Þær fréttir berast frá höfuðstöðvum Copenhagen Literary Agency að bók Jóns Kalmans Stefánssonar, Harmur englanna, hafi nú verið bönnuð í Saudi Arabíu og fjarlægð úr þarlendum bókabúðum. Monica Gram, umboðsmaður Jóns Kalmans hjá CLA, hefur ekki fengið skýringar á hvers vegna bókin var bönnuð. „Kannski er of mikill snjór í bókinni?“ sagði hún. Harmur englanna kom út í arabískri þýðingu árið 2015. Þríleikurinn, Himnaríki og helvíti, Harmur englanna og Hjarta mannsins, hefur allur verið þýddur á arabísku. Hinar tvær bækur þríleiksins hafa enn ekki verið bannaðar enda mun minni snjór þar en í Harmi englanna. 

Þess má geta að bækur Jóns Kalmans Stefánssonar eru útgefnar á 26 tungumálum. Síðast bættist ungverska í hópinn. Arabíska er fyrsta tungumálið sem Jón Kalman er bannaður á.