Ég spjallaði í fyrradag við rithöfundinn Sverri Norland og ég segi það bara beint út að ég varð bæði upprifin og kát eftir samtalið. Mér fannst gaman að verða vitni að þessu heilbrigða sakleysi, gleðinni og bjartsýninni sem einkenndi allt sem þessi ungi maður hafði fram að færa. Ljósmyndina af höfundinum tók  Rebecca Genet.
Hér kemur spjallið:

Kæri Sverrir

Ég hef samband við þið fyrir hönd Bókaskáps Ástu S. Skápurinn er að fara aftur í gang, eftir nokkurt hlé, með síðu sem hefur bókmenntir, bókamarkaðinn, bókalíf … að viðfangsefni.

Nú höldum við áfram eftir þetta stutta hlé, a.m.k. næstu 111 daga og hér kemur þú inn í myndina. Okkur langar að vera í sambandi við skáld af yngri kynslóðinni og heyra hvernig þau líta á bókamarkaðinn, bókmenntirnar, rithöfundalífið …

Þetta er í formi einhvers konar samtals. Ertu með á því? Ég læt fyrstu spurninguna flakka, þú segir bara nei ef þú nennir ekki að vera með í þessum samkvæmisleik og ég verð ekkert spæld.

Fyrsta spurning:
Er von á nýju skáldverki eftir þig í haust?

Já, það er von á nýju skáldverki eftir mig í haust – og raunar fimm bókum.

Þannig er að mér finnst orðið tímabært að setjast í helgan stein. Ég er kominn á fertugsaldur og mér finnst ég eiga skilið að hvíla mig aðeins og njóta lífsins. Ég hef verið að skrifa frá því að ég var fimm ára gamall, og því slefar rithöfundaferillinn upp í þrjá áratugi. Það er ágætt. Einnig finnst mér alltof algengt að rithöfundar haldi áfram að skrifa of lengi, löngu eftir að þeir eru kannski teknir að þjást af margvíslegum heftandi kvillum og elliglöpum, og ég vil ekki að það hendi mig. Því ætla ég að leggja pennann á hilluna, setjast í – eða öllu heldur á – helgan stein, kveikja á leslampanum og njóta þess að lesa verk annarra höfunda frekar en mín eigin. Samtímann vantar ekki fleiri rithöfunda – heldur fleiri lesendur.

Þrjár bókanna, sem ég gef út í haust, flokkast undir það sem ég kalla „skáldsögur í hæfilegri lengd“. Þær eru á bilinu 80-150 síður. Sú fyrsta nefnist „Þöglir söngvar“ og er gamansöm morðgáta. Önnur heitir „Fallegasta kynslóðin er alltaf sú sem kemur næst“ og fjallar um hóp af ungu byltingarþenkjandi fólki sem uppgötvar að íslenskar bókmenntir og íslensk tunga eru í lífshættu og ákveða í kjölfarið að bjarga þeim frá bráðum dauða, með katastrófískum afleiðingum. Þriðja skáldsagan nefnist „Manneskjusafnið“ og fjallar um tvo bræður, tvíbura, sem missa ungir foreldra sína, annars vegar í náttúruhamförum, hins vegar í krumlur geðsjúkdóms, og hvernig þeir vinna úr sorginni, sem annar gerir með því að sigra heiminn, hinn með því að sigra listina.

Fjórða bókin, „Einræður á útdauðri tungu“, er ljóðabók, og sú fimmta smásagnasafn, „Heimafólk“. Án þess að það hafi verið ætlunin, eiga sögurnar í þeirri síðarnefndu það oftar en ekki sameiginlegt að lýsa ungu fólki sem er svolítið rótlaust í alþjóðlegum nútímaheimi. Þau eru á flakki án skýrrar stefnu, hvað þá menningarlegs akkeris. Sögurnar gerast hér og þar: Á Íslandi, í New York, í París …

Bækurnar verða seldar saman í einum pakka, fimm stykki á verði sem samsvarar meðalverði einnar nýrrar íslenskrar bókar. Ég veit ekki hvort það felur í sér einhverja ádeilu á íslenskt bókaverð, en það er auðvitað alltof hátt. Í Frakklandi kosta fimm nýjar bækur til dæmis svipað mikið og ein íslensk. Sem er leshvetjandi og bendir til þess að bækur séu vitsmunafóður og lífsnauðsyn, ekki hátt prísuð lúxusvara.

En þetta er reyndar allt saman leyndarmál enn. Það verður tilkynnt um útgáfuna formlega síðar. Þú mátt því ekki segja neinum. Lofarðu því?

Við sjáum svo til með hversu lengi ég sit á hinum helga steini.

Önnur  spurning:
Þakka þér kærlega fyrir gott svar.
Ég er bæði hissa og heilluð. Fimm bækur í einu!
Ég tek eftir að þú telur bókaverð á Íslandi of hátt og í lúxusklassa og eigi þátt í að letja fólk til lesturs. Verð á nýrri skáldsögu er jafn hátt og hálfur tankur af bensíni eða tvær pizzur frá Eldsmiðjunni. Bókaforlög kvarta undan versnandi afkomu og sömuleiðis rithöfundar sem fá greitt í hlutfalli af sölutekjum bóka. Má ég heyra meira um hugsanir þínar um bókaverð og hvað gera má til að örva bókakaup?

Hugurinn í mér virkar þannig að nú þjóta í kollinum af stað tuttugu spretthlauparar frá sama rásmarki en allir í gjörólíkar áttir og áleiðis að mismunandi niðurstöðu. Mér líður, svo að ég grípi til viðlíkingar frá eftirlætishöfundi, dálítið eins og ég sé að reyna að stabílísera tólf bambusprik í lófunum í miðju aftakaveðri. Helst þyrfti ég að aka út í sveit og einangra mig í netlausum kofa í minnst heila viku til að brjóta þetta mál til mergjar og svo líklega skrifa sjöttu bókina til að gefa út nú í haust ásamt hinum fimm, og auk þess halda fyrirlestur í Háskólanum, flytja erindi í Ríkisútvarpið og blaðra konuna mína í svefn fjórtán kvöld í röð. Spurningin – ef þetta var þá spurning – er svo margþætt og flókin. Ég skar mér meira að segja sneið af gulrótarköku til að hafa við höndina á meðan ég svara þess, til þess að róa mig niður ef í óefni stefnir.

En látum á reyna:

Að mínu viti er ekki hægt að líkja bókaútgáfu við nokkra aðra bisnessstarfsemi. Fólk má vera ósammála mér um það. Íslensk tunga er þessa dagana svolítið eins og fárveikur sjúklingur sem liggur banaleguna í niðurdrabbaðri sjúkrastofu, án lyfja og lækninga. Sjúklingurinn fær engar heimsóknir frá vinum og ættingjum og það standa engin blóm á kommóðunni. Til er undralækning sem kannski dugar, en sú kostar formúur. Úti er alltaf hvínandi rok, kolniðamyrkur, snjóskaflar byrgja sýn út um glugga. Hægt væri að ýta sjúklingnum úr niðurdröbbuðu sjúkrastofunni og yfir í aðra betri við enda gangsins, þar sem lyfin eru innan seilingar og það grillir jafnvel í sólskin inn um gluggann í morgunsárið, en ekki virðist vera nógur vilji til þess. Ég held við áttum okkur illa, og vanmetum mjög, hversu hratt tungumálinu getur hnignað og hversu skjótt það mun lognast út af ef þeir sem mæltir eru á tunguna unna henni ekki og sinna. Og það kostar einfaldlega peninga að halda henni við. Íslensk tunga ætti að flokkast til helstu menningarverðmæta heimsins, í flokki með píramídunum. Ég óttast að ein hætta, sem einkum steðji að henni um þessar mundir, sé svokallað – svo ég noti mál samtímans – „brain drain“, eða gáfnaleki. Það verður til dæmis æ erfiðara að fá greitt fyrir skrif á íslensku. Fyrirtæki nota í auknum mæli ensku í starfsemi sinni, bæði innanhúss og utan. Fyrir mig er auðveldara að fá greitt fyrir greinaskrif á ensku, svo ég nefni dæmi, en á íslensku. Þetta hlýst af gjörbreyttum útgáfumarkaði, ásamt alþjóðavæðingunni alræmdu og þar með miðstýrðri neyslu okkar á lesefni. Allt bitnar þetta augljóslega á örtungumáli á borð við íslensku. Ef fagfólki er ekki borgað fyrir að vinna og hugsa á tungumálinu, meitla það og móta, þá hnignar því. Þess vegna þarf að styrkja íslenska bókaútgáfu allsvakalega og niðurgreiða hana, svo að bókaverð megi lækka, sem skilar sér aftur til kaupenda – lesenda. Það ætti að vera ríkinu hagsmunamál að fólk lesi á tungumálinu. Tungumálið er tilvistargrundvöllur- og réttlæting ríkisins, það lím sem heldur þjóðinni saman.

En þá vaknar spurningin: Bera rithöfundar ekki skarðan hlut frá borði ef bókaverð lækkar? Jú, en þess vegna þyrfti að fita launasjóð höfunda og marka honum skýrari stefnu. Eitt dæmi sem mér er skiljanlega hugleikið: Er verið að rækta upp nýja kynslóð af höfundum eða einungis verið að klappa fólki á bakið öðru hverju? Höfundur, sem hefur tök á að skrifa í fullu starfi í nokkur ár, breytist í fagmanneskju. Sá, sem hins vegar duflar við skrif öðru hverju þegar færi gefst, er amatör. Ég skal fórna mér fyrir málstaðinn: Nú hef ég gefið út tvær skáldsögur hjá stærsta forlagi landsins. Fyrst fékk ég ritlaun í þrjá mánuði. Svo fékk ég ritlaun í sex mánuði. Og nú í ár – í þrjá mánuði. Hvaða skilaboð sendir það? Um leið og ég lifi við þessi óstabílu kjör, þarf ég svo helst að leggja tvöfalt harðar að mér, svo ég eigi roð við eldri höfundum (sem fá ritlaun ár eftir ár í lengri tíma), þar sem starfslaunaveitingin tekur mið af ferilskrá höfunda. Þetta handahófskennda verktakafyrirkomulag er mjög svo óheppilegt og ég veit að þeir sem eru reyndari og rótgrónari vilja alls ekki standa nýliðun fyrir þrifum. Ergó: Það er þjóðþrifamál að stækka launasjóðinn allrækilega. Ef við höfum áhuga á að varðveita íslenska þjóð, þá er tungumálið kjölfestan. Og hverjir hlúa einna mest og best að því? Jú, þeir sem skrifa á málinu. Já, þetta finnst mér, kæra Ásta. Mótmæli hverjir þeir sem vilja.

Þú spyrð hvernig örva megi bókakaup. Það er flókin spurning. Texti á bók er einfaldlega ekki jafn miðlægur í menningunni og hann var fyrir tuttugu og fimm árum. Sú staðreynd, að ég get gúglað Shakespeare, kópípeistað alla snilldina inn í skjal, breytt því sem ég vil og snúið öllu á hvolf, jafnvel sett nafnið Sverrir Norland við Hamlet – og það á aðeins nokkrum mínútum, ef ekki sekúndum – breytir verðmætamati á ritaðu máli. Næstum allir af minni kynslóð eru það sem á ensku kallast writer. Við skrifum öll, þó að fæst okkar gefi út bækur. Við skrifum statusa og pikkum myrkanna á milli inn skilaboð til vina, ættingja, bólfélaga, jafnvel bankans okkar. Ég er sjálfsagt ekki dæmigerður fulltrúi minnar kynslóðar, ég á örugglega yfir þúsund bækur og les í eymd minni og örvilnan þrjár til fimm á viku (en yrði gjaldþrota ef ég keypti þær á íslensku verðlagi), en um leið er tilvera mín gegnsósa af þessu nýja umhverfi. Allt er aðgengilegt einn, tveir og núna og oftar en ekki ókeypis eða fáanlegt gegn afar lágu gjaldi. (Markviss regluvæðing Internetsins í þágu kapítalískra risa á borð við Amazon, Netflix, Audible hefur reyndar upp á síðkastið hamlað mjög hinni skemmtilega geggjuðu sjóræningjaþróun sem öllu tröllreið á Internetinu fyrir nokkrum árum.) En eftir stendur engu að síður að yngra fólk er ekki vant því að greiða mikið fyrir tónlist og bíómyndir, nú eða lesefni, sem slafra má í sig í smáskömmtum á netinu. Af hverju ætti maður þá að borga skyndilega 5.590 krónur fyrir nýja bók? Nú er ég einungis að reyna að lýsa vandanum og ná utan um hann, frekar en að tala beint frá eigin brjósti.

Ég bý í New York og þar kostar bensíntankurinn miklu minna en á Íslandi. Auk þess á ég ekki bíl og er því ekki í góðri aðstöðu til að tjá mig um samanburð á verði bensíns og bóka. Í mínum huga er bensínbíll svolítið eins og hestvagn, í því hvað hann ætti að teljast úreltur. Og ég held raunar að samlíkingin missi marks. Hver bensínstankur kostar okkur svo miklu meira en krónur og peninga. Jú, íslenskan og bókmenntirnar okkar eiga undir högg að sækja – en sama gildir um alla plánetuna. Ef fram fer sem horfir, verður jörðin orðið svo gjörbreytt árið 2100 að óvíst er að siðmenning fái hér enn þrifist, að minnsta kosti í þeim skilningi sem við leggjum í orðið. Flestir vísindamenn eru sammála í því að ef styrkur CO2 fer yfir 350 agnir per milljón í andrúmsloftinu, þá sé komið hættuástand. Það eru nokkur ár síðan við fórum yfir 400. Spár herma að árið 2100 verðum við komin upp í 750. Við getum ekki einu sinni gert okkur í hugarlund hvernig ástandið á jörðinni verður við slíkar aðstæður. Mun okkur gefast tóm til að lesa bækur á íslensku? Nei, eflaust munu allir brunnu bensíntankarnir kosta okkur þann munað. Þess vegna er býsna mikil einföldun að tala um bensínverð í krónum eða dollurum. Við greiðum fyrir hvern tank með öllum þeim katastrófísku afleiðingum sem eru nú þegar teknar að hljótast af því þegar við frelsum jarðefnaeldsneyti, hneppum það í gufuhvolfið, hækkum hitastigið á þessari agnarlitlu baun í hinum ógnarstóra alheimsgeimi. Það er kraftaverk að hér þrífist líf, jafnvel vitsmunalíf (og að út séu gefnar bækur – þar af meira að segja stöku ljóðabók). Einn bensíntankur ætti sennilega að kosta á við allar útgefnar bækur Íslandssögunnar.

Hvað pítsur snertir, þá veit ég af fenginni reynslu að það er ekki auðvelt að einbeita sér að lestri góðra bóka ef maður er svangur. Kannski ætti glóðvolg grænmetispítsa að fylgja með hverri keyptri bók?

Þriðja spurning:
Stórkostlegt.
Má skilja þig svo að þú sért þurrausinn rithöfundur og ætlir nú að helga þig baráttunni að bjarga íslenskri tungu? Hvað dregur þig til dæmis áfram til að halda úti Leslistanum

 Ég vildi hálfpartinn óska þess að ég væri þurrausinn. Mér finnst það ekki spennandi hlutskipti að vera rithöfundur.

Einhvern tímann var ég spurður hvaðan ég fengi hugmyndir. Sú sem spurði langaði að skrifa, en hana vantaði hugmyndir. Ég skil ekki hvers vegna nokkurn heilvita mann ætti að langa til að skrifa ef viðkomandi vantar hugmyndir. Það er alveg fáránlegt. Það er eins og að langa til að fara á klósettið en þurfa ekki að pissa. Að skrifa er svipað: maður skrifar einmitt vegna þess að maður hefur hugmyndir. Maður þarf að losa um eitthvað og drífur í því. Svo heldur maður út úr húsi guðslifandi feginn yfir því að geta farið að gera eitthvað annað við tíma sinn. Eða hver vill sitja við skrifborð daginn út og inn og rembast við að finna eitthvað sniðugt að segja? Það er fáránleg leið til að verja lífi sínu.

Leslistinn var upprunalega hugmynd samstarfsfélaga míns, Kára Finnsonar, en svo útfærðum við verkefnið saman. Um er að ræða fréttabréf sem sent er út á hverjum föstudegi, sneisafullt af ábendingum um áhugavert lesefni; greinaskrif á netinu, bækur, stundum hlaðvarp/útvarpsefni. Þetta er eins konar dagbók okkar sem lesenda, en hefur undið upp á sig í kjölfar góðra viðbragða og stórs áskrifendahóps, og nú tökum við til dæmis einnig viðtöl við aðra lesendur/höfunda. Ég hef mjög gaman af því að halda úti Leslistanum, gleðst mikið yfir góðum undirtektum og lít á þetta sem hluta af starfi mínu sem rithöfundur. Mér finnst gaman að hampa verkum annarra og fjalla um þau. Ég er ekki rithöfundur vegna þess að ég líti á mig sem svo merkilega mannveru, heldur vegna þess að ég trúi á bækur, hugmyndir, ímyndunaraflið.

Hér má skoða dæmi um Leslista og hér má skrá sig ókeypis í áskrift. Netsíðan okkar er leslistinn.com og hér má skoða ráðuneyti Leslistans.

Mér finnst mikil vöntun á íslenskri umfjöllun um bækur. Leslistanum er ætlað að fylla örlítið upp í það skarð. Eins þarf að leita nýrra leiða í útgáfustarfi og fréttabréfinu, sem formi, hefur vaxið fiskur um hrygg undanfarin misseri. Styrkur þess er að það má sérsníða að vissum hópi og eins er kostur að hvert fréttabréf hefur útgáfudag, svo að ekki er hægt að krukka neitt í textann eftir að bréfið hefur verið sent út. Textinn er endanlegur líkt og gildir um bók (en ekki hið fljótandi umhverfi netsíðna). Ég er með ýmsar hugmyndir í tengslum við þróun Leslistans. Gaman væri að halda úti framhaldssögu – og þá jafnvel í hlaðvarpsformi. Nýtt innslag í hverri viku. Vinir mínir, sem starfa í útgáfubransanum í New York, kvarta stundum yfir því hvað yfirmenn þeirra séu gamaldags, miklar risaeðlur. Að vissu fagna ég þrjósku risaeðlanna, en maður verður líka að tilheyra samtíma sínum. (Og eins verður samtíminn að tilheyra fortíðinni – það vill stundum gleymast.)

Það er ekki mitt að bjarga íslenskunni, ekki frekar en plánetunni. Mér finnst of gaman að vera til að helga mig 100% jafn slítandi verkefnum og það er svo margt sem annað sem þarf að gera: ferðast, læra að sá fræjum í akur, spila á gítarinn sinn, ala upp börnin sín, kynnast nýju fólki, elda góðar máltíðir. Íslenskan (ekki plánetan) dafnar svo sem ágætlega og er mikið notuð, en við þurfum að vera á varðbergi. Ógnirnar eru alltumlykjandi. Það er fullt af kláru fólki að skrifa á íslensku – líka upprennandi höfundum – en fólk þarf líka að lesa bækurnar þeirra. Gamla lumman er sönn: Góðir höfundar verða ekki til án góðra lesenda. Okkur vantar fleiri góða lesendur.

Hér væri hægt að drepa aftur á það sem við ræddum fyrr – hvernig örvum við bóklestur? Jú, með því að gera bækur miðlægari í menningunni og hampa rithöfundum. Styðja þá, styrkja, flagga verkum þeirra. Fá þá í spjallþætti í bland við „áhrifavalda“, poppstjörnur, rappara, stjórnmálamenn. Rithöfundar hafa reyndar oft heilmikið að segja (vegna þess að þeir eru líka lesendur). Og bannað að gera málamiðlanir: Mín dýrategund er lesendur. Ef ég hafnaði heima hjá stúlku í húmi nætur, þegar ég lifði kaótískara lífi, og uppgötvaði að í íbúðinni hennar voru engar bækur – þá flúði ég út um gluggann. Ég hef flúið út um tugi glugga vítt og breitt um Evrópu og Bandaríkin. Engar málamiðlanir.

Ég tek svo fram að ég áskil mér þann rétt að vera mótsagnakenndur. Í dag segi ég þetta; á morgun hið gagnstæða. Eftir mánuð sit ég á helgum steini; viku síðar klýf ég upp á fjallstind eða sting mér til sunds af klettasnös. Það er það skemmtilega við að vera lesandi.

Nú kemur síðasta spurningin.
Hvað tekur við hjá þér? Við hvað ætlarðu að vinna nú þegar þú ert ekki lengur rithöfundur?
Satt að segja er ég ekki viss um að ég hafi nokkurn tímann verið rithöfundur. Það er eitt að skrifa, allt annað „að vera rithöfundur“. Ég gæti nefnt fjölmörg dæmi um rithöfunda sem virðast sáralítið skrifa. Ég skrifa, en hvað er ég? Hafsins þungi brimgnýr, suð í snjallsíma, barn sem muldrar sín fyrstu orð.

Ég óttast að ég sé með of margar hugmyndir að nýjum bókum til að þær láti mig alveg í friði. Ég óttast að þær muni brjóta sér leið inn í minn helga stein á næturþeli og ásækja mig, hrekja mig fram úr rúminu, henda í mig skriffærum. „Komdu þér að verki, letinginn þinn!“ Bók í vinnslu er eins og hræðilegt skrímsli sem situr um mann við hvert fótmál. Það er þreytandi að ferðast um veröldina með sautján skrímsli í eftirdragi. Ég ætla að gera mitt besta til að hrekja skrímslin frá mér, en það versta er að í sumum tilvikum blasir ekki við nokkur leið til að yfirbuga skrímslin nema skrifa bókina. Og mér þykir raunar vænt um skrímslin mín.

Annað sem við tekur? Þýðingar, textavinna. Uppistand, gítarleikur. Fyrst og fremst þó: Samvinna með jörðinni. Ég verð í Mexíkó yfir jólin og kannski dvelst mér þar. Á Íslandi líklega með lóunni – og síðan í Japan að hjálpa vini að gróðursetja lífrænar næpur og annað grænmeti. Við þurfum að sjá heiminn áður en hann hverfur alveg inn í lófann á okkur. Hver veit svo hvað sumarið næsta ber í skauti sér? Gjálfrandi öldur í fjöruborðinu, ný ljóð og íbúð á fimmtu hæð með útsýni yfir skipaskurð, þrítyngda dóttur og einhvern fiðring, meira frelsi, löngun til að syngja. Næsta haust hef ég svo að líkindum framhaldsnám í umhverfisfræðum. Áralangur áhugi á því sviði egndi mér í klærnar á prófessorum við tvo virta háskóla og ég komst, merkilegt nokk, inn í báða og valdi þann sem er í París. Í París situr fólk á kaffihúsum og talar saman með raddböndunum – og reykir enn sígarettur, sem er hressandi. Það er skrítið að halda aftur í nám, en ég hef svo sem aldrei lokið (og mun aldrei ljúka) námi. Það koma fleiri kaffibollar, ótal vínglös, einnig göngutúrar og sólskin sem brýst í gegnum trjátoppana, ilmur af nýbökuðu brauði. Í gær samdi ég sonnettu á göngu meðfram Hudson og skoðaði brúnsteinshús sem kostaði 6,5 milljónir dollara. Ég held að ég geti fullyrt að ég muni ekki búa þar í nánustu framtíð.

Svo hef ég lengi verið með þá hugmynd í kollinum að gefa út barnabækur á Íslandi. Þú segir engum frá því, Ásta, því einnig þetta er leyndarmál. Helst þýðingar – það eru til svo margar fallegar og góðar barnabækur í Frakklandi og Bandaríkjunum, svo að dæmi séu tekin. Gott fólk hefur lýst yfir samstarfsvilja. Ég veit að margir finna fyrir skorti á góðu og heillandi lesefni handa yngstu vitsmunaverum íslensku þjóðarinnar. Kannski Lilja ráðherra vilji leggja hönd á plóg?

Það er klisja, en krakkarnir eru jú framtíð málsins. Krakkarnir bjarga heiminum. Fyrir ekki svo ýkja löngu sótti ég málþing í Skandínavíusetrinu hér í New York. Málþingið bar yfirskriftina „The Future of the Icelandic Language“, en þegar ég mætti í Skandinavíusetrið var búið að breyta heitinu í „The Day of the Icelandic Language“. Mér þótti það svolítið fyndið. Kannski vildu menn skyndilega virka raunsæir? Þetta var stórfurðuleg samkoma. Ýmsum mektarbokkum hafði verið flogið til borgarinnar; forsetinn hélt tölu; konan hans snjalla tók þátt í pallborðsumræðum; enskumælandi höfundar töluðu um Ísland á sömu nótum og ég masa um Frakkland (þ.e. á óraunsæjan, draumkenndan hátt); virtum íslenskuprófessor varð tíðrætt um snúrur og skjái og mikilvægi þess að geta átt í samtali við ísskápinn sinn. Sá góði maður virtist ekki gera greinarmun á ungmennum og snjallsímum; á málþinginu heyrði ég því oft fleygt að unglingar, einkum drengir, spiluðu tölvuleiki myrkranna á milli og brygðu stundum fyrir sig ensku. Það gerði ég einmitt fram eftir unglingsárunum, spilaði tölvuleiki lon og don og hef ekki beðið þess bætur síðan; og fyrir hálftíma síðan pantaði ég mér einmitt samloku á ensku. Allir á málþinginu höfðu margt til síns máls og voru eitursnjallir en ég hjó eftir einu: að engum undir miðjum aldri hafði verið boðið að taka þátt í umræðunum eða flytja erindi – eins og yngra fólk ætti ekki erindi við framtíðina. Framtíðinni var sem sagt ekki boðið að taka þátt í málþingi um framtíðina. Það þótti mér áhugavert. En svoleiðis er það kannski oft? Ég vil í hið minnsta gera það að mínu erindi: færa fortíðina inn í framtíðina og framtíðina inn í fortíðina.

Takk fyrir spjallið!