Í dag og næstu föstudaga birtist nýr, eða nýr frá því síðasta föstudegi,  flokkur í Bókaskápnum; Bækurnar í lífi mínu. Nú fá ekki eingöngu rithöfunda að spreyta sig á þessum samkvæmisleik heldur mun  Bókaskápurinn hafa samband við fólk víðsvegar um heiminn sem hefur á einhvern hátt vakið athygli fyrir gott starf í þágu bókmenntanna.

Annar gestur Bókaskápsins í samkvæmisleiknum Bækurnar í lífi mínu  (sá fyrsti var Hermann Stefánsson) er forleggjarinn Guðrún Vilmundardóttir; eigandi og stofnandi bókaforlagsins Benedikts. Guðrún er einn þeirra Íslendinga sem fá þann sess hjá Bókaskápnum að teljast fulltrúar betra bókmenntalífs á Íslandi. Allt frá því hún hóf störf á Bjarti, eða jafnvel þegar hún, sem ung stúlka hóf störf á Alþýðublaðinu, hefur henni tekist að varpa ljóma yfir bækur og þær bókmenntir sem hún kemur nálægt.
fh. ritstjórnar Bókaskápsins
Ásta S. Guðbjartsdóttir.

1. Hvaða bók ertu að lesa þessa dagana? 
Nú les ég bráðskemmtilega bók sem greip auga mitt í Eymundsson um daginn. Hún heitir The Idiot og er eftir unga ameríska konu af tyrkneskum ættum, Elif Batuman. Hún var tilnefnd til Pulitzer-verðlaunanna, en það hafði farið framhjá mér, og núna í vikunni til amerísku Fjöruverðlaunanna. Sagan segir af ungri stúlku sem er við nám í Harvard. Lýsingarnar á skólalífinu eru skemmtilegar, hún verður ástfangin (en er kannski ekki alveg til í að viðurkenna það) af strák sem hún sækir tíma með og samskipti þeirra eru dásamleg. Hann er Ungverji og fer heim í sumarfrí og hans vegna ræðst hún sem enskukennari í sveitaþorp í Ungverjalandi um sumarið. Lýsingarnar á samskiptum við fólk þar eru óborganlegar. Þetta er læsilegt, skemmtilegt og stórfróðlegt. Nú veit ég til dæmis að í tyrknesku er til sérstakur háttur sagna, sem maður notar ef maður er að segja sögu sem maður varð ekki vitni að sjálfur. Það finnst mér merkilegt.  

2. Hvaða bók breytti lífi þínu?
Ástin á tímum kólerunnar eftir Marquez í þýðingu Guðbergs Bergssonar er ein sterkasta lestrarupplifun sem ég man eftir. Ég hafði lesið Hundrað ára einsemd og verið hrifin, byrjað á þessari en ekki komist inn, reyndi oftar en einu sinni. Svo lá ég sárlasin heima, þetta var á námsárunum í París fyrir (rúmum) 20 árum, alein með sótthita á lélegum bedda og það var ískalt í íbúðinni. Þessi bók var til í skápnum og ég ákvað að reyna einu sinni enn. Flaug inn í bókina og man enn eftir flugeldasýningunni, litunum, bragðinu – svo leið ástsjúku söguhetjunni einsog hann væri með sótthita af ást og ég skildi hann eitthvað svo fullkomlega, og upplifði allt svo sterkt þarna í flensunni.
       Lestrarupplifun á pari við þessa var þegar ég las Daga höfnunar eftir Elenu Ferrante fyrir nokkrum árum. Og var ég þá fullfrísk. Það er einhvern veginn þessi ofsi, hiti, að fara með mann fram á tilfinningalega bjargbrún án þess að ofgera eða sleppa manni fram af.

3. Hver er uppáhaldshöfundurinn þinn?
Höfundar Benedikts, bókaútgáfunnar sem ég stýri. Þetta er svo erfið spurning, að ég verð að snúa út úr henni. Þetta var fyrsta svar og nú kemur annað: Ef ég verð hrifin af höfundi, sem hefur skrifað margar bækur sem ég hef ekki lesið, fæ ég mér þær gjarna allar (eða sem flestar) og gleypi í mig. Það er náttúrlega á vissan hátt óréttlátt gagnvart höfundi. Að gleypa í sig 10-20 ára starf á 2 vikum! Þeir sem hafa komið best út úr slíkum hamagangi eru J.M. Coetzee og Kate Atkinson. (Paul Auster og Milan Kundera síður, þó ég hafi náð ákveðinni sátt við þá, sem lesandi, er tímar liðu).

4. Hvaða bók dreymir þig um að hafa skrifað? 
Ég er stundum spurð hvort ég ætli að láta útgáfustarfið nægja en ekki skrifa neitt sjálf. Mér finnst þetta frekar furðuleg spurning, af því að þetta eru mjög ólíkir hlutir. En: Ég hef þýtt bækur og mér finnst gaman að skrifa. Og satt best að segja hef ég tvisvar sinnum fengið fiðringinn, hugsað með mér hvort ég ætti að reyna að skrifa bók. Það gæti verið lærdómsríkt. Ég myndi skilja höfunda betur.
     Nú. Í bæði skiptin hefur heimurinn fært mér bækurnar sem mig dreymdi um að skrifa – og tekið af mér ómakið. Sú fyrri var A Visit from the Goon Squad eftir Jennifer Egan (Nútíminn er trunta í þýðingu Arnars Matthíassonar). Sú seinni var The Goldfinch eftir Donnu Tartt. Átta hundrað síðna gersemi. Hún teiknar upp ótrúlega sterkan og lifandi heim sem manni finnst maður hreinlega getað þreifað á. Mér finnst einsog ég þekki sögupersónurnar. Ég var í New York í síðustu viku og svipaðist um eftir þeim.
       Þessar skáldsögur fanga hluti sem ég átti eftir að lesa um, þegar þær rak á fjörur mínar.

5. Hvaða bók fékk þig síðast til að fella tár? 
Ég felli mjög auðveldlega tár þegar ég les og finnst það gera sálinni gagn. Ég tárfelli yfir próförkum, þó ég sé að lesa í þriðja, fjórða eða fimmta sinn, ef kaflarnir eru fallegir. Gott stöff bara nær mér. Fegurðin, snerpan. Svo það er kannski ekki í frásögur færandi að ég snökti yfir bók. En minnisstætt núna er þegar ég var á bókamessunni í London í fyrra, þar sem ég festi kaup á The Secret Lives of Cows sem kemur út á næstu dögum undir titlinum Lífsspeki kúa. Ég var að lesa handritið á símanum mínum í neðanjarðarlestinni þegar ég kom að kaflanum um kúna sem bíður eftir rauða bílnum (enginn „spoiler“ hér). Þá fór ég bara að skæla. – Ég er hrædd um að fólkið í kringum mig í lestinni hafi haldið að meira bjátaði á í mínu lífi en raun var á.

6. Síðasta bók sem þér tókst ekki að klára?
Ég er til í nokkrar atlögur, einsog ég þurfti að leggja í með Kóleruna, og sé ekki eftir því. Ef ég hef verið hrifin af bók höfundar áður, eða einhver sem ég treysti veitir meðmæli, er ég alltaf til í að trúa að það sé athyglisbrestur minn, en ekki bókin, sem sé vandamálið. Enda oft raunin. En. Stundum. Á maður bara ekki samleið með bók. Ég byrja á mjög mörgum bókum sem ég klára ekki og er alveg hætt að skammast mín fyrir það.
      Og: Þarf maður alltaf að eiga bækur sínar?
      Nei. Ég ákvað að verða ekki bókasafnari, einsog ég umgengst bækur mikið. Oft á ég ekki einu sinni eftirlætisbækurnar mínar því ég gef þær frá mér, yfirleitt eftir skemmtilegar samræður í stofunni heima. Það er góður endir á skemmtilegu kvöldi að leysa fólk út með bók. En ég man gjarna hverjum ég hef gefið mínar uppáhaldsbækur og finnst gott að vita af þeim í góðum höndum. Mér finnst dásamlegt að vera umkringd nýjum bókum, en ég þarf ekki að eiga þær allar alla tíð.

7. Hvaða bók gefurðu oftast?
Ég gef yfirleitt nýjar bækur, sem eiga hug minn þá stundina, svo ég á engan uppáhalds gjafastandard. Einu sinni kom sami maður gjarna á forlagsskrifstofuna og keypti Slepptu mér aldrei eftir Ishiguro, það var hans eftirlætis tækifærisgjöf til góðra vina. Svo einn daginn kom kona að leita að gjöf fyrir vin sinn. Upp úr dúrnum kom að þetta var vinurinn sem um ræddi – svo ég ráðlagði henni umsvifalaust að gefa honum þessa eftirlætisbók (og aðra til vara). 

8. Hvaða barnabók vekur bestar minningar?
Sem krakki las ég bækur gjarna „í hringi,” las fyrsta kaflann aftur þegar bókinni lauk, til að þurfa ekki að leggja hana frá mér. Guðrún Helgadóttir og Astrid Lindgren, samlede værker. Ármann Kr. Einarsson, Himnaríki fauk ekki um koll. Alls kyns ævintýrasöfn sem maður átti. Sálmurinn um blómið og Salka Valka voru fyrstu fullorðinsbækurnar sem ég las, amma valdi þær handa mér sumarið sem ég lá í mánuð inni í hlaupabólu, og mér fannst þær bara þokkalega vel heppnaðar þó það væru ansi mörg orð höfð um sumt. Það var gaman að lesa þær aftur síðar, frá öðru sjónarhorni.
     Svo voru Andrésblöðin náttúrlega sérstakur lúxus. Þau voru á dönsku svo ég þurfti manninn með mér, til að þýða, og það voru miklar gæðastundir. Andrésblað, hugvitssamur þýðandi og grænn frostpinni er kannski það næsta sem maður kemst fullkominni sælu.