Sigþrúður Gunnarsdóttir, sem unnið hefur sem ritstjóri barnabóka hjá Forlaginu um árabil og er annar af tveimur nýjum ritstjórum Tímarits Máls og menningar, flytur annað kvöld erindi á vegum Félags íslenskra fræða um sögu og hlutverk bókmenntaritstjórans. Erindið byggir á meistararitgerð hennar, „Er ósýnilegi maðurinn hættur að vinna“ en hún fjallar meðal annars „um þögnina sem umlykur ritstjórastarfið, óskoruð yfirráð höfundar yfir texta sínum, aukna tilhneigingu til að gera ritstjóra ábyrgan fyrir þeim bókum sem hann hefur unnið við og umræðu sem farið hefur vaxandi á undanförnum árum um að ritstjórn á bókum fari nú hnignandi“.

Þetta er spennandi viðfangsefni sem nokkur athygli hefur beinst að á undanförnum árum. Má í því sambandi minna á kvikmyndina Genius sem fjallað var um í bókmenntamola hér á bókaskápnum á vordögum. Myndin segir sögu bandaríska bókmenntaritstjórans Maxwell Perkins, sem starfaði hjá Scribner’s á fyrri hluta síðustu aldar og „uppgötvaði“ í því starfi ekki ómerkari rithöfunda en Ernest Hemingway og F. Scott Fitzgerald. Myndin er þó einkum helguð samstarfi hans og Thomas Wolfe.

Perkins er án efa einn þekktasti bókmenntaritstjóri amerískrar bókmenntasögu (hann kemur mikið við sögu í ritgerð Sigþrúðar) en aðrir sem fylla þann flokk eru skáldkonunnar Tony Morrisson sem starfaði um hríð sem ritstjóri hjá Random House (meðal bóka sem hún ritstýrði var sjálfævisagan The Greatest eftir hnefaleikskappann Muhammad Ali) og Margaret Atwood sem starfaði á áttunda áratugnum hjá kanadíska útgáfufyrirtækinu Anansi (meðal höfunda sem hún ku hafa ritstýrt þar er Michael Ondaatje).

Einnig má nefna einn af ritstjórum Morrison sjálfrar, Robert Gottlieb, sem vann bæði hjá forlögunum Simon & Schuster og Alfred A. Knopf. Hann ritstýrði þar einnig Joseph Heller, John Le Carré, Doris Lessing,  og Salman Rushdie, svo fáein nöfn séu nefnd. Í viðtali sem birtist við Gottlieb í The Paris Review undir titlinum „The Art of Editing #1“ varaði hann fólk við að hefja menn eins og sig upp á stall, „samband ritstjórans við bókmenntaverk á að vera ósýnilegt“.

Oftast er því líka þannig farið. Venjulegir lesendur eða gagnrýnendur greina svo að segja aldrei hvað bókmenntaritstjórinn hefur gert fyrir tiltekna bók en þeir geta haft sínar skoðanir á því hvað ritstjórinn hefur hugsanlega látið ógert. Það verður a.m.k. æ algengara að lesa í ritdómum íslenskra bóka að viðkomandi verk hefði þurft að fá „betri ritstjórn“. Slíkar ályktanir eru reyndar fremur villandi því höfundar fara sjaldnast fullkomlega eftir öllu því sem ritstjóri stingur upp á.

Samanburður á handritum getur einn afhjúpað fyllilega hvernig bókmenntaverk þróast í samskiptum ritstjóra og höfundar. Eitt þekktasta dæmið um slíkan samanburð leiddi í ljós að Gordon Lish, ritstjóri nokkurra bóka Raymond Carver, átti drjúgan þátt í að móta þann knappa stíl sem varð eins konar vörumerki Carvers sem smásagnahöfundar. Myndin hér til hliðar sýnir vel hve íhlutunarsamur Lish gat verðið um stíl Carvers. Þeim sem áhuga hafa á þessu efni er m.a. bent á forvitnilegt viðtal við Lish, „The Art of Editing #2“ sem einnig birtist í The Paris Review.

Þegar leitað er í íslenskri bókmenntasögu að þekktum bókmenntaritstjórum kemur samband Konráðs Gíslasonar og Jónasar Hallgrímssonar meðal annars upp í hugann. Konráð hafði oft sterkar skoðanir á hvernig mætti breyta og bæta verk Jónasar og gekk reyndar svo langt að dreyma upphafið að einhverju þekktasta ljóði skáldsins. Hér má einnig minna á áralangt aukastarf Jóns Helgasonar, prófessors í Kaupmannahöfn, við að lesa yfir handrit að bókum góðvinar hans, Halldórs Kiljans Laxness. Útgefandi Halldórs, Ragnar í Smára, lét svo um mælt að þáttur Jón í sköpun Gerplu hefði verið slíkur að sér hefði verið skapi næst að prenta nöfn þeirra beggja framan á kápu bókarinnar.

Halldór Laxness og Jón Helgason (mynd af vef Gljúfrasteins).

Jón gerði sjálfur lítið úr sínum þætti. Hann lagði ríka áherslu á að höfundar ættu síðasta orðið þegar kæmi að endurbótum á texta; „það hefur verið föst regla hjá mér að breyta aldrei neinum staf án þess að höfundur sjálfur sæi þessar breytingar og gerði annað hvort að fallast á þær eða ekki, eða þá að setja sjálfur inn eitthvað þriðja.“ Halldóri treysti Jóni hins vegar betur en sjálfum sér í þessum efnum og fannst hálfgerður óþarfi að samþykkja formlega þær breytingartillögur sem prófessorinn gerði í próförkum. Í bréfi til Jóns sem Halldór skrifaði árið 1953 segir meðal annars:

„Feginn varð ég þegar Ragnar sagði mér þú ætlaðir að líta á próförk af þessu drabbi mínu, en enn fegnari yrði ég ef þú litir á handrit fyrst, og hræktir í og hræktir í þangað til bækurnar yrðu eitthvað í líkingu við ljóðabók Gísla skálds frá Eiríksstöðum nyrðra eftir að fjöldi manna syðra var búinn að yrkja hana upp, sumir í handriti, aðrir í próförk, svo höfundurinn kannaðist hvergi við neitt þegar hann las kvæði sín á prenti – en var sér til undrunar eftir bókina orðinn hæst ritlaunaður ljóðasmiður Íslands.“

Í öðru bréfi sem Halldór sendi Jóni fjórum árum fyrr kvað við svipaðan tón:

„Ég held það hafi alltaf verið einn af skárri kostum mínum sem rithöfundur, að ég er ævinlega fús til, og meira að segja áfjáður í, að láta þá menn sem ég treysti krota eins mikið og þeir lifandi þola í handrit hjá mér; og það er vegna þess að ég hef margreynt að handritin stórskána við slíkar aðgerðir. Auðvitað vofir sú hætta yfir rithöfundi sem aðhyllist þetta prinsíp, að það skásta í bókinni verði eftir allt aðra menn en sjálfan hann, en þá hugsa ég með mér, má ekki einu gilda hvort bókin er eftir Guðmund Daníelsson eða Martin Larsen, aðeins ef hún er nógu góð. Ég veit að til eru aðrir rithöfundar sem aðhyllast öfugt sjónarmið við mig í þessu, og segja: það sem ég hef skrifað það hef ég skrifað, – það er: enginn máttur milli himins og jarðar skal fá mig, séníið mikla, til að breyta stafkrók af því sem ég hef skrifað af helgum innblæstri, alveg sama hvað það er mikil vitleysa í augum heimskra manna, já og þó það væri fyrirskipun um morð. Þessir menn finnst mér dálítið lífshættulegir, eða að minnsta kosti hafa meiri gáfur sem pílatusar en rithöfundar. – Þetta ætti að duga þér í bili á móti afsökunum á að krota í hjá mér.“

Fyrirlestur Sigþrúðar um bókmenntaritstjórn verður haldinn í safnaðarheimili Neskirkju við Hagatorg annað kvöld og hefst kl. 20.00 og er vonandi að rithöfundar, bókmenntaritstjórar og almennir lesendur fjölmenni og standi fyrir fjörugum umræðum að erindi loknu.