Í byrjun þessa mánaðar birti breska blaðið The Telegraph lista yfir 100 bestu skáldsögur sögunnar en hann höfðu gagnrýnendur blaðsins dundað sér við að setja saman. Efst á þessum nýja lista eru: 1. Middlemarch eftir breska rithöfundinn George Eliot, 2. Moby-Dick eftir bandaríska rithöfundinn Herman Melville, 3. Anna Karenina eftir rússneska rithöfundinn Leo Tolstoy, 4. The Portrait of a Lady eftir bandaríska rithöfundinn Henry James og 5. Heart of Darkness eftir pólsk-breska rithöfundinn Joseph Conrad. Allt eru þetta sígild raunsæisverk frá 19. öld og öll eru þau eftir karlhöfunda nema sú fyrsta en að baki hinu karlmannlega höfundarnafni Eliots bjó skáldkonan snjalla Mary Anne Evans.

Forvitnilegt er að bera þennan lista saman við annan 100 skáldsagna lista sem breska blaðið The Guardian kynnti fyrir réttum 15 árum. Efstu fimm bækurnar voru eftirfarandi: 1. Don Kíkóti eftir spænska rithöfundinn Miguel de Cervantes, 2. Pilgrim’s Progress eftir breska rithöfundinn John Bunyan, 3. Robinson Crusoe eftir breska rithöfundinn Daniel Defoe, 4. Gulliver’s Travels eftir breska rithöfundinn Jonathan Swift og 5. Tom Jones eftir breska rithöfundinn Henry Fielding. Hér virðast gagnrýnendur hafa haft sérstakan smekk fyrir upphafsskrefum skáldsögunnar sem bókmenntagreinar á 17. og 18. öld. Og karlmennirnir, nánar tiltekið bresku karlhöfundarinar, eru í heiðurssæti. Eini höfundurinn sem ekki samdi á ensku er Cervantes.

Það er ekki fyrr en maður kannar 6.-15. sæti á þessu listum að kvenhöfundar og nútímalegri höfundar fara að skjóta upp kollinum, en í heild eru enskumælandi höfundar æði áberandi hjá báðum dagblöðunum. Á lista The Telegraph er Disgrace eða Vansæmd  eftir J. M. Coetzee frá árinu 1999 númer 8,  Mrs Dalloway eftir Virginiu Woolf númer 9. Á lista The Guardian má með áþekkum hætti finna Emmu eftir Jane Austen í 9. sæti og Frankenstein eftir Mary Shelley í 10. sætinu. Nútímabókmenntirnar byrja reyndar ekki að detta inn á lista The Guardian fyrr en milli sæta 40-50 en ástæða þess er sú að bókunum er raðað inn á lista eftir útgáfuári, en ekki eftir gæðum. Neðst á listanum er af þeim sökum að finna nýjustu bækurnar, þar á meðal númer 96 Wise Children eftir Angelu Carter og númer 97 Atonement (Friðþægingu) eftir Ian McEwan.

Vegna þess hve ólík sjónarmið búa að baki listunum tveimur þarf maður að leggja í töluverða vinnu til að bera þá saman (lesendur geta dundað sér við það) en það þarf þó ekki að rýna í þá nema stutta stund til að upp vakni efasemdir um gildi einstakra lista af þessu tagi. Heimsbókmenntirnar, eða öllu heldur hugmyndir okkar um þær, reynast vera ansi þjóðlegar í hverju og einu landi. Og enn aukast efasemdirnar ef maður vitjar um heimasíðu aListofBooks þar sem þrettán ólíkir 100 bókalistar ólíkra landa eru aðgengilegir. Þeir eru jafnframt fléttaðir saman í lista yfir 623 bestu bækur allra tíma. En er hann eitthvað marktækari en hinir einstöku listar? Þar er Middlemarch í 21. sæti en The Great Gatsby eftir F. Scott Fitzgerald í 1. sætinu.

Til gamans má rifja upp að fyrir sex árum var birtur listi yfir 100 íslenskar bækur sem allir ættu hiklaust að lesa. Þar var bókunum raðað í stafrófsröð og því (miður) lítið að marka hvaða bækur vermdu efstu sætin fimm en þær voru: 1. Að breyta fjalli eftir Stefán Jónsson, 2. Aðventa eftir Gunnar Gunnarsson, 3. Afleggjarinn eftir Auði Övu Ólafsdóttur, 4. Á eigin vegum eftir Kristínu Steinsdóttur, 5. Benjamín Dúfa eftir Friðrik Erlingsson. Þarna er hins vegar skemmtilegt sambland yngri og eldri verka eftir höfunda af báðum kynjum og fyrir lesendur á öllum aldri.

Hvað sem öllu þessu líður er ástæða til að hvetja lesendur til að kynna sér Middlemarch og aðrar skáldsögur George Eliot og það er líka ástæða til að hvetja íslensk bókaforlög og þýðendur til að sinna höfundarverki hennar betur í framtíðinni en hingað til. Aðeins er ein skáldsaga eftir hana aðgengileg í íslenskri þýðingu en það er Silas Marner: Vefarinn í Raveloe sem Atli Magnússon þýddi og bókaútgáfan Ugla gaf út árið 2010.