„.. And Then There Were Three…“ er titillinn á níundu breiðskífu bresku rokkhljómsveitarinnar Genesis frá árinu 1978, sem var þá að breytast úr 4-5 manna bandi í tríó. Hann er nú tekinn til handargagns þegar þeir eru orðnir þrír, höfundarnir fjórir sem tilnefndir voru til verðlauna „nýju akademíunnar“ sem drepið var á í pistli um Haruki Murakami hér í bókaskápnum fyrir tveimur dögum. Þá var látið hjá líða að gera  grein fyrir höfundunum sem enn eru í pottinum.

Fyrsta ber að nefna aldursforsetann, Maryse Condé (f. 1937) sem kemur frá karabíska eyjaklasanum Guadeloupe. Hún starfaði um langa hríð sem kennari í frönskum bókmenntum við Columbia-háskólann í New York í Bandaríkjunum en býr nú á níræðisaldri ýmist á heimaslóðum eða í Frakklandi. Condé er þekktust fyrir sögulegar skáldsögur sínar en í þeim stóra hópi er Moi, Tituba, Sorciere…Noire de Salem sem fjallar um hatrammar galdraofsóknir í smábænum Salem í Massachusetts í lok 17. aldar. Aðalasöguhetja bókarinnar, hin svarta Tituba, sætir þessum ofsóknum og hittir meðal annarra fórnarlamba þeirra Hester Prynne, kvenhetjuna í skáldsögu Nathaniel Hawthorne The Scarlet Letter.

Næst skal upp telja Neil Gaiman (f. 1960), hinn fjölhæfa breska rithöfund sem sent hefur frá sér ótal smásögur, skáldsögur, myndasögur, leikverk og kvikmyndahandrit á liðnum áratugum. Hann er þekktastur fyrir teiknimyndasöguna The Sandman sem hóf göngu sína 1989 en einnig má nefna skáldsöguna American Gods sem gerist að hluta til hér á Íslandi. Tvær bækur eftir Gaiman hafa verið þýddar á íslensku, Coraline/Kóralína eftir sem gefin var út fyrir fjórtán árum í þýðingu Margrétar Tryggvadóttur og skapandi endursögn hans á norrænum goðsögum sem Benedikt gaf út á liðnu ári (ári fyrr hafði forlagið sent frá sér bók Murakami um hlaup).

Síðust en ekki síst á hinum þriggja höfunda lokalista nýju akademíunnar er annar frönskumælandi höfundur, Kim Thúy (f. 1968). Hún fæddist í Víetnam en flúði tíu ára gömul heimaland sitt og ólst upp í Kanada. Thúy er einkum þekkt fyrir skáldsögur sínar þrjár – sú fyrsta þeirra, hin margverðlaunaða Ru, kom út árið 2010 – sem lýsa meðal annars hlutskipti flóttfólks og innflytjenda sem eru ekki aðeins í leit að nýjum samastað heldur einnig að púsla saman eigin sjálfsmynd.

Það kemur í ljós 12. október næstkomandi hvert þeirra þriggja hlýtur verðlaun nýju akademíunnar.  Verðlaunin verða síðan afhent 9. desember.