Þann 18 apríl árið 2013 kom út bókin The Cuckoo’s Calling. Útgáfusaga bókarinnar eins og margra annarra bóka var þyrnum stráð. Höfundurinn Robert Galbraith hafði sent handrit sitt til allnokkurra forlaga og fékk jafnharðan (eða í nokkrum tilvikum mjög löngu síðar) höfnunarbréf. Flest voru bréfin kurteislega orðuð, sum meira segja með tillögum um hvar hægt væri að læra að skrifa skáldsögur, hvaða námskeið væru í boði til að bæta hæfileika sína til skáldsöguskrifa og svo framvegis. Einn forleggjari leyfði sér þó að skrifa frekar ruddalegt bréf þar sem hann frábað sér slíkar handritasendingar frá höfundinum í framtíðinni, hann sæi ekkert athyglisvert eða spennandi við  handritið og ef höfundur vildi fá það til baka skyldi hann senda forlaginu 30 pund fyrir póstburðargjaldi. Þessi sami útgefandi varð frægur fyrir álíka dónalegt höfnunarbréf á handriti fyrstu bókarinnar um galdradrenginn Harry Potter.

En útgáfufélag Little Brown keypti að lokum réttinn á bók Roberts og bókin kom út á vordögum ársins 2013. Áhugi á bókinni var ekki yfirdrifinn. Fáeinir, en þó mjög lofsamlegir, dómar birtust í breskum dagblöðum. Salan var alls ekkert til að hrópa húrra fyrir. Þær 1500 bækur sem höfðu verið prentaðar seldust hægt og rólega og þegar sumarblómin fóru að blómstra í breskum húsgörðum ákvað forlagið eftir nokkuð hik að panta annað upplag hjá prentsmiðjunni.

Um svipað leyti var haldið lítið matarboð í einu af úthverfum London, hinu vinsæla Wimbledon hverfi. Það var milt, breskt sumarkvöld. Callegari hjónin í litla, rauða raðhúsinu við Elsenheim street höfðu boðið vinfólki sínu, lögfræðingnum Chris Gossage og konu hans Monicu Gossage í kvöldmat. Á meðan húsbóndinn og lögfræðingurinn Chris stóðu yfir grillinu hvor með sinn flöskubjór í hendi, kláruðu Monica og húsmóðirin Jude að þeyta rjóma fyrir eftirréttinn (sítrónulegin jarðaber). Monica sagði frá því að Chris hefði verið óvenju stressaður síðustu vikur því hann hefði fengið það verkefni á lögfræðistofunni sinni að sjá um samninga fyrir frægan rithöfund sem veldi að skrifa undir dulnefni. „Nú, hvaða höfundur er það?“ spurði Jude um leið og hún þerraði fingurna í svuntuna sína. „Það er Rowling! Hún kallar sig Robert Galbraith.“ Monica naut þess að  segja vinkonu sinni slíkar æsifréttir. En þessa litlu og sakleysislegu skemmtisögu hefði hún ekki átt að segja vinkonu sinni. Smáslúður yfir rjómaskál kostuðu mann hennar starfið og lögfræðiskrifstofuna sem hann vann hjá umtalsverða fjármuni og mikilvægan viðskiptavin.

Daginn eftir matarboðið, þann 9. júlí, sat blaðamaður að nafni India Knight á ritstjórnarskrifstofu The Sunday Times. Hún hafði nýlokið við að lesa glæpasögu eftir ókunnan höfund að nafni Robert Galbraith. Þetta var samkvæmt kynningu frá forlaginu fyrsta bók höfundar. Í kynningu var einnig tekið fram að höfundurinn væri fyrrum rannsóknarlögreglumaður hjá Royal Military Police þar sem hann hafði starfað fram til ársins 2003 en síðan unnið sem öryggisvörður hjá ýmsum öryggisfyrirtækjum, en skrifaði glæpasögur í frístundum sínum. India Knight ákvað að skrifa Tweed þar sem hún sagði frá því að hún hefði lesið sögu Robert Galbraith sem honum þætti óvenjugott byrjendaverk.

Stundarkorni síðar komu viðbrögð við tísti blaðamannsins frá twitternotandanum @JudeCallegari þar sem hún segist hafa öruggar heimildir fyrir því að Galbraith væri Rowling í dulargervi. Knight spurði hvaðan hún hafi heimilir fyrir því en fékk ekki svar. (Sennilega var Jude upptekin við að taka til eftir matarveislu kvöldsins áður). Henni fannst þetta þó svo sennileg tilgáta að hún fékk menningarritstjóra blaðsins Robert Books í lið með sér og hófu þeir rannsókn á málinu. Eftir að þau komust að því að Rowling og Galbraith höfðu sama umboðsmann og sama ritstjóra sendu þeir bók Galbraiths ásamt öllum Harry Potter bókunum til setningagreiningar í háskólanum í Oxford. Niðustöður Oxfordháskóla komu nokkrum dögum síðar og staðfestu grun blaðamannanna. Rowling og Galbraith voru einn og sami höfundurinn

Síðasta bókin í bókaflokknum um Harry Potter kom út árið  2007. Veltu menn mjög vöngum yfir hvað tæki við hjá JK Rowling. Á bókmenntahátíðinni í Edinburgh sama ár sagði rithöfundurinn Ian Rankin að konan hans hefði séð Rowling sitja á kaffihúsi og hripa niður á servíettu hugmynd að glæpasögu. (Ian Rankin og JK Rowling voru nágrannar í Edinburgh). Síðar dró Ian söguna til baka og sagðist hafa verið að spauga. En sögusagnirnar um væntanlega glæpasögu Rowling héldu áfram að grassera og árið 2012 skrifaði The Guardian langa grein þar sem þeir töldu sig hafa vissu fyrir því að Rowling væri að skrifa glæpasögu í anda Agöthu Christie.

Skömmu eftir að blaðamenn The Sunday Times fengu niðurstöðurnar úr setningagreiningunni frá Oxfordháskóla settu þeir sig í samband við umboðsmann Rowling og sögðu frá niðurstöðum sínum. Fengu þau staðfest hjá umboðsmanninum að Galbraith væri Rowling og birtu þau frétt þess efnis þann 18. júni. Samdægurs lagði útgefandi The Cuckoo’s Calling eftir Robert Galbrath inn pöntun á nýju upplagi af bókinni. 140.000 eintök, takk, stóð í pöntunarbréfinu til prentsmiðjunnar.

Rowling sagði sjálf að hún væri bæði reið og vonsvikin yfir að hafa verið afhjúpuð. Það hefði verið henni mikilvægt frelsi að fá að skrifa sem Robert Galbraith, laus undan oki eigin nafns og frægðar. Hún útskýrði jafnframt að hún hefði fengið nafnið úr tveimur áttum: frá Robert Kennedy sem var einn af uppáhaldsstjórnmálamönnum hennar og frá nafni sem hún hefði kallað sig sjálfa þegar hún var lítil: Ella Galbraith.

Lögfræðiskrifstofan sem sá um málefni JK Rowling fékk sparkið eftir lekan og þurfti að borga háar bætur sem Rowling lét renna til samtaka uppgjafahermanna (höfuðpersóna bókarinnar er uppgjafahermaður með sár á líkama og sál). Jafnframt kom yfirlýsing frá lögfræðistofunni þar sem þau hörmuðu lekann og vísuðu á bug að lekinn væri hluti af markaðsherferð fyrir höfundinn.

Bókaforlagið Bjartur hefur nú keypt þýðingarréttinn á glæpasögum Robert Galbraiths sem nú þegar eru orðnar þrjár og sú fjórða kemur út á vormánuðum í Englandi. BBC sjónvarpstöðin hefur framleitt vinsæla framahaldsþætti byggða á sögunum. Íslenska þýðingin á fyrstu bók seríunnar The Cuckoo’s Calling kemur út með haustinu.