Gestur Bókaskápsins í dag er Auður Jónsdóttir og hún segir frá degi við skriftir. Myndina af Auði teiknaði Sölvi Dúnn.

Að skrifa er allt og ekkert. Vaknað á morgnana til að reyna að fanga eitthvað sem eina stundina virðist liggja í augum uppi en þá næstu vera utan seilingar. Maður drekkur kaffið sitt og sest við tölvuna og við blasir yfirþyrmandi víðátta sem allir sjá en enginn skilur almennilega – og þó.

Og hvað á að skrifa? Eitthvað. Allt byrjar á orði sem leiðir af sér annað orð og á meðan kólnar kaffið. Tjáningarþörfin er það eina sem rithöfundar eiga sameiginlegt, sagði einu sinni gamalreyndur útgefandi í blaðaviðtali og ætli það sé ekki hún sem fær mann til að skrá sig í símaskrána sem rithöfund, jafn absúrd og það í rauninni er. Eins konar viðurkenning á að maður þjáist af ofvirkri tjáningarþörf eins og hverjum öðrum nútímasjúkdómi.

Morgnarnir líða, raðast upp eins og legókubbar. Smám saman taka orðin á sig mynd; brotakennda, óljósa, mótsagnakennda. Þá minnist maður orða einhvers rithöfundarins sem sagði að það að skrifa væri að búa til hrúgu af þrautum og rembast svo við að leysa þær. En það færir höfundi þeirra öryggiskennd. Smám saman mynda þrautirnar einhvers konar lögmál sem þarf að hlýða og vera trúr, innra lögmál sögunnar, og allt sem rúmast ekki innan þess verður augsýnilega óþarfi.

Allt í einu er eitthvað til í tölvunni sem kallar á eitthvað ákveðið, nánast eins og lifandi vera, svo greinilegt að höfundurinn stendur sjálfan sig að því að verða örlagatrúar fyrir hönd verksins. Að það hafi alltaf stefnt að því að verða á einn hátt frekar en annan. Og kannski er nauðsynlegt að telja sér trú um það til að ljúka því einn daginn en halda ekki endalaust áfram.

Kaffibollunum fjölgar, morgnarnir líða. Eftir nokkra klukkutíma kemur barnið heim úr skólanum og þá þarf aftur að verða til rútína, tímarammi, eins konar staðsetning á tilverunni. Sem er ekki til staðar meðan setið er við skriftir. Þá er maður einn í allsherjar veru, eins og veiðimaður að reyna að draga ímyndaðan feng upp úr vatni tímans.

Svo hringir síminn.

Einhver að minna á tíma hjá lækni eða biðja höfundinn um að halda erindi um eitthvað sem hann hefur gefið sig út fyrir að hafa áhuga á. Og stundum þarf að skrifa pistil í fjölmiðil eða jafnvel viðtal, eitthvað sem tekur aðeins daginn að skrifa og höfundurinn fær strax viðbrögð við, ólíkt handritinu í tölvunni sem hefur í eins konar frekju krafist þess að hann sinni sér næstu átján mánuðina eða svo, umfram annað. Ímynduð vera, samt raunverulegri en allt annað og það sem gerir það að verkum að höfundurinn týnir ekki sjálfum sér í tómi daganna.

Um hádegisbil getur verið ráð að fara í göngutúr. Kannski út á Ægissíðu eða í næsta hverfi sé maður þá búsettur í útlöndum. Bara eitthvað út til að sjá að heimurinn búi ekki bara í kolli manns. Og sé lögmálið búið að taka á sig mynd verður allt að kveikju. Höfundurinn sífellt meira örlagatrúar að göngutúrinn sé ekki tilviljun því ef hann hefði ekki álpast fyrir þetta eða hitt hornið hefði hann ekki séð akkúrat það sem leiðir hann áfram að næstu hugmynd í þessu kraðaki hugmynda og verður jafnvel vendipunktur í einhverri hliðarsögunni.

Síðan er komið aftur inn og haldið áfram að skrifa. Nokkrum mínútum stolið til að vaska upp eða hengja úr vélinni og þá fæðast stundum bestu hugmyndirnar. Og síðan eru aðrir dagar þegar rútínan verður að engu. Þeir bara flæða þangað til höfundurinn fer í háttinn og man þá allt í einu eitthvað! Svo hann skrönglast á fætur og hripar það hjá sér til að vinna úr næsta dag.

Dagarnir jafn kaótískir og hugmyndirnar í hausnum. En eitt bregst ekki, þegar lögmálið er orðið augsýnilegt og nær dregur útgáfu fækkar göngutúrunum, uppvaskið safnast upp, barnið fer æ oftar í pössun og allt þar fram eftir götum þangað til það er ekkert eftir af manneskjunni nema höfundurinn með öll þessi endalausu orð sem þurfa að komast í yfirlestur og umbrot eigi þau að verða að bók. Þá eru dagarnir bara vinna, þangað til bókin er til og við tekur tóm. Tómir dagar, þangað til allt byrjar að hrannast upp á nýjan leik.