Það er ekki á hverjum degi sem íslensk samtímaljóðlist ratar til þúsunda erlendra lesenda en sú var raunin í þessari viku þegar ljóð Kristínar Ómarsdóttur, „Three Poetesses“ var valið ljóð vikunnar af bókmenntaritstjórn breska stórblaðsins The Guardian. Það birtist þar í þýðingu Valgerðar Þóroddsdóttur, en fyrr á þessu ári kom út í hennar þýðingu úrval af ljóðum Kristínar undir titlinum Waitress in Fall.

Útgefandi Waitress in Fall eru tvö forlög, Partus Press sem Valgerður rekur í Reykjavík og Manchester og Carcanet Press sem á sér langa og merka sögu á breskum ljóðabókamarkaði. Bókinni hefur verið vel tekið af gagnrýnendum, þeirra á meðal er Laurie Garrison sem skrifar meðal annars um súrrealíska þætti í ljóðum Kristínar á vefmiðlinum Translating Women.

Auk þýðingarinnar birtir The Guardian umfjöllun Carol Rumens um ljóðið, en hún segist hafa hrifist af þeirri frumlegu og aðgengilegu rödd sem tali í ljóðum Kristínar og hrósar Valgerði sérstaklega fyrir þýðingarnar: „Enskan hljómar ætíð svo eðlilega að það er auðvelt að gleyma því að ljóðin séu þýdd.“ Þetta er upphaf þýðingar Valgerðar á „Three Poetesses“:

Three poetesses
in white bras
sit around a low
round-table.
With books in hand.

A man dressed in a pirate sweater
comes in through the door
from a snowstorm and sits
at the women’s table.

Þeim lesendum breska blaðsins sem áhuga hafa á að bera saman þýðinguna og frumtextann er, neðst í frétt The Guardian, bent á bloggsíðuna bourguignomicon en þar birtist ljóðið „Þrjár skáldkonur“ árið 2011. Á sömu síðu má reyndar einnig lesa enska þýðingu Peter Constantines á þessu sama ljóði Kristínar. Það er forvitnilegt að bera þessar tvær þýðingar saman; báðar fylgja allnámkvæmlega frumtextanum og munurinn á milli þeirra er þar af leiðandi ekki mikill. Hann er þó nægur til að líta svo á að um tvo sjálfstæða texta sé að ræða. Merking og áhrif ljóða liggja oftar en ekki í smáatriðum; greinamerkjum, takti og vali einstakra lykilorða.

Þess má geta að Partus Press er þessa dagana að senda frá sér áhugaverðar nýjar bækur á íslensku, meðal annars eftir Fríðu Ísberg (smásagnasafnið Kláði), Jónas Reyni Gunnarsson (skáldsagan Krossfiskur) og Arngunni Árnadóttur (ljóðabókin Ský til að gleyma). Útgáfuhóf sem helgað er bókum Fríðu og Jónasar Reynis hefst reyndar kl. 17.30 í dag, í Listasafni Einars Jónssonar; höfundarnir lesa úr verkum sínum, léttar veitingar verða á boðstólum og bækur til sölu.