Hinn alþjóðlegi bókamarkaður er farinn að finna fyrir því að lesendur skandinavískra glæpasagna eru orðnir lúnir og kannski svolítið leiðir. Þessir lesendur, sem satt að segja hafa knúið stóran hluta bókamarkaðarins í Evrópu,  eru farnir að leita annað. Hinn svefnlausi, einmana og alkóhóliseraði lögreglumaður er orðin margtuggin lumma og skrúfar ekki lengur upp adrealínið í blóði lesenda.  En hvert skal áhugafólk um glæpasögur leita? Hvar er ferskleikinn og hin nýja sýn á hvernig segja skal glæpasögu. Hin heita lumma.

Það nýjasta nýtt og heitasta heitt kemur víst frá suðurhluta Asíu. Svo virðist vera að asískir glæpasagnahöfundar séu að endurnýja glæpasöguna og hleypa í hana krafti, spennu og lífi.  Hinn japanski Keigo Higashino hefur síðustu mánuði tröllriðið metsölulistum víða um heim með bók sinni The Devotion of Suspect X sem kemur út í íslenskri þýðinu á vormánuðum. Mun höfundurinn  eiga hvorki meira eða minna en þrjár efstu bækurnar á kínverska metsölulistanum fyrir liðið ár!

Í síðustu viku gekk mikið á, líf og fjör var á sölumarkaði fyrir þýddar bækur. Tilboð og gagntilboð bárust í bók hins suður-kóreanska Un-su Kim og The Plotter. Milljónatilboð voru samþykkt frá Bandaríkjunum, Þýskalandi, Tyrklandi, Tékklandi …   og þar að auki berjast kvikmyndafyrirtæki um kvikmyndaréttinn að sögunni. En höfundurinn sjálfur veit ekkert. Hann er úti að sigla. Sem liður í rannsókn fyrir næstu bók hefur hann ráðið sig um borð i fiskibát og er án síma og annarra samskipta við umheiminn. Hann steig um borð á fiskidallinn í desember og kemur ekki í land fyrr en í maí. Þá ætlar umboðsmaður hans að bíða bryggjunni í Fiji til að færa honum fréttirnar.

keigo Higashino
Japanski glæpasagnahöfundurinn Keigo Higashino

Annar suður-kóreanskur glæpahöfundur You-jeong Jeong (kona) hefur vakið mikla athygli og bíða glæpaþyrstir lesendur óþreyjufullir eftir að bók hennar The Good Son komi út í Englandi í lok maí.

Áhugi á suður-kóreönskum bókum hefur margfaldast í hinum enskumælandi heimi. Til dæmis seldust einungis 88 eintök af suður-kóreönskum bókum árið 2001 en árið 2015 voru þær orðnar  10.191. Eftir útkomu hinnar mjög svo umtöluðu og verðlaunuðu bókar Grænmetsætunnar eftir Han Kang frá Suður-Kóreu hefur áhugi bókmenntafólks síður en svo dvínað og má gera ráð fyrir að sölutölur fyrir suður-kóreanskar bækur á ensku árið 2017 hafi sprengt 100.000 einstaka múrinn.