Það er að hausta og bókaútgáfurnar vakna hver af annarri af hálfdvala sínum. Jólin eru framundan og hið svokallað jólabókaflóð skellur brátt á. Fyrstu bókum vertíðarinnar hefur skolað á land á síðustu dögum og var Sorgarmars Gyrðis Elíassonar einna fyrst til að koma á borð bókabúðanna. Bók Gyrðis hefur fengið góðar viðtökur (fimm stjörnur í Mbl.). Skáldsaga Rúnars Helga Vignissonar Eftirbátur kom siglandi inn í bókabúðir í vikubyrjun og  Katrínarsaga Halldóru Thoroddsen er komin út og hefur þegar spurst vel út meðal lesenda.

Í vikunni lagði bókaútgáfan Benedikt fram útgáfulista sinn þar sem barnabókahöfundurinn og ljóðskáldið Þórdís Gísladóttir er kynnt sem skáldsöguhöfundur. Fyrstu skáldsögu hennar, Horfið ekki í ljósið, er spáð mikilli velgengni. Einnig vekur athygli að Eiríkur Guðmundsson hefur flutt sig yfir á Benedikt með nýja skálsögu sína sem kallast Ritgerð mín um sársaukann. Fréttakonan Sigríður Hagalín fylgir eftir hinni geysivinsælu skáldsögu sinni Eyland með nýrri bók, Hið heilaga orð. Mikil eftirvænting ríkir líka í kringum skáldsögu bókmenntaverðlaunahafans Auðar Övu Ólafsdóttur. Ungfrú Ísland heitir sagan og eru útlendir forleggjarar þegar búnir að taka upp seðlaveski sín þótt bókin sé enn ekki komin úr prentun.

Spurst hefur út að kápa bókar Auðar eigi eftir að vekja töluverða athygli.  Sagan gerist árið 1963 og fjallar um unga konu úr Dölunum sem flytur til Reykjavíkur með nokkur handrit í farteskinu … en það er ekki stemmning fyrir því að konur sé skáld, það er karlasvið. Þetta er átakanleg saga um samfélag sem útilokar margt en sem betur fer hljómar margt af því hjákátlegt í eyrum nútímalesanda. Bókarkápan á Ungfrú Ísland er stæling á alkunnri og mjög fallegri kápu (frægs) höfundar frá þessum tíma (með leyfi hönnuðar, að sjálfsögðu). Enn hvílir leynd yfir kápugerðinni og hefur Bókaskápur Ástu S. falast eftir því við forlagið að fá að verða fyrsti landsmálafjölmiðillinn sem birtir mynd af henni.