Rithöfundurinn Anna Burns hlaut Man Booker-verðlaunin í ár og er þar með fyrsti rithöfundurinn frá Norður-Írlandi sem hlýtur verðlaunin. Val dómnefndar kom mörgum á óvart. Bók Burns, Milkman, gerist í ónafngreindri borg á átakatímum á Norður-Írlandi og segir sögu ungrar konu sem á í ástarsambandi við kvæntan mann.

Þykir frásögnin nokkuð tilraunakennd og hafa bóksalar á Englandi lýst yfir vonbrigðum sínum með val dómnefndar þar sem ekki er talið líklegt að bókin eigi eftir að verða mikil sölubók eða höfða til stórs hóps lesenda. Formaður dómnefndar kom þó dómnefndinni til varnar og sagði að það væri erfiðisins virði að plægja sig í gegnum söguna sem væri algerlega frábær. Lesturinn væri eins og að klífa hátt fjall, það kefðist úthalds og styrks að ná á toppinn en útsýnið þaðan væri engu líkt.

Þetta er fjórða bók Önnu Burns, sem er  fædd í Belfast árið 1962 en fyrsta bók hennar, No Bones, kom út árið 2001. Sex árum síðar kom út bókin Little Constructions. Þriðja bókin, Mostly Hero, sem er nóvella, kom út árið  2014. Hér fyrir neðan má hlýða á örstutt brot úr Mjólkurmanninum: