Ásta Kristín Benediktsdóttir um skáldævisöguna Í barndómi eftir Jakobínu Sigurðardóttur.

Og Halldór Xinyu er með fleiri járn í eldinum þessa dagana. Hann vinnur að meistararitgerð um Fríðu Á. Sigurðardóttur og stefnir á næstu árum á doktorsnám í frásagnarfræðum. Á þessum morgni situr hann hins vegar sveittur við að undirbúa fyrirlestur um þýðingar sem hann flytur á vegum Kínversk-íslenska menningarfélagsins og Konfúsíusarstofnuninnar Norðurljósa klukkan 17.30 í dag. Viðburðurinn er stofu 007 í Veröld, húsi Vigdísar Finnbogadóttur að Brynjólfsgötu 1. Aðgangur er ókeypis og öllum opinn.

Afköst Halldórs Xinyu á síðustu árum eru mikil og minna helst á það óeigingjarna verkefni sem annar þýðandi og fræðimaður innti af hendi fyrir hönd íslenskra bókmennta í Svíþjóð á árunum 1945-1955. Sænski bókmenntafræðingurinn Peter Hallberg kom til Íslands sem sendikennari í lok seinna stríð og náði á undraskömmum tíma frábærum tökum á íslensku, þýddi mörg helstu verk Halldórs Laxness á sænsku, skrifaði um þau ritgerðir og bækur og lauk meðfram því öllu við þýðingu á íslenskri samtímabókmenntasögu eftir Kristinn E. Andrésson (og við doktorsritgerð sína um sænska lýrík). Einn af dýrmætustu ávöxtum þessa tímabils voru Nóbelsverðlaunin sem Halldóri  hlotnuðust árið 1955. Þau mörkuðu þó engan veginn endalok þessa gjöfula starfs. Myndin af þeim Hallberg og Halldóri, hér til hliðar var tekin árið 1987 þegar þeir hittust á Laxnessþingi Félags áhugamanna um bókmenntir en þar flutti Hallberg líklega síðasta opinbera fyrirlestur sinn á íslensku um einkenni sagnaskáldsins á Gljúfrasteini. Hallberg lést árið 1995, 79 ára að aldri.

Enn á einhver eftir að skrifa bók um þann ómetanlega liðsauka sem Hallberg veitti íslenskum bókmenntum, og þar með að mestu ósýnilegt framlag íslenskra eiginkvenna hans, systranna Rannveigar og Kristínar Kristjánsdætra, til þessa verkefnis. Starf þeirra þá, rétt eins og starf Halldórs Xinyu Zhang og fjöldamargra annarra þýðenda úr íslensku nú um stundir, er helst sambærileg við starf íslenskra sendaherra á erlendri grundu, þó svo að launin og vegsaukinn séu ekki fyllilega þau sömu.

 

Auglýsingar