Skáldsögur og kvikmyndir sem lýsa hryllilegri framtíð okkar mannanna eiga sér vísan sess í heimsbókmenntunum. Þekktust verkin af þessu tagi eru líklega 1984 (1948) eftir George Orwell og Veröld ný og góð (1931) eftir Aldous Huxley. Á síðustu misserum hefur Saga þernunnar (1985) eftir Margaret Atwood reyndar gert sig líklega til að velta þeim úr sínum heiðurssessi, einkum vegna vinsælda sjónvarpsþáttanna sem á henni byggjast. Sumir kynnu að ætla að íslenskir rithöfundar hafi vanrækt þessa merku bókmenntahefð en í bókaskápnum mínum leynast að minnsta kosti fimm skáldsögur frá síðustu áratugum sem mætti kalla dystópíur.

stalnott

Stálnótt (1987) eftir Sjón lýsir kaldranalegu lífi borgarbúa í geislavirkri Reykjavík framtíðarinnar. Fjögur hryllileg skrímsli klekjast út í eggjum sínum einhvers staðar í Breiðholtinu og leita uppi fjóra unglinga sem bera nöfn persóna úr ævintýrabókum Enid Blyton.  Þetta verk sló tóninn fyrir fleiri framtíðarsögur í líkum anda á næstu árum, þar á meðal Miðnætursólborgina (1989) eftir Jón Gnarr.

 

snaranSnaran (1968) eftir Jakobínu Sigurðardóttur hefur að geyma seiðandi óþægilegt eintal sögumanns, sópara í verksmiðju, sem ræðir við vinnufélaga sinn um persónuleg og samfélagsleg efni. Sagan á að gerast á Íslandi um 20 árum eftir að hún er skrifuð, hugsanlega árið 1984, en hún lýsir meðal annars afleiðingunum af erlendum fjárfestingum í íslenskum iðnaði og vaxandi straumi erlends vinnuafls til landsins. Gott er að hafa í huga, þegar sagan er lesin, að deilur um álverið í Straumsvík stóðu sem hæst þegar hún kom út.

 

LovestarR-300x429LoveStar (2002) eftir Andra Snæ Magnason er íslensk staðalútgáfa af áðurnefndri skáldsögu Huxleys. Aðalpersónur eru elskendurnir Indriði og Sigríður (vísun í Pilt og stúlku Jóns Thoroddsen) og alþjóðasinninn LoveStar sem sett hefur upp stærsta skemmtigarð heims á heimslóðum Jónasar Hallgrímssonar í Öxnadalnum. Stolt hans er nýstárleg aðferð við útfarir sem felst í því að skjóta hinum látnu út í gufuhvolfið, líkt og flugeldum. Ljóð Jónasar um „ástarstjörnu yfir Hraundranga“ fær hér spánýja merkingu.

 

nidjamalaraduneytidNiðjamálaráðuneytið (1967) eftir Njörð P. Njarðvík lýsir martaðarkenndu skrifræðissamfélagi framtíðar þar sem fólk þarf leyfi til að eignast saman börn. Söguhetjur eru ung hjón sem er synjað um slíkt leyfi þar sem þau tilheyra ekki réttum pólitískum flokki. Sögulokin minna á sígilda smásögu í anda O. Henry en slagkraftur verksins fólst á sínum tíma í beinskeyttri gagnrýni Njarðar á landlæga pólitíska spillingu þar sem bankalán og leyfi til innflutnings á bifreiðum byggðust á því hvar í flokki maður stóð.

 

bornin_i_humdolumBörnin í Húmdölum (2004) eftir Jökul Valsson er grallaraleg hrollvekja í anda höfunda á borð við Ramsey Campbell og Steven King. Sögusviðið er stór íbúðarblokk í Reykjavík sem virðist haldin illum anda. Sjónarhorn barnanna í blokkinni er ríkjandi og smátt og smátt kemur í ljós að eitt þeirra stjórnar hinum tortímandi kröftum sem lagt hafa hvern íbúann á fætur öðrum í valinn. Sagan er á mökum þess að vera táknræn samtímasaga (með lúmskum félagslegum boðskap) og vísindaskáldskapur; hún vísar með sínum hætti fram til vinsælla erlendra framtíðarsagna á borð við Hungurleikanna, þar sem börn og unglingar eru söguhetjur.

Á allra síðustu árum hafa allnokkrar myrkar íslenskar framtíðarsögur komið út og sumar hverjar notið verulegrar athygli. Má þar nefna Eyland (2016) eftir Sigríði Hagalín Björnsdóttur, skáldsagnaþríleikurinn Saga eftirlifenda eftir Emil Hjörvar Petersen (2010-2014) og Nýja Breiðholt (2016) eftir Kristján Atla. Hér er því um að ræða bókmenntategund sem virðist vera að festa rætur í íslensku bókmenntaflórunni.