Hver er Stella Blómkvist? Það hefur gerst æ oftar á síðustu misserum, í samtölum mínum við rithöfunda og fólk úr bókabransanum, að ég hef verið spurð: „Veistu ekki hver hún er?“ Með þessu gefur viðmælandinn til kynna að hann eða hún sé innvígður eða innvígð, að leyndarmálið sé eftir öll þessi ár á margra vitorði, að minnsta kosti á vitorði þeirra sem vilja vita hver standi á bakvið dulnefni S.B. Líklega hafa nýir sjónvarpsþættir byggðir á sögum um og eftir Stellu haft sín áhrif á að breiða út þekkingu um efnið.

Ég svara þessari spurningu alltaf á sömu lund: „Ég vil ekki vita hver Stella er, ekki segja mér það.“  Fyrir því eru tvær ástæður: Í fyrsta lagi trúi ég því að Stella vilji ekki láta koma upp um sig og því er það sjálfsögð tillitssemi við hana (eða hann) að varðveita leyndarmálið, virða leyndina. Í öðru lagi þykir mér svo óskaplega skemmtilegt að brjóta heilann um allskonar ráðgátur, krossgátur, myndagátur og þrautir. Ef mér væri sagt hreint út hver hefði skrifað Morðið á Bessastöðum, Morðið á Þingvöllum og allar hinar Morðið á/í … bækurnar, núna síðast Morðið í Gróttu, væri eitthvað dýrmætt frá mér tekið. Mig langar nefnilega að leysa gátuna upp á eigin spýtur, ein og óstudd.

Síðustu árin hef ég raunar haft óseðjandi áhuga á öllum þeim rithöfundum sem skrifa eða hafa skrifað undir dulnefni í gegnum tíðina. Erlendu dæmin eru óteljandi en það eru líka ýmis skemmtileg íslensk dæmi sem tilheyra þessari sögu. Á fimmta áratug síðustu aldar sendu bæði Sigurður Nordal og Jóhannes úr Kötlum frá sér módernískan skáldskap undir dulnefnunum N.N. og Anonymus. Báðir héldu þeir því fram eftir á að þeir hefðu ekki viljað láta skáldskapinn gjalda fyrir hver hefði samið hann (fremur en að þeir hefðu verið að þær heybrækur að vilja ekki kannast við skrif sín).

Ég trúi því að saga þessara innlendu og erlendu höfunda  geymi lykilinn að gátunni um Stellu. Í bókaskápnum mínum eru nokkrar minnisbækur sem hafa að geyma vel flokkaðar athugasemdir um þær ólíku hvatir sem búið hafa að baki því að höfundur vilji dylja sig á bakvið dulnefni (og hvers vegna tiltekið dulnefni er valið) og svo á ég aðrar minnisbækur þar sem þessar athugasemdir eru nýttar til að setja fram kenningar um hver sé höfundur bókanna hennar Stellu. Ég get gefið tvö dæmi:

  1. Hliðarsjálf þekkts höfundar: Nú á dögum eru allmörg þekkt dæmi um að þekktir og virtir rithöfundar hafi komið sér upp hliðarsjálfi til að skrifa eina eða fleiri bækur sem eru í allt öðrum anda, og jafnvel af allt öðru kalíberi, en hið eiginlega höfundarverk viðkomandi. Dæmi um þetta eru glæpasögurnar sem breski rithöfundurinn Julian Barnes skrifaði undir dulnefninu Dan Kavanagh á níunda áratugnum. Um þetta leyti á síðasta ári var ég sannfærð um að bækurnar hennar Stellu væru af þessu tagi og ég tók mig meira að segja til og kannaði hvernig útgáfuár bóka eftir ýmsa þekkta íslenska höfunda (Einar Kárason, Stefán Mána, Gerði Kristnýju, o.fl.) komu heim og saman við útgáfuár bókanna hennar Stellu. Þessi rannsóknaraðferð, sem byggði á þeirri hæpnu forsendu að höfundur gæti ekki skrifað meira en eina skáldsögu á ári, leiddi í ljós að sumir félagar í Rithöfundasambandinu væru líklegri en aðrir til að leynast á bakvið dulnefni Stellu. Í heildina olli hún þó vonbrigðum. Allir þeir höfundar sem kannaðir voru höfðu gefið að minnsta kosti út eina bók á sama ári sem bók eftir Stellu hafði birst. Ein besta samsvörunin náðist í kringum bækur Þráins Bertelssonar sem hefur reyndar (áður?) gefið út skáldsögur undir dulnefninu Tómas Davíðsson.
  2. Lykillinn felst í nafninu. Þess eru dæmi að höfundar hafi ákveðið að skrifa undir dulnefni vegna þess að þeirra eigið nafn hefur óhepplega skírskotun. Það getur verið of líkt nafni þekkts höfundar (hvað tekur ungur höfundur til bragðs sem heitir til dæmis James Joyce eða Gunnar Gunnarsson?) eða vakið upp einhver hugrenningatengsl sem eru ekki líkleg til að ýta undir sanngjarnar viðtökur. Þekktasta dæmið um þetta er líklega höfundarnafn J.K. Rowling sem er ekki beint dulnefni en þótti hafa þann kost fram yfir fullt nafn Joanne Rowling að óljóst var hvor um karl- eða kvenhöfund væri að ræða.  Fyrir nokkrum misserum varði ég hálfu sumarleyfi í að skoða nafn Stellu Blómkvist frá þessum sjónarhóli. Ættarnafnið (rétt eins og ættarnafn Mikaels Blomkvist í verkum Stiegs Larsson) vísar auðvitað til Kalla Blómkvist, hins snjalla leynilögreglumanns úr sögum Astridar Lindgren en það var skírnarnafn Stellu sem ég braut einkum heilann um. Frænka mín ein er kölluð Stella en skírnarnafn hennar er Jóhanna. Engin Jóhanna er skráður félagi í Rithöfundasambandi Íslands en þar er hins vegar bæði að finna nafn Jóhanns Haukssonar og Jónínu Leósdóttur. Þetta var líklega köld slóð, hugsaði ég þó með mér og komst að þeirri niðurstöðu að besta tilgátan á þessu sviði væri sú að upphafstafir Stellu Blómkvist fælu í sér augljósa vísbendingu. Þeir eru til að mynda hinir sömu og upphafstafir hins þrautreynda rithöfundar Snjólaugar Bragadóttur sem hefur opinberlega ekki sent frá sér neina skáldsögu hin síðari ár en verið afar afkastamikill þýðandi.

Undanfarna mánuði hefur áhugi minn á þessu efni einkum beinst að máli Elenu Ferrante, sem er dulnefni eins vinsælasta rithöfundar (eða rithöfunda) veraldar þessa dagana. Ein kenning er sú að á bakvið þetta nafn standi Marcella Marmo, prófessor við háskóla í Napolí, önnur er sú að reyndur ítalskur þýðandi, Anita Raja, hafi skrifað bækur Ferrante (hún hefur verið að fá himinháar höfundargreiðslur frá forlaginu sem hér um ræðir), og sú þriðja og nýjasta er sú að eiginmaður Anitu, Domenico Starnone, sé hinn seki (sjá nánar bókmenntamola hér neðar í skápnum). Vissar vangaveltur eru líka uppi um að þau Anita og Domenico hafi samið bækurnar í félagi. Þessi síðastnefnda kenning hefur ýtt mér af stað í nýja rannsókn á félagatali Rithöfundasambandsins þar sem unnið er út frá þeirri tilgátu að makar standi að baki nafni Stellu Blómkvist. Sem stendur liggja tvö pör undir mestum grun: Jóhanna (Stella?) Sigurðardóttir og Jónína Leósdóttir annars vegar og Gerður Kristný og Kristján B. Jónasson hins vegar (millinafn Kristjáns er Bjarki, sbr. Blómkvist!). Niðurstaðna er að vænta fyrr eða síðar.