„Magnað hvernig maður gengur sisvona inn í söguleg hlutverk,“ segir sögumaðurinn Ægir í Eftirbát, nýrri skáldsögu Rúnars Helga Vignissonar sem er nýkomin út hjá Dimmu. Tilefni þessara orða er lýsing sögumannsins á þeirri miklu hrakningaför sem Sumarliði landpóstur Brandsson hélt í árið 1920 yfir Snæfjallaheiðina við Ísafjarðardjúp. Í verunni varð Jón Kristjánsson samferða Sumarliða í þessari ferð en í skáldsögu Rúnars Helga hefur Ægir, sem starfar á auglýsingastofu í samtímanum, ferðast (eða öllu heldur siglt) aftur í tímann á einhver illskiljanlegan hátt og gengið inn í hlutverk samferðamannsins.  Ekki er nóg með að hann hafi nútímalegri sýn á ferðalagið en Jón miðlar í sinni frásögn af viðburðum (sem birtist í Ársriti Sögufélags Ísfirðinga 2001 og svo aftur í Morgunblaðinu árið 2010) heldur veit Ægir fyrirfram um þau örlög sem bíða Sumarliða pósts á heiðinni:

„Ég reyni að fá Sumarliða ofan af því að leggja á Snæfjallaheiðina í þessu veðri, veit að það á eftir að versna þó að ég kunni ekki mikið að skyggnast til veðurs að hætti fornmanna. Sumarliði þumbast auðvitað við. Gömlu hjónin, sem geymdu hestinn, reyna líka að fá Sumarliða ofan af því að fara og bjóða okkur gistingu. Það er ekki við það komandi, rétt eins og funheit meyjarlæri bíði Sumarliða hinum megin við heiðina. …Við erum vart lagðir af stað þegar gengur yfir kafaldsél með skafrenningi svo vart sér út úr augum.“

Slysin við Bjarnarnúp eru einn af mörgum þekktum viðburðum úr sögu Vestfjarða sem Rúnar Helgi fléttar með þessum óvenjulega hætti inn í skáldsögu sína. Þeir eru jafnan séðir með augum hins nútímalega sögumanns og bera af þeim ástæðum jafnríkan vott um bjagað skynbragð hans á fortíðina og það sem hugsanlega átti sér stað, endur fyrir löngu. Frásögnin er óvenjulegt afbrigði hinnar sögulegu íslensku skáldsögu sem hefur verið í örri og spennandi þróun á síðustu árum og áratugum.

Sögulegar skáldsögur hafa átt ríkan sess í íslenskri skáldsagnagerð nútímans, allt frá því að Torfhildur Hólm reið þar á vaðið með verkum á borð við Brynjólf Sveinsson biskup (1882), Eldingu (1889) og framhaldssögum sínum um Jón biskup Arason og Jón biskup Vídalín. Hið klassíska form þessarar vinsælu bókmenntagreinar (með alvitrum 3. persónu sögumanni) mótast í meðförum Gunnars Gunnarssonar, Halldórs Laxness og Björns Th. Björnsson en á seinni árum hafa margir íslenskir höfundar endurskapað það með athyglisverðum 1. persónu sögumönnum sem flytja lesendum vitnisburð úr fortíðinni, ýmist á tungutaki sem er sláandi nútímalegt eða skemmtilegur sambræðingur eldri og yngri ritstíla. Þórunn Jarla Valdimarsdóttir, Einar Kárason, Sjón, Ófeigur Sigurðsson og Sölvi Björn Sigurðsson eru í hópi þeirra mörgu höfunda sem skilað hafa af sér verkum í þessum anda en segja má að Hermann Stefánsson hafi snúið enn frekar upp á hefðina með skáldsögu sinni Bjargræði (2016) þar sem hin flugmælska Látra-Björg lætur dæluna ganga á kaffihúsi í Reykjavík samtímans.

Rúnar Helgi fer hins vegar þveröfuga leið; hann sendir sögumann sinn í ferðalag aftur í tímann, ekki bara til eins tiltekins staðar og árs heldur á marga og ólíka áfangastaði vestfirskrar fortíðar. Sumir þeirra, þar á meðal Bjarnarnúpur anno 1920, eru þekktir – þess má geta að Jón Kalman Stefánsson sækir einnig innblástur í ferð Sumarliða pósts í skáldsögu sinni Harmur englanna, eins og Rúnar Helgi hefur sjálfur bent á. En aðra er erfiðara að kortleggja og tímasetja enda virðast þeir fremur tilheyra persónulegri fortíð höfundarins en þjóðarinnar. Ekkert er fjær þessum sögumanni en að rómantísera viðfangsefnið; frásögnin einkennist á köflum af nístandi (sjálfs)íróníu og jafnvel galgopaskap, sem er um leið fullur af alvöru. Og því verður hún furðu snúin, þessi annars einfalda spurning: Er Eftirbátur söguleg skáldsaga?