Næsta hefti Tímarits Máls og menningar er nú er á leið í prentun.  Það hefur ekki farið sérstaklega hátt að tímaritið hefur ráðið nýja ritstjóra. Silja Aðalsteinsdóttir, sem hefur til bráðabirgða setið á ritstjórastól, hefur stýrt sínu síðasta tölublaði og þær stöllur og innanhússfólk á Forlaginu, Sigþrúður Gunnarsdóttir og Elín Edda Pálsdóttir, hafa tekið við. Ritstjórnartök þeirra má sjá á heftinu sem dreift verður til áskrifenda á næstu vikum.

Sigþrúður er íslenskufræðingur, hún hefur lengi starfað við ritstjórn á Forlaginu og undanfarin ár hefur hún kennt ritlistar- og ritstjórnarnemum við Háskóla Íslands að ganga frá textum til útgáfu. Elín Edda Pálsdóttir er bókmenntafræðingur frá Háskóla Íslands og Háskólanum í Lundi, hún hefur unnið í nokkur ár sem verslunarstjóri í Bókabúð Forlagsins.