Bókmenntamoli dagsins fjallar um Stieg Larsson. Allt í einu leitaði hugur minn til hins látna, sænska höfundar. Stieg lést af hjartaáfalli nýorðinn fimmtíu ára gamall árið 2004. Einhvern veginn hef ég á tilfinningunni að hann hafi hnigið niður á tröppum forlagsins síns, Norstedts í Stokkhólmi, á leið í kaffi hjá forleggjaranum, Svante Weyler.

Ári eftir að Stieg Larsson lést kom út fyrsta bókin í Millennium-seríunni, Karlar sem hata konur. Og þar með hófst löng og mikil sigurganga norrænna glæpasagna í Evrópu og Bandaríkjunum sem er fyrst núna, rúmum tíu árum seinna, í rénun. Að vísu fékk þessi fyrsta bók Stiegs Larsson í Millennium-seríunni alveg herfilega dóma í The New York Times útgáfuárið 2008. „Það er skelfilega ljót sýn á mannlega náttúru sem bókin Karlar sem hata konur býður upp á. Auk þess er sagan hundleiðinleg, langdregin og borin uppi af slöppum tölvupóstsamskiptum höfuðpersónanna.“

Ekki hefði ég keypt bók sem gagnrýnandi The New York Times lýsir á svo svakalegan hátt. En þrátt fyrir þessa hraksmánarlegu dóma varð bókin mikil metsölubók í Bandaríkjunum og sat á metsölulista The New York Times vikum og mánuðum saman. Bækur Stiegs voru fyrstu bækurnar til að seljast í meira en milljón eintökum í Kindle-útgáfu á Amazon.

Þegar Stieg Larsson dó hafði hann þegar afhent handrit að þremur bókum í Millennium-seríunni til sænska Norstedts-forlagsins. Fjórða bókin var sennilega í smíðum og enn er deilt um hver eigi rétt á því handritsbroti; fyrrum sambýliskona Stiegs, Eva Gabrielsson eða faðir hans og bróðir (sem lögum samkvæmt eru erfingjar Stiegs). Ekki er vitað hvort handritið að fjórðu bókinni sé yfirleitt til. Sögusagnir herma að Eva hafi það undir höndum og geymi það á góðum felustað, langt frá fingrum hinna lögmætu erfingja.

En svo var fitjað upp á nýrri fléttu. Allt í einu fékk umboðsmaður erfingjanna hugmynd, sem erfingjarnir voru stóránægðir með. Bækurnar í Millennium-seríunni hafa selst í 82 milljónum eintaka og eru sannkallaður gullkrani fyrir alla sem koma nálægt útgáfunni: umboðsmanninn, erfingjana og forlagið. Af hverju ekki bara að skrifa meira í anda Stiegs Larsson, nota persónur og sögusvið og halda áfram með Millennium-seríuna? Haft var samband við David Lagercrantz, sem hafði unnið sér til frægðar að skrifa rómaða ævisögu knattspyrnukappans Zlatan Ibrahimović  og semja við hann um að skrifa nokkrar nýjar Millennium-bækur; skrifa sig inn í höfundarverk Stiegs Larssons og þannig væri ekki þörf fyrir þau brot af fjórðu bókinni sem kannski voru til og kannski ekki.

Fyrsta bókin í Millennium-seríunni af hendi Davids Lagercrantz kom út haustið 2015 (við hávær mótmæli vina og fyrrum sambýliskonu Stiegs Larsson, sem kölluðu útgáfuna „grafarrán“ eða „grófa misnotkun á velgengni Stiegs Larsson“). Bókin fékk titilinn Það sem ekki drepur mann. Móttökur gagnrýnenda í heimalandinu voru hálfvolgar en í útlöndum gekk salan glimrandi vel. Sagan hefur selst í yfir 6 milljónum eintaka á heimsvísu. Næsta bók Davids í Millennium-seríunni  kom út haustið 2017 og fékk íslenska heitið Stúlkan sem gat ekki fyrirgefið.

Nú hefur David Lagercrantz stigið fram, að þessu sinni í viðtali við sænskt dagblað, og segir að hann skrifi þessa dagana sína síðustu Millennium-bók og sé hún væntanleg árið 2019 eða 2020. Hann sé búinn að fá nóg af því að vera draugapenni. Hér eftir skrifi hann ekki með látinn mann kíkjandi yfir öxlina á sér.