Á því herrans ári 2004 sendi Sigfús Bjartmarsson frá sér ljóðabókina Andræði, sem í baksýnisspeglinum virkar eins og nákvæmt uppkast að 8. bindi rannsóknarskýrslu Alþingis um bankahrunið 2008 (Siðferði og starfshættir í tengslum við fall íslensku bankanna). Um er að ræða nútímalegan heimsósómakveðskap þar sem íslenskir bankar, stjórnmálaflokkar, fjölmiðlar, menningarlífið og efnishyggjan eru tekin fyrir á afar kaldhæðnislegan hátt. Ágætt dæmi um tóninn (og forspárgáfu skáldsins) er eftirfarandi hending:

Og
sjaldan
sleppur skattrannsóknarstjóri
inn í skattaparadís.

Bókin vakti mikla athygli og var meðal annars  tilnefnd til Íslensku bókmenntaverðlaunanna. Síðustu 14 ár hefur Sigfús verið bundinn í öðrum verkefnum og ekki sent frá sér nýja bók, ekki fyrr en fyrir nokkrum dögum þegar út kom fyrra bindið af tveggja binda ljóðmælum, Homo economicus. Seinna bindið er boðað á næstu ári.

Eðlilegt er að líta á þetta verkefni sem óbeint framhald af Andræði því hér yrkir Sigfús fyrir munn íslenska „hagmennisins“, „sem aðhyllist kenningar frjálshyggju og markaðstrú“, eins og segir í inngangi þessarar 245 síðna bókar. Ljóðmælanda er raunar gefið nafnið „hólmsteinn“ og undirstrikað (eins og reyndar með útliti verksins og ítrekuðum endurómi á kveðskap séra Hallgríms) að um sé að ræða sálmabók þess pólitíska rétttrúnaðar sem ríkjandi var í íslenskum stjórnmálum og viðskiptum á árunum 1991-2008: „Efninu er skipað nokkurn veginn í tímaröð, fyrra bindið, sem nú kemur fyrir sjónir lesenda, spannar gleðileikinn fram að hruni, það síðara nær frá þeim bömmer til bjartari tíma.“

Í þessu fyrra bindi er meðal annars ort um geymda aura og glatað fé, Hummer-bifreiðar, Kárahnjúkavirkjun, Eimreiðarhópinn („Lestin brunar …“), auðkýfinga og athafnaskáld, Bush-feðga, meistara Mandeville, ofurkonuna Ayn Rand, endalok Máls og menningar, umhverfispólitík Vinstri-grænna, götustrákinn Jón Ásgeir, einkabankaþjónustu, fjárfestinn Björgúlf Thor, og svo mætti lengri áfram telja. Ef einhver stendur í þeirri sælu trú að útrásin og hrunið hafi verið endanlega afgreidd í íslenskum skáldverkum þá afsannar bók Sigfúsar þá firru allrækilega.

Sú aðferð skáldsins að yrkja í orðastað síns ímyndaða ljóðmælanda gerir mat á skáldlegum tilþrifum og hugmyndafræðinni í bókinni allsnúið og allar spár um viðtökur og væntanlega kaupendur villugjarnar. Það sem einum lesanda gæti sýnst vera ískrandi írónía gæti öðrum virst heillaráð. Nægir í því sambandi að tilfæra sálminn „Samkeppnin eflir alla dáð“ sem finna má í fyrsta hluta bókarinnar (hann ber titilinn „Úr heilræðum hólmsteins“):

Sjálfstæðismaður sækja skal
um sérhvern ríkisstyrk.
Það sannar fyrir sósíalistum
að samkeppnin er virk.

Forvitnilegt verður að fylgjast með undirtektum lesenda við þessari hápólitísku sálmabók, ekki síst hægrisinnaðra íhaldsmanna, sem hafa stundum áður brugðist harkalega við tilraunum íslenskra samtímaskálda til að persónugera hugmyndafræði útrásaráranna. Má í því sambandi minna á þá umræðu sem sviðsetning Þjóðleikhúsins á leikritinu Maður að mínu skapi eftir Braga Ólafsson vakti fyrir réttum fimm árum síðan.