Í ökuferðinni um miðjan mars, á leið frá Sawmill River, komu í huga minn sænsku hjónin sem kalla sig Lars Kepler. (Ég hafði nefnilega rekið augun í snjáða enska útgáfu af einni af bókum þeirra, sem fékkst fyrir dollaraseðil, á bókaborði fornbókasölunnar við Sawmill River.) Sænsku hjónin sem skrifa glæpasögur undir Keplernafninu heita í raun og veru Alexander og Alexandra Coelho Ahndoril og voru einkum þekkt í  Svíþjóð sem ljóðskáld og bókmenntafólk. Þegar Hypnotisören eða Dávaldurinn – fyrsta glæpasagan sem þau skrifuðu saman – kom út vissi enginn hver faldi sig bak við dulnefnið Lars Kepler. Höfundarnir höfðu fengið fúlgur fjár í fyrirframgreiðslu fyrir handritið (það vekur alltaf athygli og áhuga) og bókin varð samstundis mikil sölubók í Svíþjóð, sagan og höfundarnir gífurlega umtalaðir. Voru miklar getgátur á lofti um hver stæði á bak við bókina í raun og veru. Það vissi enginn nema forleggjarinn hjá Bonniers-útgáfunni.

Upphófst mikil leit að hinum raunverulega höfundi hjá rannsóknarblaðamönnum sænsku dagblaðanna. Bókin komst á topp metsölulista í Svíþjóð, útgáfusamningar voru undirritaðir við 30 erlend útgáfufélög og sænskt bókafólk spekúleraði í hver Lars Kepler væri. Henning Mankell lá lengi undir grun og líka Camilla Läckberg. En dag einn komst sænska dagblaðið Aftenposten á snoðir um hver stóð að baki Lars Kepler-nafninu, ef til vill á heppilegum tíma fyrir forlagið þar sem salan og umtalið voru farin að minnka. Á forsíðu dagblaðsins var birt mynd af hjónunum Alexander og Alexöndru undir yfirskriftinni ÞETTA ER LARS KEPLER. Bókmenntaspírurnar, ljóðskáldin og essayistarnir voru afhjúpuð sem glæpasagnahöfundar. Ef þetta hefði gerst á Íslandi væri kannski hægt að líkja þessu saman við það að ef bókmenntahjónin Kristján B. og Gerður Kristný hefðu skrifað toppvinsælan krimma í skjóli dulnefnis.

En það var ekki þetta sem ég ætlaði að segja. Ég las fyrir nokkru viðtal við þessi ágætu hjón, þ.e. Alexander og Alexöndru, þar sem þau sögðu frá því að þau sæktu aðallega áhrif og innblástur úr kvikmyndum. Þau hefðu það fyrir reglu að horfa að minnsta kosti á eina kvikmynd á dag. Oftast saman. Þetta fannst mér merkilegt og fékk mig til að velta Lars Kepler-hjónunum enn frekar fyrir mér á 140 km hraða á hraðbrautum Massachusetts í Bandaríkjunum.

En þetta var heldur ekki það sem ég ætlaði að segja. Ég var í rauninni að hugsa um tilgang dulnefna. Þá komu í hugann Elena Ferrante, Robert Galbraith og Stella Blómkvist. Ég hugsaði líka um hvað það væri sem fengi þessa höfunda og fleiri til að fela sig bak við dulnefni. Er það eins og í tilviki Emily Dickinson, að þau eru feimin og óframfærin og vilja ekki láta bendla sig við textann sem þau senda frá sér? Eða er þetta svokallað markaðstrikk til að auka dulúð í kringum höfund verksins.

Ferrante hefur fengið mikla athygli, sem hún segist ekki kæra sig um, bara vegna þess að blaðamenn skrifa um tilgátur sínar hver eða hverjir feli sig á bak við skáldanafnið. Nóg er um dulúðina. Stella Blómkvist hefur haldið sig í skjóli dulnefnis í fjölmörg ár, án þess að láta svipta af sér hulunni, en samt hafa bækur hennar aldrei vakið sérlega mikla athygli fyrr en nú með sjónvarpsseríunni. Ég heyrði einu sinni þá kenningu að um væri að ræða höfund sem aldrei hefði náð vinsældum í eigin nafni þótt eftir hann/hana lægju fjölmargar bækur og því valið að skrifa undir öðru nafni til að reyna að fá gang í ferilinn.

Skýring J.K. Rowling á því að hún valdi Robert Galbraith sem höfundanafn fyrir glæpasögur sínar, í stað þess að skrifa undir eigin nafni, var að hún vildi losna undan oki síns fræga nafns. Það er ekki auðvelt að vera ofurfrægur barnabókahöfundur og ætla að skrifa glæpasögur. Skuggi frægðarinnar skyggir á skrifin. Ég rakst einu sinni á skemmtilegan minnismiði eftir Rowling þar sem hún hripar niður möguleg nöfn.

jk-rowling-as-robert-galbraith

Ég man að einu sinni var ég stödd í húsakynnum Eddu – miðunar á Suðurlandsbraut.  Ég átti erindi við einn af ritstjórunum í húsinu. (Þetta rifjaði ég upp í Mercedes Benz bílnum sem ég hafði leigt í Bandaríkjunum til að heimsækja fornar slóðir.) Þetta var ekki löngu eftir að forlagið var flutt í þessa fínu skrifstofubyggingu á mörgum hæðum. Á ritstjórnarhæðinni – fjórðu hæð – sátu ritstjórar í básum og höfðu útsýni yfir Laugardalinn. (Ég man að það voru slóð kaffibletta á nýja, ljósa gólfdúknum sem lá frá kaffivélinni inn á bás Guðmundar Andra. Hinir ritstjórar forlagsins voru ósparir á háðsglósurnar í hans garð. Þeir komu, ritstjórarnir, hver á eftir öðrum til að benda mér á þessa kaffislóð og til að hía á hann.) En fyrir utan alla ritstjórnarbásana var ein lokuð skrifstofa í öðrum enda hæðarinnar. Á skrifstofunni voru gluggar sem vísuðu inn í salinn og þar inni sat útgáfustjórinn, Halldór Guðmundsson. Þennan dag sem ég var í heimsókn hjá forlaginu var annar höfundur á staðnum. „Stella Blómkvist er inni hjá Halldóri,“ hvíslaði ritstjórinn að mér. „Þess vegna eru gluggatjöldin hjá Halldóri dregin fyrir.“

Og mikið rétt, gluggatjöldin voru rúlluð niður (rúllugluggatjöld). Forvitni mín varð allt í einu óslökkvandi, ég varð að finna út hver væri höfundurinn á bak við Stellunafnið. Ég ákvað að draga erindi mitt við ritstjórann á langinn og koma mér þannig fyrir í básnum að ég gæti haft annað augað á dyrunum hjá útgáfustjóranum og þannig séð þegar Stella gengi út. Ég hafði masað og masað við ritstjórann, reynt að fá tímann til að líða, lagt fram viðeigandi spurningar, sum sé til að framlengja veru mína á skrifstofunni eins lengi og ég gat. En dyrnar opnuðust ekki og því gekk enginn út (eða það gekk enginn út af því að dyrnar opnuðust aldrei).

Ég var orðin ansi óþreyjufull og ekki síður ritstjórinn sem var farinn að gefa mér margvísleg merki um að hann þyrfti að halda áfram að vinna og mætti ekki vera að þessu fjasi um ekki neitt. Mér datt því i hug að gera mér upp erindi á klósettið. „Fyrirgefðu, ég þyrfti aðeins að skreppa á klósettið,“ sagði ég og með látbragði gaf ég til kynna að ég væri að pissa í mig. Ritstjórinn benti mér á hvar klósettin væru. Ég lallaði því eftir ganginum, fylgdi kaffislóðinni, en í stað þess að beygja að klósettdyrunum skaust ég í átt að skrifstofu útgáfustjóra. Fyrir framan hana sat ung kona í rauðri peysu með gleraugu. Hún leit upp þegar ég nálgaðist.

„Er Halldór við?“ spurði ég sakleysislega.

„Nei, hann er upptekinn,“ svaraði unga konan.

„Nú, æ, er einhver inni hjá honum …?“

„Já.“

„Veistu nokkuð hvort það er karl eða kona?“

Unga konan leit spyrjandi á mig. „Hvort það er karl eða kona …ha? … bæði … hvorugt …“

„Eru tveir inni hjá honum?“

„Fyrirgefðu … en hver ert þú … áttu bókaðan fund með Halldóri?“

„Ja … eiginlega ekki … ég ætlaði bara aðeins að heilsa upp á hann … en það er sem sagt einhver inni hjá honum …?“-

„Já …“

Það var augljóst að ég fengi ekkert upp úr þessari ungu konu svo ég gekk upp að skrifstofunni og þóttist svipast um eftir klósettdyrum en reyndi samtímis að leggja við hlustir. Heyra hvort ég þekkti röddina sem barst frá skrifstofunni, hvort ég heyrði rödd karlmanns eða konu…

„Hvert ertu að fara …“

„Ég er að leita að klósettinu.“

„Það er ekki þarna. Klósettið er hér,“ sagði unga konan og benti á dyr handan við bókahillur.

Ég sá aldrei hver kom út úr skrifstofu útgáfustjórans. Sennilega hafa verið bakdyr sem Stella laumaðist út um. Henni tókst alltaf að laumast óséðri út.

Ekki alls fyrir löngu birti RÚV frétt um að Stella Blómkvist hefði barist fyrir því árum saman að fá bókasafnspeninga en ávallt verið synjað þar sem skattayfirvöld vildu vita hvern bæri að skattleggja fyrir greiðslurnar. Nú er umboðsmaður Alþingis búinn að útskurða í málinu, Stellu í hag; hún má fá bókasafnspeningana í eigin nafni. Í sömu frétt eru getgátur uppi um hver gæti leynst bak við nafn Stellu og tillögur RUV eru eftirfarandi:  Óskar Magnússon, Stefán Jón Hafstein, Súsanna Svavarsdóttir og Davíð Oddsson.  Ég hafði allt annan höfund í huga.

„Gott hjá þér Ásta mín, að skrifa bara undir eigin nafni, það er miklu einfaldara,“ hugsaði ég. Svona þutu hugsanirnar í gegnum hugann á meðan ég þaut sjálf á 140 km hraða eftir bandarískum hraðbrautum. Á, nota bene, Mercedes Benz-bíl.