Hrafnhildur Þórhallsdóttir er gestur vikunnar hér í Bókaskápnum. Fyrsta skáldverk Hrafnhildar, Saltvantaskil: Ljóðsaga kom úr árið 2014 og ári síðar var hún ein af þeim sjö skáldskonum sem sendu frá sér hið seiðmagnað ljóðverk Ég erfði dimman skóg. Hrafnhildur er meðal þýðenda í þriðja bindinu af Smásögum heimsins sem kemur út á síðari hluta þessa árs. Myndin af Hrafnhildi er eftir Sölva Dún.

Þegar hin dularfulla Ásta S. bað mig um að skrifa pistil undir yfirskriftinni „Dagur við skriftir“, fylltist ég samstundis djúpum trega. Ekki vegna þess að mig langaði ekki til að verða við bóninni. Þvert á móti. Heldur vegna þess að pistill undir slíkri yfirskrift er dæmdur til að verða fremur raunalega lesning.

Ég hef lesið töluvert af viðtölum við rithöfunda og finnst ég geta slegið þessu fram með nokkurri vissu. Fólk í þessari stétt virðist ekki í hópi þeirra sem slökkva á tölvunni í lok dags í fullri sátt við sjálfan sig. Hemingway kemst kannski nálægt því en hann hvetur mann líka til þess að skrifa drukkinn. Það ráð hefur aldrei gagnast mér. Ég hef reynt það og afleiðingin var sú að þegar ég rankaði við mér daginn eftir óskaði ég þess heitt og innilega, þar sem ég maraði í kafi undir sænginni, að tölvan mín hefði kveikt í sér á meðan ég svaf. Sem reyndist því miður ekki vera raunin.

Sjálfsefi og angist virðast vera sá félagsskapur sem rithöfundar kjósa helst. Rithöfundar eru ekki portúgalskir fótboltamenn með óaðfinnanlegt hár sama hversu mikið þeir svitna og brjóstkassa sem virðist hrópa: SJÁLFSTRAUST. (Þetta er kannski ekki góð líking. Og sjálfsagt fyrst og fremst persónuleg. Ég er svo léleg í fótbolta að ég veigra mér við að mæta á endurfundi með bekkjarfélögum mínum úr grunnskóla. Fólk gleymir ekki svona löguðu.) Rithöfundurinn Thomas Mann á að hafa sagt eitthvað á þá leið að rithöfundur sé sá sem eigi erfiðara með að skrifa en aðrir. Ég hugga mig oft við þessi orð. Þetta er lúaleg sjálfsblekking en hún virkar.

Vandi minn, þegar kemur að skrifum, er tvíþættur. (Núna, þegar ég skrifa þetta, skynja ég afar sterkt að þetta er slík einföldun að það jaðrar beinlínis við lygi en ég ætla samt að leyfa þessu að standa eins og er. Til einföldunar.) Í fyrsta lagi er ég í hópi þeirra ólánssömu einstaklinga sem verða að hreyfa sig til að geta hugsað. Það sér hver í hendi sér hverslags veseni þetta veldur fyrir skrifandi einstakling. Ég hef gripið til þess ráðs að skrifa standandi eða sitjandi á bolta svo ég geti vaggað mér og velt og gert hnébeygjur og jafnvægisæfingar við tölvuna, verandi það ofvaxna leikskólabarn sem ég er, en staðreyndin er samt sem áður sú að þegar ég „sest“ við skriftir fer megnið af tímanum í stefnulaust ráp um íbúðina. (Ég myndi giska á hlutfallið 30/70, rápinu í vil.) Misgáfulegar erindisleysur sem yfirleitt enda allar við ísskápinn.

Ég borða óheyrilega þegar ég skrifa. Þetta er þörf sem ég hef reynt að stemma stigu við með því að tyggja tyggigúmmí. Það virkar ágætlega. Ekki síst eftir að ég, nýverið, uppgötvaði nikótíntyggjó. Ég er ekki að reyna að venja mig af reykingum. Ég hef aldrei átt í vandræðum með tóbak. En núna um páskana, þegar ég sat yfir þýðingu sem lá á að klára, stóð ég mig að því að óttast þann möguleika að þurfa að vakna á nóttunni til að fá mér tyggjó. Það er einhver furðulega mótsagnakennd líkn fólgin í því fyrir eirðarlausa manneskju að hamast á slíku tyggigúmmíi og finna örvandi áhrifin frá nikótíninu hríslast um þegar iðandi kroppinn. (Mig hefði aldrei grunað að hægt væri að fá jafnheiftarlegar harðsperrur í kjálkana!) Í bland er gott að þamba sódavatn (með sítrónu). En skilar sér þó óneitanlega í frekara rápi. Á klósettið.

Í öðru lagi er ég ekki alin upp í sveit. Þannig að strangt til tekið tala ég ekki íslensku. Allavega ekki reiprennandi. Þetta er stærsta sorg lífs míns; að hafa ekki alist upp meðal hagyrðinga. Vankunnátta mín í móðurmálinu varð mér fyrst ljós þegar ég byrjaði að glíma við þýðingar. Fram að því hefði ég hiklaust haldið því fram við hvern sem heyra vildi að ég væri góð málamanneskja. Ég gæti gengið svo langt að segja að ég hafi að stórum hluta byggt sjálfsmynd mína á þeirri vissu. Þannig að þetta var töluvert áfall. Samt hélt ég áfram. Hvers vegna, geri ég mér ekki fyllilega grein fyrir en mig grunar að það hafi eitthvað með skömm að gera. Maður geti ekki leyft sér að fara í gegnum lífið með jafnfátæklegan orðaforða í farteskinu og raun ber vitni og beri skylda til að æfa sig betur. Ég held að mér miði aðeins áfram.

Ég er í það minnsta mjög námsfús.

Núorðið er Samheitaorðabókin uppáhaldsbókin mín. Og Guð blessi þann sem skóp netorðabækur. Alla jafna þykir mér internetið gríðarlega óspennandi – og hef aldrei botnað neitt í því heillaráði, sem reyndari rithöfundar vilja gefa þeim sem eru að stíga sín fyrstu skref í faginu, að skrifa ekki á nettengda tölvu, því að sá sem sitji frammi fyrir hvítri örk muni að öllum líkindum gera allt sem hann geti til að forðast það ógnvekjandi fyrirbæri – en þegar ég hugsa um að vinna þýðingu án aðstoðar frá þessu óendanlega gímaldi, sem hvorki á sér jaðar né miðju, upphaf eða endi, finnst mér líkt og eitthvað kalt skríði upp eftir hnakkanum á mér. Svo ég þakka fyrir mig.

Að þýða texta er gerólíkt því að skrifa frumsaminn texta. Að mínu viti á þetta tvennt það eitt sameiginlegt að hvort tveggja er best að gera snemma dags. Sem betur fer er ég árrisul að eðlisfari, sama hvar ég hola mér niður á hnettinum. Þegar ég skrifa er ég fyrst og fremst rekin áfram af einhverri tilfinningu. Rökhugsunin – sem aldrei hefur verið mitt sterkasta svið – þvælist ekki svo mikið fyrir. En við þýðingavinnu standa yfir stöðugar rökræður og slagsmál í höfðinu á mér. Á milli orða. Sum orð eru aumari að upplagi en önnur og hörfa fljótt undan en þau frekustu svífast einskis í baráttunni fyrir að hljóta óskipta athygli mína. Og þannig geng ég um, úttauguð og beggja blands á meðan linnulaust orðastríð geysar í höfðinu á mér. Þetta er lýjandi. Ekki síst fyrir mína nánustu sem eru stöðugt spurðir álits – hvort sem þeir hafa áhuga á að svara eða ekki. (Yfirleitt heyri ég í fáum … ég var að setja þetta í samhengi … )

Ofan á þetta styrjaldarástand bætist svo við sú sligandi ábyrgð að vinna frumsamda textanum og höfundi hans ekki mein (nokkuð sem getur algjörlega bugað mig). Síðastliðið vor var einmitt höfundur, sem ég hef þýtt, staddur hér á landi. Ég sá manninn tilsýndar á ráðstefnunni Art in Translation og síðar á ónefndu veitingahúsi. Það hefði legið beinast við að kynna sig. Ég er nokkuð ánægð með þýðinguna mína á sögunni hans og vonast til að hún komi einhvern tímann út. En ég beinlínis faldi mig … maður spyr sig hvað manni gangi til? Hvers vegna velur maður sér starfsvettvang sem fyllir mann slíkum sjálfsefa? Líður öllum svona í vinnunni? Ég er ekki viss um að ég vilji vita svarið við þeirri spurningu. Ég veit bara að mig langar ósegjanlega að tala góða íslensku … og taka þátt í að skapa eitthvað fallegt — sem í tilviki rithöfundarins er einn og sami hluturinn. Þannig að ég geri ráð fyrir að ég láti mig hafa þetta eitthvað áfram. Þrátt fyrir allt.