Í dag hefst nýr kafli í lífi Bókaskápsins. Síðustu níu vikur hefur ritstjórn fengið  rithöfunda til að skrifa um einn dag við skriftir. Á föstudögum hafa rithöfundar haft orðið hér í Bókaskápnum og fjallað um gleðina og þjáninguna við að sitja á rassinum daginn langan fyrir framan tölvu og reyna að skrifa eitthvað skemmtilegt, áhugavert og  áhrifaríkt. Þau Bergur Ebbi, Auður Jónsdóttir, Jón Kalman Stefánsson, Hrafnhildur Þórhallsdóttir, Bergljót Snæbjörnsdóttir, Fríða Ísberg, Friðgeir Einarsson, Jónas Reynir Gunnarsson og Hallgrímur Helgason hafa skrifað undir flokknum Dagur við skriftir. Bókaskápurinn þakkar rithöfundunum fyrir framlag sitt sem hefur reynst sérlega vinsælt hér á vefsíðunni.

Í dag og næstu föstudaga birtist nýr flokkur í Bókaskápnum; Bækurnar í lífi mínu. Nú fá ekki eingöngu rithöfunda að spreyta sig á þessum samkvæmisleik heldur mun  Bókaskápurinn hafa samband við fólk víðsvegar um heiminn sem hefur á einhvern hátt vakið athygli á sjálfu sér fyrir gott starf í þágu bókmenntanna.

Fyrsti gestur Bókaskáparins sem tekur þátt í nýja samkvæmisleiknum er Hermann Stefánsson. Það vill svo til að Hermann er rithöfundur og þýðandi og hefur einnig ekki síður merkilegt verkefni með höndum: hann er verktaki fyrir hið háa Alþingi sem þjónn lýðræðisins. Hermann hefur verið virkur í bókmenntalífi landsmanna í mörg ár. Hann hefur ekki bara skrifað frumsamdar skáldsögur og smásögur, þýtt framúrskarandi bókmenntir, heldur er hann einn áhugaverðasti og skarpasti þátttakandi í almennri bókmenntaumræðu í landinu.
fh. ritstjórnar Bókaskápsins
Ásta S. Guðbjartsdóttir.

Hvaða bók ertu að lesa þessa dagana?
Ég er að lesa ansi margar bækur í einu, ég geri það. Ég er með smásagnasafn eftir Etkar Keret, við hliðina á rúminu liggja líka tvær nýjar þýðingar sem ég er byrjaður á og Walden sem ég er búinn með og svo er ég með tvær bækur sem ég segi ekki frá því efnið er leyndarmál; úti í glugganum eru allar bækur Jack London á íslensku í einni röð, ansi margar. Ég keypti þær í kristniboðabúðinni í Austurbæ á 1500 krónur alls. Ég passa mig að gúggla ekki höfundinn, lesa mér ekki til um hann, það er gaman að lesa höfunda sem maður veit ekkert um (sem er orðið svolítið erfitt í dag). Ég er búinn með tvær. London er kannski ekkert síðri höfundur en t.d. Joseph Conrad sem meira er hampað í dag og ég veit að London var gríðarlega vinsæll. Þetta eru bækur um könnun heimsins eða eitthvað slíkt, realískar ævintýrabækur. Ég las bara eina bók eftir Jack London sem barn, hún hafði að söguhetju mann sem endurfæddist sem einhver annar á milli kafla og spannaði þannig margar aldir. Ég býst við að sú bók sé í bunkanum. Síðast en ekki síst er ég að lesa bók sem heitir Steinar, sendiboði keisarans, með syni mínum. Þá bók las ég sem barn og ég man hana furðu vel. Svo vel að ég er jafnvel að hugsa um að flytja hana héðan og yfir í næstu spurningu.

Hvaða bók breytti lífi þínu?
Steinar, sendiboði keisarans, er eftir einhvern Harry Kullman sem ég kann engin deili á og kom út 1959. Ég las mikið af gömlum bókum sem barn. Þessi var ein þeirra sem stendur upp úr og ég held að hún hafi örugglega breytt lífi mínu. Kannski af því að maður hafði aldrei áður séð þetta trix sem t.d. Shakespeare notar, að persóna breyti um kyn í miðri bók, það komi upp úr dúrnum að pilturinn er stúlka í dulargervi. Sagan fjallar um Steinar, pilt sem hefur verið í þjónustu austuríska keisarans, Franz, en er á ferð í Frakklandi Napóleóns þegar á vegi hans verður helsærður landi hans sem flýr franska óvini sína og hefur meðferðis bréf á dulmáli sem þarf að berast Franz. Steinar tekur að sér bréfasendinguna. Síðan verður á vegi hans piltur sem er fiðlusnillingur og á Stradivarius og þeir halda saman á flótta undan eftirfylgjendum sínum sem vilja komast yfir dulmálsbréfið, en dulmálið er nótur. Undrabarnið Páll spilar nóturnar og þær eru tóm vitleysa (eftir að rómönsu í G-dúr í blábyrjun sleppir). Loks kemur í ljós (ath. ég er hér að eyðileggja söguþráðinn fyrir lesendum!) að Páll er Pálína, það þýðir ekkert fyrir stelpur að reyna að koma sér áfram í lífinu sem fiðluleikarar. Á þeim stað þar sem við feðgar erum komnir hefur komið í ljós að erkióvininum, svikaranum Hoffman, hefur tekist að skipta á bréfum og skilaboðin til keisarans eru horfin. Ég man samt síðasta kaflann, þó að ég hafi ekki enn lesið hann fyrir son minn. Bókin endar á því að Pálína kann nóturnar utanbókar eftir að hafa spilað þær einu sinni. Þannig bjargast málin. Ég veit ekki alveg hvað það er við þessa bók sem hafði áhrif á mig, kannski einhver einlægni í tóntegund, kannski kynskiptin, kannski þetta með að tónlist hafi dulin skilaboð, eða að tónlist límist á heilann við eina hlustun. Svo er hún mjög spennandi. Kápumyndin er flott. Sonur minn teiknaði mynd af henni.

Hver er uppáhalds höfundurinn þinn?
Þetta er erfið spurning og svarið síbreytilegt. Ég ætla að segja: Jack London.

Hvaða bók dreymir þig um að hafa skrifað?
Ég væri til í að hafa skrifað 1001 nótt. Skrifaði hana nokkur?

Hvaða bók fékk þig síðast til að fella tár?
Fremur en hitt er ég líklegri til að fleygja bók frá mér ef ég fer að hafa hana grunaða um að reyna að grufla við tárakirtlana. Því ég vil, ég heimta, ég krefst þess, að bók höfði til æðra tilfinninganæmis. Mér þykir tárakirtlagrufl oftast ódýrt. Það fer hreinlega í taugarnar á mér. Mér finnst það ekki vera sannar tilfinningar heldur andstæða þeirra, kuldi. Ég er ekki að segja að ég vilji hugmyndabækur sem kveikja aðeins abstrakt hugsun. Alls ekki. Conrad sem ég nefndi áðan vildi að bækur hefðu áhrif á sjálfa skaphöfnina. Segjum þá sem svo að það sé frábært listaverk sem hreyfi við skaphöfninni, segjum að þaðan sé leiðin greið út í alla kirtla, að það sé bók sem  takist á við alvarlega hluti en fremji samt ekki þá ófyrirgefanlegu synd að vera húmorlaus. Bróðir minn ljónshjarta er þannig bók. Það er ekkert langt síðan ég las hana síðast. Þetta er ótrúleg bók. Ég held að engin önnur barnabók hvetji börn hreinlega til Jihads, sýni göfugt fórnarsjálfsmorð.

Síðasta bók sem þér tókst ekki að klára?
Sennilega er það nýjasta bók nýjasta Nóbelsverðlaunahafans, Kazuo Ishiguro, The Buried Giant. Hún var á náttborðinu þegar hann fékk Nóbelinn og flæktist einhvern veginn úr lestri. Það gerist bara þegar maður er með svona margar bækur í gangi. En ég hef ekkert gefist upp. Hún er einhvers staðar á flakki í rótinu á mér. En ég held að ég viti nokkurn veginn hvar hún er.

Hvaða bók gefurðu oftast? 
Sennilega Mómó eftir Michael Ende.

Hvaða barnabók vekur bestar minningar?
Einhver af þessum bókum eftir Anne-Cath Vestly sem ég keypti í sömu ferð og ég keypti Sendiboða keisarans, eða keypti ekki, þær voru ókeypis á bókasafninu í Kringlunni. Átta börn og amma þeirra í skóginum minnir mig að sé best. Ég ætla að byrja að lesa þær næst.