Fornbókabúðir hafa tilhneigingu til að velja sér notalegan stað. Ég man ævinlega þau bernskuár mín þegar ég þeysti á hjólinu mínu úr Vesturbænum niður í miðbæinn að líta inn í fornbókabúðirnar mínar. Þetta voru sirkabát árin 1969 til 1972. Þá var ég ungur og lék mér að bókum. Þau ár eru sem betur fer ekki liðin og koma alltaf aftur, þó ég þeysi ekki lengur ungur um á reiðhjóli.

Fyrst var það Laufásvegurinn. Hjólinu lagt við vegg og gengið inn. Ys og þys borgarinnar hljóðnaði umsvifalaust. Veggir þaktir bókum mættu mér og þessi yndislegi ilmur bókanna. Þögn og kaffilmur að auki. Tímaleysi. Móðir mín gaf mér ævinlega einhvern smápening,… já já, eftir talsvert suð og sannfæringartón…, ef ég kynni nú að finna eitthvað bitastætt.

Ég var sem sagt að safna mínum uppáhaldsbókum. Ég vildi eiga þær og geta gripið til þeirra hvenær sem mig langaði til. Bókasafnsferðirnar mínar voru ekki nóg. Bara alls ekki nóg þó ég færi tvisvar í viku með fimm bækur í poka fram og aftur. Þeim var sem sagt alltaf skilað en áttu ekki samastað hjá mér. Ég vildi eignast þær og setja í mína eigin bókahillu.

Af Laufásveginum hjólaði ég til þeirrar gömlu og góðu í kjallaranum á Bergstaðastrætinu. Síðan í þessar tvær á Hverfisgötunni, þar sem Grái kötturinn er nú og hin þar sem skoskur bar ræður nú ríkjum. Loks til Snæa og félaga á Laugaveginum andspænis Skólavörðustíg. Fleiri voru til, en ekki inni í minni nánast fastmótuðu hjólaferð, þó ég liti þangað af og til í örvæntingarfullri leit að bók sem ég varð bara að eignast og lesa. Strax.

Fyrsta spurningin mín þarna í blábyrjun, 9 ára gamall, var „Áttu nokkuð Ævintýraeyjuna eða einhverjar Ævintýrabækur?“ Innan nokkurra mánaða hafði ég svo fangað allt Ævintýrabókasafnið hennar Enid Blyton. Svo voru það Fimm bækurnar, Tarsan og Bob Moran, svo eitthvað sé nefnt. En þær bækur sem erfiðast var að koma höndum yfir voru Prins Valiant bækurnar. Þvílík snilld í myndum og texta sem mér þóttu þær. Glaðari dag hef ég sjaldan litið en þegar ég, 11 ára, keypti Prins Valiant bók númer eitt í þeirri bókaröð. Jafn fágæt að mínu mati þá og forn útgáfa Njálssögu.

Fornbókabúðirnar voru risavaxin veröld mín þessi ár, fyrir utan skólann og íþróttirnar allar sem ég stundaði. Eftir að hafa fangað innbundinn dýrgrip var brunað heim og sest í stól í stofunni með mjólkurglas og kex. Og lesið og lesið allt upp til agna. Svo þegar ég varð aðeins eldri hugraði mig og þyrsti í Sherlock Holmes og Agötu Christie og Alistair Maclean og Hammond Innes ekki hvað síst Sven Hassel. Þeysti á hjólininu inn í tímaleysið og fangaði Dal dauðans, Opnu gröfina, Neyðarkall frá norðurskauti og vitaskuld Dauðann á skriðbeltum og Hersveit hinna fordæmdu og allt hið óendanlega hitt.

Og á menntaskólaárunum gómaði ég í undraveröld fornbókabúðanna minna, Útlendinginn, Fallið og Pláguna eftir Camus; Og sólin rís eftir Hemingway; Meistarann og Margarítu eftir Búlgakov; Litla prinsinn (það var mjög mjög djúpt á henni) eftir Saint-Exupery; Tonio Kröger eftir Thomas Mann og svo mætti lengi lengi telja.

Þessar hugleiðingar mínar um fornbókabúðir kviknuðu við lestur á grein sem birtist í Bókaskáp Ástu 3. apríl 2018 og heitir „Bækur sem þú þarft ekki á að halda, á stað sem þú getur ekki fundið„. Þarna var á ferðinni fornbókabúð sem hafði einmitt fundið sér afar notalegan stað. Og augljóslega verulega úr alfaraleið. En „til góðs vinar liggja gagnvegir, hversu firr sem hann er farinn“ eins og það var einhvernveginn, að mig minnir, orðað í Hávamálum.

En sem sagt. Í haust er leið var ég staddur á Santorini. Þeirri ágætu grísku eyju. Þvældist þar á göngugötum í stærsta bænum, Oia, innan um hvíkölkuð hús byggð á snarbröttum klettum, þar sem hinn sjávarfyllti forni gígur blasir við eftir eitt mesta sprengigos á sögulegum tíma, um 1620 fyrir Krists burð.
Þá rek ég augun í skilti sem á stendur Atlantis Books. Ég staldra við og fæ ekki betur séð en þarna sé fornbókaverslun sem hefur hreiðrað um sig á vægast sagt óvæntum og notalegum stað. Ég ákveð að stíga niður fáein þrep og innfyrir.

Og umsvifalaust var ég orðinn 10 ára á ný. Nánast sömu hillurnar svignuðu þar undan bókum út um allt. Ysinn og þysinn hvarf eins og hendi væri veifað. Undursamleiki og tímaleysi fornbókabúðar luktist um mig. Þvílíkt góss! Frumútgáfur sem maður mátti handleika og þúsundir rita bókstaflega út um allt í hólfum og gólfum og borðum og hillum.

Í ljós kom svo að þessi bókabúð er um 14 ára gömul. Upprunalega hugmynd tveggja Englendinga sem komu til Santorini árið 2002. Þeir voru sem sagt í sumarfríi og einn daginn langað þá til að finna bókabúð og skemmtilega lesningu. Sem var síðan bara einfaldlega ekki möguleiki á að finna þarna á sprengjugoss- og ferðalangaeyjuni fögru. Svo þeir hugsuðu: „Hvers vegna ekki?“. Fóru heim til Englands og viðruðu hugmynd við vini sina um að stofna fornbókaverslun á Santorini. Einhverjir einn eða tveir ákváðu að slá til. Úr varð lítil búð á öðrum stað í Oia en Atlantis Books er nú. Sú opnaði 2004.

Það veit sá sem allt veit að fornbókabúðir mega aldrei hverfa. Dýrgripir þeir sem þær eru. Heiðrandi um sig á ólíklegustu stöðum. Eins og kettir. Bara þar sem þeim líður best og vitandi að inn til þeirra koma ævinlega allir þeir sem þeirra þarfnast og njóta.

Jón Egill Bergþórsson