Í gærmorgun klukkan 09:00 að staðartíma var tilkynnt, á aðalskrifstofum styrktaraðilans The Man Group, hvaða sex bækur væru tilnefndar til hinna virðulegu Bookerverðlauna. Þetta eru eftirsótt verðlaun og koma 50.000 pund í hlut vinningshafans. Allar bækur sem ritaðar eru á ensku og gefnar út annað hvort í Bandaríkjunum, Kanada, Írlandi eða Englandi eru gjaldgengar til Bookerverðlaunanna. Í þetta sinn eru það þrír rithöfundar frá Englandi, tveir frá Bandaríkjunum og einn frá Kanada sem eru tilnefndir.
Hinar tilnefndu bækur eru:

Höfundur                   –                              Titill

Anna Burns (England)                               Milkman (Faber & Faber)

Esi Edugyan (Kanada)                              Washington Black (Serpent’s Tail)

Daisy Johnson (England)                          Everything Under (Jonathan Cape)

Rachel Kushner (Bandaríkin)                   The Mars Room (Jonathan Cape)

Richard Powers (Bandaríkin)                    The Overstory (William Heinemann)

Robin Robertson (England)                       The Long Take (Picador)

Þegar dómnefndarformaðurinn, Kwame Anthony Appiah, tilkynnti nöfn hinna tilnefndu lét hann þau orð falla að  „… við lifum á myrkum tímum, eða réttara sagt skáldunum okkar finnst að við lifum á myrkum tímum.“ Átti þetta að lýsa því hvað bækurnar sex áttu sameiginlegt.

Meðal þeirra sem tilnefndir eru í ár er hin unga Daisy Johnson. Hún er 27 ára, búsett  í Oxford við ána (Themsen rennur í gegnum borgina) og er hún yngsti rithöfundur sem hefur fengið Booker-tilnefningu. Hún stundaði nám í skapandi skrifum. Í bók hennar Everything Under reynir hún að eigin sögn að „skrifa um konur sem eru mæður og dætur en hafa það ekki gott í þeim hlutverkum.“

tilnefningar
Hin tilnefndu (Efri röð frá  vinstri): Rachel Kushner. Esi Edugyan og Robin Robertson. (Neðri röð frá  vinstri )Anna Burns, Richard Powers og Daisy Johnson.

Meðal annarra tilnefndra er norður-írski rithöfundurinn Anna Burns en bók hennar Milkman er tilraunakennd skáldsaga sem fjallar um átökin á Norður-Írlandi frá sjónarhóli ungrar konu. Hin ameríska Rachel Kushner var tilnefnd fyrir bók sína Mars Room sem fjallar um fólk á jaðri samfélagsins, fordæmds fólks, og átök milli kynja og stétta. Hinn Bandaríkjamaðurinn sem er tilnefndur er Richard Powers og bók hans  The Overstory, og fjallar um níu menn sem reyna að bjarga síðasta hekturum lands sem eru vaxinn skógi.

Frá Kanada kemur Esi Edugyan með bókina Washington Black, sem er saga byggð á sönnum atburðum þar sem aðalpersónan er 11 ára þræll en hann var gerður að einkaþjóni ensks eiganda sykurekru á Barbados.

Síðast en ekki síst er tilnefnd bók skrifuð í bundnu máli eftir skoska skáldið Robin Robertson The Long Take og fjallar um uppgjafahermann sem þjáist af PTSD (post-traumatic stress disorder)

Þann 16, október verður tilkynnt við hátíðlega athöfn í Londons’s Guildhall hver hreppir heiðurinn og verðlaunaféð.